Í DAG verða opnaðar tvær sýningar á Kjarvalsstöðum. Eins konar hversdagsrómantík er titill sýningar á samtímalist sem Auður Ólafsdóttir listfræðingur setti saman fyrir Kjarvalsstaði. Á sýninguna hefur hún valið verk 16 myndlistarmanna, sem teljast til yngstu kynslóðar íslenskra myndlistarmanna.
Sýningar á byggingarlist og samtímamyndlist verða opnaðar í dag á Kjarvalsstöðum

Einskonar hvers-

dagsrómantík

Í DAG verða opnaðar tvær sýningar á Kjarvalsstöðum. Eins konar hversdagsrómantík er titill sýningar á samtímalist sem Auður Ólafsdóttir listfræðingur setti saman fyrir Kjarvalsstaði. Á sýninguna hefur hún valið verk 16 myndlistarmanna, sem teljast til yngstu kynslóðar íslenskra myndlistarmanna. Markmið sýningarinnar er meðal annars það að gera sýnilegar þær áherslubreytingar sem orðið hafa í myndlistarheiminum á undanförnum misserum og eru í deiglunni, eins og Auður segir í inngangi í sýningarskrá.

Ráðning sýningarstjóra til að hanna sýningu á Listasafninu er nýjung að sögn Auðar og má segja að þar séu Kjarvalsstaðir að fara að dæmi listasafna erlendis þar sem slíkt fyrirkomulag á uppsetningu sýninga er algengt. "Ég sé um flest það sem snýr að mótun sýningarinnar. Ég hanna hugmyndina, vel listamennina og sé um að allt gangi upp eins vel og hægt er. Ég vona að það verði framhald á þessu fyrirkomulagi hjá safninu," sagði Auður þegar Morgunblaðið ræddi við hana.

Hún sagðist snemma hafa fengið þá hugmynd að einbeita sér að yngstu kynslóðinni, þ.e. listamenn sem eru fæddir á sjöunda áratugnum og hafa nýlokið listnámi. Titill sýningarinnar er fenginn úr því sem henni þótti gegnumgangandi andi í verkunum. Hversdagsleikinn og rómantíkin kemur m.a. fram í sterkri einstaklingshyggju og vangaveltum um það hvort hægt sé að vera einlægur í listinni í dag.

Meðvituð verk

"Þessi verk eru flest tilbúin í höfðinu á listmönnunum áður en farið er að vinna þau, þetta eru mjög meðvituð verk. Frásögn er rík í verkunum og einskonar sviðsetningar eru áberandi o.s.frv. Innblástur sækja þau einnig í fyrri tíma og ef það er beint í myndlistarsöguna er það oft sett fram á kaldhæðinn og jafnvel gamansaman hátt.

Aðspurð sagði Auður að þrátt fyrir að fólk í hennar stöðu ætti ekki að vera í forspárhlutverki þá hafi hún valið listamennina vegna þess að verk þeirra gæfu mynd af stöðu myndlistarinnar í dag, að hennar áliti, og því sem er í gerjun í íslenskum listheimi. "Mér finnst kyrrð ríkjandi í verkunum og svo virðist sem annar tímaskilningur sé ríkjandi heldur en til dæmis hjá þeim sem voru að glíma við nýja málverkið fyrir 10-15 árum og voru alltaf á síðasta augnablikinu, og heimurinn á hverfanda hveli," sagði Auður. Jafnframt sagði hún að í dag væri ákveðin úrvinnsla á því sem hefur verið að gerast áberandi og vinnuferli verkanna væri dæmi um það. "Það er bjargföst skoðun mín að öll list, á hvaða tíma sem hún er gerð, sé alltaf úrvinnsla á því sem á undan er gengið og svo kalla menn þetta ýmsum nöfnum."

Aðspurð sagði hún að þrátt fyrir kyrrðina og hversdagsleikann væri sýningin lífleg og skemmtileg og fegurðin væri orðin ríkur hluti í verkum myndlistarmanna dagsins í dag.

Að lokum var Auður spurð að því hvernig henni sem sýningarstjóra litist á að vera ábyrg fyrir sýningunni og hvernig til tækist.

"Ég vona bara að það verði þannig að ég verði skömmuð og krökkunum verði hrósað," sagði hún að lokum.

Einar Sveinsson

Yfirlitssýning á verkum Einars Sveinssonar arkitekts verður einnig opnuð á Kjarvalsstöðum í dag.

Einar Sveinsson fæddist árið 1906 og lærði byggingarlist í Darmstadt í Þýskalandi. Hann hóf rekstur eigin teiknistofu í Reykjavík árið 1932 og varð einn helsti boðberi og hugmyndafræðingur notagildisstefnunnar í húsagerðarlist á Íslandi. Árið 1934 var hann ráðinn húsameistari ríkisins og gegndi hann því starfi til æviloka. Auk þess að gera uppdrætti af byggingum hafði Einar Sveinsson yfirumsjón með skipulagsmálum Reykjavíkur á árunum 1934 - 1949 og skipulagði ásamt samstarfsmönnum flest bæjarhverfi er byggðust upp á því tímabili, þ.á m. Norðurmýri, Melahverfi, Hlíðarnar, Laugarneshverfi og Vogahverfi. Fyrsta byggingin sem Einar teiknaði á vegum bæjarins var elsti hluti Laugarnesskólans. Af öðrum opinberum verkum má nefna Melaskóla, Langholtsskóla, Heilsuverndarstöðina, Borgarspítalann, Vogaskóla og Sundlaugarnar í Laugardal. Af öðrum verkum má nefna fyrstu fjölbýlishúsin með nútíma sniði við Hringbraut, árið 1942, og fyrsta íbúðarháhýsið í Reykjavík.

Sýningarnar á Kjarvalsstöðum standa til 6. desember og eru opnar daglega frá kl. 10 - 18. Morgunblaðið/Sverrir Á MEÐAL verka á sýningunni Einskonar hversdagsrómantík er þessi bíll sem boðinn verður til kaups.

EINAR Sveinsson arkitekt.