SÉRKENNILEGT miðnæturlíf um helgar í miðbæ Reykjavíkur hefur verið til umræðu. Nokkur vandræðagangur hefur verið á umræðunni ekki síður en á næturlífinu. Ekki hefur unga fólkið lagt orð í belg að ráði þótt spjótin beinist að því. Meira heyrist í fullorðnum sem flestir eru sjálfsagt foreldrar.

Miðbæjarlíf

Við þurfum að leysa málin í samvinnu við unga fólkið, segir Valgarður Egilsson , sem hér skrifar um miðbæinn.

SÉRKENNILEGT miðnæturlíf um helgar í miðbæ Reykjavíkur hefur verið til umræðu. Nokkur vandræðagangur hefur verið á umræðunni ekki síður en á næturlífinu. Ekki hefur unga fólkið lagt orð í belg að ráði þótt spjótin beinist að því. Meira heyrist í fullorðnum sem flestir eru sjálfsagt foreldrar.

Heyrst hafa tillögur um að koma fyrir myndavélum á götuhornum og að auka löggæslu, hvort tveggja má reyna. Þá hefur heyrst að hækka skyldi sjálfræðisaldur úr 16 í 18 ár. Allt ber þetta keim af aflsmun, síður að laða megi fram betri manninn í unglingum okkar.

Sumar bannreglur eru nauðsynlegar en ekki allar. Það er oft árangurslítið að banna unglingum hlutina nema annað sé betra að bjóða, og er þetta kjarni málsins. Gildir víðar um uppeldismál.

Í íbúðarhverfum borgarinnar er fátt við að vera þegar út fyrir veggi heimilanna er komið. Það er ekkert skrýtið þótt ungt fólk langi til að fara af bæ og hitta annað ungt fólk - á öðrum vettvangi en heimaslóð - það er að skoða annað ungt fólk. Og þetta er landkönnun. Niðri í bæ er fólkið.

Þegar niður í miðbæ er komið hefur unga fólkið ekkert þak yfir höfuðið. Á aldrinum 15 til 18 ára fá unglingar ekki aðgang að danshúsum enda vínveitingaleyfi þar víðast. Unglingar á aldrinum 15-20 ára eru einmitt sá hópur sem mest gaman hefur af að dansa. Dans er vinsælasti leikur unglinga.

Litumst aftur um. Ég sagði að í íbúðarhverfum væri fátt við að vera. Niðri í miðbæ er unga fólkið - í sjálfu sér gott - en semsé, þar er þá heldur ekkert við að vera og ekki einu sinni þak yfir höfuðið, hvað þá annað.

Hér þarf að taka á. Í miðbænum þarf að bjóða marga möguleika fyrir ungt fólk síðdegis og fram á kvöld, föstudaga og laugardaga. Nefni það sem fyrst blasir við: Undir þaki má bjóða upp á dans, þar má hafa kaffi- og setustofur, þar má bjóða leiki af ýmsu tagi, meðal annars spil og tafl, jafnvel íþróttir, s.s. borðtennis, píluskot, biljarð, o.s.frv. Þar mega vera stofur fyrir tónlist, leiklist eða sagnalist, þar má m.a.s. hafa lesstofur, þar má sýna kvikmyndir, þurfa ekki að vera morðmyndir, jafnvel myndir Davids Attenborough myndu vinsælar. Margt annað má láta sér koma í hug. Unglingar kunna vel að skemmta sér sjálfir, enda er það oft skemmtilegra en að láta aðra skemmta sér.

Bönn ein og skammir duga ekki, heldur ekki það að hækka sjálfræðisaldur úr 16 í 18 ár. Skyldi mönnum hugkvæmast næst að hækka markið í 20 ár? Það er grafalvarlegt mál að taka mannréttindi af fólki. Spurningin varðar almenna lífsspeki og slíkt á ekki að gera umræðulaust. Með því værum við að færa mannréttindi þessa unga fólks í hendur foreldrum sem sannanlega hefur oft mistekist. Íslendingar eru varla búnir að læra að ala upp nýtt fólk í þéttbýli. Kannski lærist það. Að fornu fengu menn oft mannaforráð fyrir tvítugt. Þá þótti það sjálfsagt. Fyrr á þessari öld tóku menn skipstjórn 15-16 ára.

Í vesturbænum þar sem undirritaður býr er ekki hægt að fara í fótbolta lengur - fyrr en í mílu fjarlægð. Hver lófastór blettur er lagður undir götur og einkalóðir. M.ö.o. það býður ekki upp á útileiki eða hreyfingu. Úr því er hægt að bæta. Í borgum erlendis rífa menn ónýt hús og gera að vistsvæði í staðinn. Vonandi þykir það ekki of frumlegt í okkar borg. Eða að taka götustubba frá fyrir útileiki.

Það sem hér var stungið upp á að gera fyrir miðbæinn, það kynni að kosta fé. Við getum reyndar ekki bara ljósritað aðferðir annarra borga. Það hefur aldrei verið byggð höfuðborg áður á svo köldu landi - því má kalla það tilraun. En við þær sérstöku aðstæður þurfum við kannski að hafa sérstakt vit fyrir okkur. Enda ekki allt til fyrirmyndar í erlendum borgum. Við þurfum eiginlega að gera betur en þar er gert. Það er langur vegur milli forsvaranlegs uppeldis og ágæts uppeldis.

Þeir sem áhuga hafa á að lífga upp á miðbæinn ættu að fagna því að fá til liðs þennan bráð-lífmikla efnivið sem 3-5.000 unglingar eru. Hvað fá menn betra? Þeir sem áhyggjur hafa af helgarlífi í miðbænum þurfa þá að hugsa um þetta: Hverng má laða betri manninn fram í unglingum okkar?

Ungt fólk er of skemmtilegt til að daufheyrst verði við þessum sjónarmiðum. Þótt fé þyrfti að kosta til, þá er hitt lakara ef unglingarnir kynnast einungis hráslaganum, þá tapa þeir af æsku sinni, og sumir tapast jafnvel alveg. Við eigum ekkert annað. Í stað þess að láta kenna aflsmunar, þá skulum við fá þá með okkur.

Höfundur er læknir og rithöfundur.

Valgarður Egilsson