819. þáttur Í Landnámabók stendur: "Þeirra son var Ketill gufa, er átti Ýri Geirmundardóttur." Ég feitletraði hér orðmyndina Ýrivegna beygingarinnar. Nafnið er þarna í þolfalli. Kvenheitið Ýr(r)var fátítt. Það er náttúrunafn eins og svo mörg önnur.
ÍSLENSKT MÁL

Umsjónarmaður Gísli Jónsson

819. þáttur

Í Landnámabók stendur: "Þeirra son var Ketill gufa, er átti Ýri Geirmundardóttur." Ég feitletraði hér orðmyndina Ýri vegna beygingarinnar. Nafnið er þarna í þolfalli. Kvenheitið Ýr(r) var fátítt. Það er náttúrunafn eins og svo mörg önnur. Glæsileg hornprúð nautgripategund var úruxi, kvendýrið nefndist ýrr .

Þolfallið Ýri í Landnámu staðfestir það sem segir í fræðibókum að orðið Ýr(r) væri io -stofn. Sú beyging er gefin í öllum uppflettibókum. Nafnið beygist því eins og Hildur og Sigríður , það er: Ýr(r) , um Ýri , frá Ýri , til Ýrar . Mikill þarfleysa er að hafa uppi þá fornaldarstælingu (arkaisma) að skrifa nafnið með tveimur err- um. Það er hliðstætt því að við værum að baksast við að skrifa en Einarr og Þorgeirr. Hitt er þó meira mál að beygja nafnið rétt, því að nú er Ýr á skömmum tíma orðið tískunafn, en langoftast seinna nafn af tveimur. Kemur þá að því sem sagði í síðasta þætti, en tekið var upp úr Tungutaki : "Oft virðist vera tilhneiging til að beygja aðeins síðara nafn karla en fyrra nafn kvenna (auðk. hér). Þá er eins og karlanöfnin renni saman í eitt samsett nafn en síðari kvenmannsnöfnin hagi sér líkt og óbeygð kenninöfn ."

Þarna var komið að kjarna málsins. Fjöldi fólks beygir ekki nafnið Ýr . Slíkt var altítt í fréttum blaða og varpa ekki fyrir löngu: Dæmi: "Í viðtali við Elínu Ýr", þar sem vera á Elínu Ýri .

Lærdómurinn af þessu: Góðir foreldrar, veljið ekki nöfn á börnin ykkar nema þið ætlið og kunnið að beygja þau. Hitt er bjarnargreiði og engir foreldrar vilja börnum sínum illt í skírninni.

Eftir á að hyggja þykir rétt að geta þess, að margir io -stofnar, sem beygðust eins og ýrr , hafa breytt um nefnifall. Þannig hefur eyrr orðið eyri , merr orðið meri og heiðr orðið heiði . Þetta er vafalítið áhrifsbreyting frá þolfalli og þágufalli. Og til þess að halda sem flestu til skila, skal þess enn geta, að Ýrr Geirmundardóttir heljarskinns heitir í sumum handritum Landnámu Ýri .

Svakaleg kona er Sveina,

samt mætti við hana reyna

eins og af vana

ég ávarpa hana:

"Ó, fjallið mitt, fjallið eina."

(Kristján málari.)

Er Sigurður á Sörla gamla hleypti

(ég sel það ekki dýrara en ég keypti)

í gegnum stóra gluggann,

það gekk ekkert að hugg 'ann;

svo mörg voru þau glerbrot sem hann gleypti.

(Magnús Óskarsson). Ekki er það sjaldgæft í skólum að nemendur séu hvattir til að vera stuttorðir og gagnorðir, svo sem í stíl Ara fróða Þorgilssonar (1067­1148). Það bar til í skóla, að nemendur fengu að velja um hvorki meira né minna en sex ritgerðarefni: 1) Sitt er hvað, gæfa og gjörvileiki. 2) Vímuefnaneysla unglinga. 3) Blítt lætur veröldin. 4) Ísland, land í stórum heimi. 5) Þegnar framtíðarinnar. 6) Fordómar á Íslandi.

Fyrr en varði komst þetta á kreik: "Veröldin, sem Ísland er hluti af, lætur oft blítt, en frá hinum stóra heimi fá þegnar framtíðarinnar á Íslandi vímuefnavandann, svo að gjörvilegir unglingar verða ekki gæfumenn, heldur fyllast fordómum."

Fáein orð um tímann

Sekúnda er tökuorð úr latínu (úr pars minuta secunda ="annar (síðari) minnkaði tíminn"), sjá næsta orð.

Mínúta er einnig tökuorð úr latínu (úr pars minuta prima = "fyrri minnkaði tíminn").

Í latínunni er pars kvenkyns og þess vegna eru töluorðin í kvenkyni: prima og secunda.

Stund er í þriðju hljóðskiptaröð við standa , líklega það sem "stendur yfir". Vika , líklega skylt víkja og merkir þá einhvers konar skiptitími, víxltími. Mánuður er eiginlega sá sem mælir (tímann) og hefur þá sömu merkingu og máni , en hann höfðu menn löngum fyrir tímamæli. Til er orðið mél í merkingunni tímabil.

[Þorkell skinnvefja var] "hár maður og mjór og langt upp klofinn, handsíður og liðaljótur og hafði mjóa fingur og langa, þunnleitur og langleitur, og lágu hátt kinnarbeinin, tannber og tannljótur, úteygður og munnvíður, hálslangur og höfuðmikill, herðalítill og miðdigur, fæturnir langir og mjóvir; frár var hann og fimur við hvervetna, örðigur og erjusamur og hollur um hvervetna þeim er hann þjónaði". (Bárðar saga Snæfellsáss.)

Ég frétti um daginn að "aðili hefði verið nefbrotinn í miðborg Reykjavíkur". Nú fylgdi ekki sögunni hvers konar aðili þetta var og mér datt fyrst í hug að spyrja um "aðila vinnumarkaðarins". En við nánari eftirgrennslan kom í ljós að þetta var bara maður .

Mikið yndi er að hlusta á Eyrbyggju . Hafi Þorsteinn skáld frá Hamri sæll lesið. Auk þess eru þess dæmi, að fólk, sem ofalið er á bandarískum hryllingsmyndum, hafi misskilið eftirfarandi ritningarstað: "Takið á yður mitt ok og lærið af mér." ( Matt . 11,29.) En blessaður sé sá ungi maður sem sagði í útvarpinu sl. sunnudag: "Klukkuna vantar fjórðung í sjö."