HINN 14. október sl. birtist grein eftir Braga Benediktsson prófast á Reykhólum. Óhjákvæmilegt er að gera nokkrar athugasemdir við hana þar sem í henni eru alvarlegar efnislegar villur eða misskilningur. Það hefur lengi verið áhugamál íbúum í Reykhólahreppi að brú verði byggð yfir Gilsfjörð sem skiljanlegt er. Vegurinn fyrir Gilsfjörð er viðsjárverður.

Nokkrir punktar um

Gilsfjarðarbrúna

Stjórnmálamenn eiga að vinna með íbúunum, segir Halldór Blöndal , að góðri framkvæmd vegaáætlunar. HINN 14. október sl. birtist grein eftir Braga Benediktsson prófast á Reykhólum. Óhjákvæmilegt er að gera nokkrar athugasemdir við hana þar sem í henni eru alvarlegar efnislegar villur eða misskilningur.

Það hefur lengi verið áhugamál íbúum í Reykhólahreppi að brú verði byggð yfir Gilsfjörð sem skiljanlegt er. Vegurinn fyrir Gilsfjörð er viðsjárverður. Þar er snjóflóðahætta og aurskriður ekki ótíðar. Því miður er það svo víðar á landinu og verður seint girt fyrir það með öllu að vegfarendum geti stafað hætta af snjóflóðum. Þrátt fyrir Óshlíðarveg og Múlagöng eru snjóflóð enn tíðust og hættulegust á vegunum umhverfis Ísafjörð og á Múlavegi. Mér er brigslað um skeytingarleysi gagnvart Gilsfjarðarbrú. Áður en ég varð samgönguráðherra hafði einungist 9 millj. kr. verið varið til verkefnisins, en samkvæmt gildandi vegaáætlun er gert ráð fyrir 840 millj. kr. til Gilsfjarðar á árunum 1995­1998. Það er öldungis ljóst að sú vegaáætlun sem ég lagði fyrir Alþingi fyrr á þessu ári ræður úrslitum um að brúin yfir Gilsfjörð skuli yfirleitt vera á dagskrá.

Á árinu 1992 var efnt til sérstaks átaks í vegamálum sem beindist m.a. að því að hraða framkvæmdum í Reykjavík og flýta þýðingarmiklum köflum á hringveginum en ljúka öðrum, sem höfðu afgerandi þýðingu fyrir einstök byggðarlög. Gott dæmi um slíka framkvæmd er vegurinn yfir Hálfdán. Ákvörðun var tekin um að ljúka veginum milli Akureyrar og Reykjavíkur og ráðist í að byggja brýr yfir Kúðafljót og Jökulsá í Dal. Ekkert svigrúm var til þess að leggja til hliðar 840 millj. kr. vegna brúar yfir Gilsfjörð. Það er verulegt fé og má kannski segja að þingmenn annarra kjördæma en Vestfjarða hafi sýnt verkefninu mikinn skilning með því að þeir skyldu samþykkja að svo miklu fé yrði veitt til þess samtímis jarðgöngunum fyrir vestan.

Þótt brú komi yfir Gilsfjörð fer því fjarri að björninn sé unninn. Enn vantar uppbyggðan veg um Þorskafjarðarheiði sem myndi stytta leiðina til Ísafjarðar um 70 kílómetra. Kostnaður við slíka veglagningu yrði 400­450 millj. kr. og ugglaust ekki minna þótt Kollafjarðarheiði yrði farin. Vegur vestur Barðastrandarsýslu til Vatnsfjarðar kostar 1.200­1.300 millj. kr. Á þetta er minnt til að sýna að fjarlægðir vestra eru miklar og um heiðar og fyrir firði að fara. En auðvitað mun vegurinn yfir Gilsfjörð nýtast íbúum Reykhólahrepps til fulls og skal ég verða fyrstur manna til að óska þeim til hamingju þegar fyrsti bíllinn fer yfir brúna.

Síðasti vetur var snjóþungur og kostnaður við snjómokstur fór upp úr öllu valdi. Þannig varð kostnaðurinn við vetrarþjónustu frá Stórholti í Saurbæ að Reykhólum 30,9 millj. kr. Það er verulegt fé. Í heild fór snjómoksturinn 400 millj. kr. fram úr þeirri áætlun sem Vegagerðin hafði gert og byggð var á reynslutölum síðustu ára. Auðvitað hlaut það að bitna á öðrum verkefnum Vegagerðarinnar því að sömu peningarnir verða ekki notaðir tvisvar. Á þessu ári var gert ráð fyrir 65 millj. kr. til brúar yfir Gilsfjörð. Það skiptir engu um verklok Gilsfjarðarbrúar hvort þessu fé hafi verið eytt á sl. sumri eða það geymt til næsta árs. Íbúar Reykhólahrepps vita flestum betur hvaða þýðingu góðar og öruggar vegasamgöngur hafa. Ég trúi ekki öðru en þeir hafi skilning á því að það geti verið nauðsynlegt að hnika framlögum til á vegaáætlun til að flýta verklokum. Mér segir hugur um að það muni verða gert haustið 1997 til þess að Gilsfjarðarbrú geti nýst yfir veturinn þótt veruleg framlög falli til framkvæmdarinnar á árinu 1998. Þannig hljótum við stjórnmálamenn að vinna með íbúunum að góðri framkvæmd vegaáætlunar af því að féð hlýtur alltaf að verða minna en viljinn til þess að eyða því.

Samkvæmt fjárlögum er gert ráð fyrir niðurskurði á vegaáætlun. Ég hef tekið ákvörðun um að öllum útboðum Vegagerðarinnar skuli frestað til þess að þingmenn einstakra kjördæma geti áttað sig á hinni nýju stöðu og haft áhrif á hvernig að frestun vegaframkvæmda verði staðið. Með þessu er ég ekki að segja að framkvæmdum við Gilsfjarðarbrú verði frestað. Ég er einungis að segja að ég sem ráðherra hlýt að vinna á ábyrgan hátt að þeim málum sem mér er trúað fyrir.

Höfundur er samgönguráðherra.

Halldór Blöndal