VERÐSTRÍÐ á kartöflum, sem hófst í verslunum á höfuðborgarsvæðinu á miðvikudag, og enn sér ekki fyrir endann á, virðist eiga rót sína að rekja til harðrar samkeppni meðal dreifingarfyrirtækja. Dreifingarfyrirtækið Mata hf., reynir nú að hasla sér völl á kartöflumarkaðnum með því að bjóða lægra verð. Í september bauðst Mata til að kaupa stærsta dreifingaraðila jarðepla, Ágæti hf.
Hörð samkeppni á kartöflumarkaðnum

Mata haslar sér völl

Reyndi að kaupa Ágæti hf.

VERÐSTRÍÐ á kartöflum, sem hófst í verslunum á höfuðborgarsvæðinu á miðvikudag, og enn sér ekki fyrir endann á, virðist eiga rót sína að rekja til harðrar samkeppni meðal dreifingarfyrirtækja. Dreifingarfyrirtækið Mata hf., reynir nú að hasla sér völl á kartöflumarkaðnum með því að bjóða lægra verð. Í september bauðst Mata til að kaupa stærsta dreifingaraðila jarðepla, Ágæti hf., að hluta eða öllu leyti en tilboðinu var hafnað.

Verðstríðið hófst á miðvikudag þegar Kári Ingólfsson, eigandi Álfheimabúðarinnar, bauð kílóið af jarðeplum á 49 krónur en þangað til var algengt að tveggja kílóa poki væri seldur á 250-290 krónur. Að sögn Kára gerir góður samningur við dreifingarfyrirtækið Mata honum kleift að bjóða kartöflur á þessu verði enda sé smásöluálagningu haldið í lágmarki. Algengt er að kartöflur og aðrir jarðávextir lækki í verði á haustin þegar framboðið eykst en hin mikla lækkun nú virðist einnig eiga rót sína að rekja til þess að nýr dreifingaraðili, Mata hf. reynir nú að stórauka hlutdeild sína á markaðnum.

"Óþarfa streita"

Matthías H. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ágætis, spáir því að verðstríðinu linni um helgina. Engar forsendur séu í raun fyrir áframhaldandi stríði þar sem kartöfluuppskera sé í minna lagi. "Segja má að þessi mikla lækkun sé einstakt skot út í loftið og endurspegli óþarfa streitu og ýfingar milli dreifingarfyrirtækja. Mata reyndi að kaupa sig inn í Ágæti og gerði öllum hluthöfum okkar tilboð en vildi ekki kaupa nema það næði meirihluta í fyrirtækinu. Það gekk ekki eftir og áður en við vissum voru þeir komnir út í verðstríð."

Mata flytur aðallega inn grænmeti og ávexti en hefur til þessa ekki verið áberandi í dreifingu innlendra kartaflna. Nú er greinilega að verða breyting þar á. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ætlar Mata að hasla sér völl á kartöflumarkaðnum með góðu eða illu og hið stórlækkaða verð sé aðeins fyrsta skrefið í öflugri markaðssókn. Önnur dreifingarfyrirtæki hafa fylgt í kjölfarið og bjóða nú kartöflur á mun lægra verði en áður en óvíst er hve lengi það stendur.

Innflutningur fyrr á ferðinni

Gunnar Gíslason, framkvæmdastjóri Mata, staðfestir að fyrirtækið hafi áhuga á að kaupa Ágæti hf. að hluta eða öllu leyti. "Um nokkra hríð höfum við stefnt að því að ná ítökum á kartöflumarkaðnum og besta leiðin til þess er auðvitað sú að ganga inn í Ágæti sem er stærsta dreifingarfyrirtækið á kartöflum. Í lok september buðum við hluthöfum þess að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu á genginu 1,5. Það hlýtur að teljast gott tilboð enda hefur Ágæti verið rekið með tapi á síðustu árum og er innra virði þess 0,66 þegar tillit hefur verið tekið til ofmats á fasteign. Þessu tilboði var hins vegar ekki tekið og því þurfum við nú að brjótast inn á þennan markað sjálfir, m.a. með því að bjóða lægra verð. Að sjálfsögðu bregðast samkeppnisaðilarnir hart við og lækka sitt verð á móti."

Gunnar vill engu spá um framvindu "verðstríðsins" en segir að vel geti verið að það haldi áfram um sinn. "Þótt íslenska uppskeran sé aðeins í meðallagi er engin ástæða til að selja hana dýru verði enda er nú í fyrsta sinn hægt að flytja inn kartöflur allt árið. Ég sé alveg fyrir mér innflutning á erlendum kartöflum þegar líða tekur á veturinn og gæðum hinna íslensku fer að hraka. Hinar erlendu verða vafalaust dýrari vegna ofurtolla en okkar reynsla er sú að þorri neytenda sé tilbúinn að greiða hærra verð fyrir betri vöru. Lítil uppskera er því ekki lengur forsenda fyrir háu kartöfluverði og segja má að sölutímabil íslenskra kartaflna styttist vegna GATT."