MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi athugasemd frá Jóhanni G. Bergþórssyni: Í svari ritstj. Morgunblaðsins við athugasemdum mínum er óskað eftir að undirritaður útskýri betur hvað hann á við með staðhæfingu í athugasemdunum. Hér mun ég því leitast við að leggja fram frekari rökstuðning fyrir ýmsu því sem til umfjöllunar er og þörf er frekari skýringa á.
Athugasemdir við

athugasemdir ritstj.

MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi athugasemd frá Jóhanni G. Bergþórssyni:

Í svari ritstj. Morgunblaðsins við athugasemdum mínum er óskað eftir að undirritaður útskýri betur hvað hann á við með staðhæfingu í athugasemdunum. Hér mun ég því leitast við að leggja fram frekari rökstuðning fyrir ýmsu því sem til umfjöllunar er og þörf er frekari skýringa á. Einmitt sú staðreynd dregur frekar fram þörf á víðtækri upplýsingaleit við skrif svo umfangsmikils greinarflokks, sem í flestu var upptalning staðreynda.

Fyrst vil ég vekja athygli á því, að fyrirsögn greinar minnar vantaði að stórum hluta og því varð inngangur hennar lítt skiljanlegur. Fyrirsögn höfundar var eftirfarandi: Athugasemd vegna 4 daga skrifa Kristínar Gunnarsdóttur um afskipti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar af framkvæmdum Miðbæjar Hafnarfjarðar hf, svo og fréttaskrifum blaðsins á sama tíma um málefnið.

1. Málið er eilítið flókið, en fyrr í greininni segir að greinargerð um úthlutun lóða í miðbæ til Miðbæjar hf hafi verið lögð fram í nóvember 1991, sem er rétt. Lóðinni Fjarðargata 13-15 var úthlutað 5. nóvember 1991 til Miðbæjar Hafnarfjarðar og er það staðfest í lóðarleigusamningi. Því er rétt fullyrðing mín að lóðinni nr. 15 við Fjarðargötu hafi löngu áður verið úthlutað. Bæjarráðssamþykktin sem blaðamaðurinn vitnar í og fer rétt með, er hinsvegar röng, því hér var verið að auglýsa lóðina nr. 17 við Fjarðargötu, sem var úthlutað til ÁÁ bygginga, síðar ÁHÁ bygginga 1. desember 1992. Blaðamaðurinn hefði komist að hinu sanna með fyrirspurn, en það hlýtur að vekja upp spurningar þegar sömu lóðum er úthlutað oft. Blaðamaðurinn fer með rétta tilvitnun, sem hinsvegar byggir á misritun.

2. Varðandi 24 milljóna króna greiðsluna, er rangt með farið í fréttinni 12. október, en rétt í greininni 14. október, enda ekki gerð við hana athugasemd. Sé kaupsamningurinn skoðaður, en hann hefur blaðamaður Morgunblaðsins nú undir höndum, sést greinilega að greiðslan er vegna hótelturnsins og skal greiðslusundurliðunin rakin því til sönnunar:

1. Þegar lokið er þakfrágangi að fullu (þar með töldum þakfrágangi á öðrum hlutum hússins) kr. 2.600.000 2. Þegar lokið er frágangi glugga og hurða kr. 1.500.000 3. Þegar lokið er utanhússfrágangi kr. 1.000.000 4. Þegar lyfta er komin í húsið kr. 4.700.000 5. Þegar lagnir aðrar en raflagnir eru fullfrágengnar kr. 2.500.000 6. Þegar raflagnir og lýsing er fullfrágengin kr. 1.500.000 7. Þegar björgunarstigi er fullfrágenginn kr. 3.500.000 8. Þegar sameign hótelsamstæðu er fullfrágengin kr. 3.500.000 9. Þegar sérverkefni á 5. og 6. hæð eru frágengin kr. 700.000 10. Við lokaúttekt kr. 2.500.000 Samtals kr. 24.000.000 Á lokastigi samningagerðarinnar kom í ljós að lýsingarbúnaður í hluta bílageymslunnar var geymdur í kjallaranum og hafði ekki verið settur upp. Því var þeirri kvöð bætt við án greiðslu að lýsingin yrði sett upp og málað það sem eftir var að bílastæðum. Þetta var ekki í upphaflegum samningsdrögum og kostnaðaráætlunin sem þá lá fyrir breyttist ekki við þetta. Það var því mjög villandi að segja að bæjarsjóður leggi til 24 milljónir í lokafrágang á bílageymslu. Þar er reyndar vísað til heimildarmanns sem ekki er nafngreindur, en leiðir blaðamanninn greinilega á þessar villigötur. Ég hef því ekki rangt fyrir mér í þessu efni.

3. Yfirtaka greiðslna sem nýtt er síðan sem greiðsla á kaupverði er ekki niðurfelling. Hins vegar eru að uppfylltum ákveðnum skilyrðum gefin fyrirheit um lækkun gatnagerðargjalda.

4. "Þá er rangt farið með tölur um útgjöld bæjarins vegna samninganna." Óskað er skýringar á þessari fullyrðingu. Í fréttinni segir að útgjöld bæjarsjóðs Hafnarfjarðar vegna samningsins nemi að minnsta kosti 307 milljónum króna. Hið rétta er að útgjöld vegna kaupa á hótelturninum nema 169,1 milljón króna og vegna bílakjallarans 34,2 milljónum króna, eða samtals 203,3 milljónum króna. Leiguskuldabréfin að upphæð 49,6 milljónir eru ekki nýjar skuldbindingar, heldur breytast leigugreiðslurnar í kaupgreiðslur. Jafnvel þó þær væru taldar með, sem er rangt, yrði upphæðin ekki 307 milljónir, heldur 252,9 milljónir. Þá er ljóst að salan til SÍF hefur nú þegar gefið tæplega 8 milljóna króna endurgreiðslu og eign á besta stað í Reykjavík. Gatnagerðargjöldin hafa ekki enn verið gefin eftir, en verði af því eru eftirstöðvar þeirra nú röskar 42 milljónir króna. Raunverulegur umframkostnaður nú, burtséð frá endanlegum gatnagerðargjöldum, er 169,1-7,8+34,2= 195,5 milljónir og að frádreginni eign í Rvík. Blaðamaðurinn hefur hinsvegar greinilega lagt saman kaupsamningana, bætt aftur við þeim hluta er lýtur að frágangi hótelturnsins, 24 milljónum (sem er inni í kaupverðinu), og síðan bætt við 30 milljónum í töpuð gatnagerðargjöld.

5. Þegar JGB upplýsir í 4. tölulið um gögn, sem bæjarfulltrúar að öllum líkindum aðrir en Magnús Jón hafi ekki séð, er það til ábendingar um einhliða upplýsingaleit.

6. JGB kannast ekki við að blaðamaður hafi upplýst um atriði nefnd í 5. tölulið og finnur þau að minnsta kosti ekki í greinunum fjórum. Hér er hinsvegar verið að fjalla um vanrækslur í bæjarstjóratíð Magnúsar Jóns.

7. Í tölulið 6 greinir okkur á. Nefndin var skipuð til þess að ræða heildarsamskipti bæjarsjóðs og Miðbæjar Hafnarfjarðar hf og var ekki rætt um nein úrræði eða vanda í því sambandi. Því er framsetningin villandi að mati JGB.

8. Í tölulið 7 greinir okkur enn á, því það mikill munur á hvort höfnun er eingöngu skoðuð eða einnig samþykki.

9. Í tölulið 8 er fjallað um þann meginþátt hlutlausrar umfjöllunar, að fleiri en einn málsaðili sé heimildarmaður viðkomandi blaðamanns og hlýtur því að skipta öllu að viðhorf þeirra komi fram.

10. Í svari við 9 tölulið kemur fram að blaðamaðurinn telur markmiðssetningu samninganna allra ekki skipta máli og þar erum við algjörlega ósammála, ekki síst þegar það kemur ítrekað fram í máli blaðamannsins að aðgerðirnar séu til að leysa vanda Miðbæjar hf., ekki bæjarsjóðs.

11. Í 10 lið er aðeins bent á að ekki hafi verið gefinn nægur gaumur því sem fólst í fyrirspurnum undirritaðs, en sjálfsagt er þar aðeins um viðkvæmni að ræða.

Ástæður þess að undirritaður fann sig knúinn til þess að setja fram athugasemdirnar voru þær að í svo yfirgripsmikilli umfjöllun um svo viðkvæmt mál skiptir geysilegu máli að allt komist rétt til skila. Málefni þetta er eitt aðal umræðuefni Hafnfirðinga undanfarna mánuði og taldi ég því nauðsynlegt að koma á framfæri leiðréttingum. Þessi vinna hefur að mestu leyti hvílt á mínum herðum sem formanns Miðbæjarnefndar og hvatamanns að stofnun hennar í tíð fyrri meirihluta. Hefði verið til mín leitað hefði ég getað veitt ýmsar upplýsingar sem féllu utan þess trúnaðar sem óskað var eftir að ríkti við vinnslu þessara samninga. Ég hefði hinsvegar ekki afhent trúnaðargögn og á þann hátt geta orðið þess valdur að málin næðu ekki að leysast samkvæmt markmiðum bæjarsjóðs. Nú þegar búið er að koma málunum í nokkra höfn hafa öll spil verið lögð á borðið og bæjarbúar munu væntanlega fella sinn dóm í framhaldi af því.

Aths. ritstj.:

Í meðfylgjandi athugasemd við athugasemd Morgunblaðsins frá því í gær hefur Jóhann G. Bergþórsson orð á því, að fyrirsögn á athugasemd hans, sem birtist í blaðinu í gær, hafi verið breytt. Skýringin er augljós. Fyrirsögnin, sem Jóhann hafði sett á athugasemd sína, var svo löng, að hún átti ekki heima í dagblaði.

Að öðru leyti dregur Jóhann G. Bergþórsson til baka staðhæfingu sína um að blaðamaður Morgunblaðsins hafi farið rangt með upplýsingar um lóðina nr. 15. við Fjarðargötu. Hann upplýsir hins vegar, að bókun í fundargerð bæjarráðs, sem Morgunblaðið byggði umfjöllun sína á, hafi verið röng. Það er vandamál bæjarráðs Hafnarfjarðar en ekki Morgunblaðsins.

Jóhann G. Bergþórsson viðurkennir einnig, að réttar upplýsingar hafi komið fram í umræddum greinaflokki um 24 milljón króna greiðslu, sem hann hafði gert athugasemdir við.

Í tölulið 4 í athugasemdinni hér að ofan endurtekur Jóhann G. Bergþórsson, að Morgunblaðið hafi farið rangt með tölur um útgjöld bæjarins vegna samninganna og segir m.a.: "Jafnvel þó þær (þ.e. leigugreiðslur) væru taldar með, sem er rangt, yrði upphæðin ekki 307 milljónir heldur 252,9 milljónir."

Í fyrirsögn á baksíðu Morgunblaðsins 12. október sl. sagði:"Samningur um hluta eigna Miðbæjar hf.: Bærinn greiði nær 253 milljónir króna." Um hvað er Jóhann G. Bergþórsson að tala?

Að öðru leyti er ekki ástæða til að fjalla um ofangreinda athugasemd Jóhanns G. Bergþórssonar enda hefur ágreiningsefnum hans og Morgunblaðsins vegna umrædds greinaflokks fækkað mjög frá því í gær.