Í AFAR snjöllu Reykjavíkurbréfií Mbl. 21. maí sl. segir m.a.: "Geðsjúkdómar hafa nokkra sérstöðu. Þeim hafa um aldir fylgt þekkingarleysi, ótti, og fordómar." Og síðar segir: "Hinir geðsjúku munu ekki láta í sér heyra. Þeir eiga ekki auðvelt með að berjast fyrir eigin hagsmunum.

Geðheilsa og menning

Kiwanishreyfingin og fleiri mannúðarfélög, segir Magnús Skúlason , eiga ómældan heiður skilinn fyrir baráttu sína fyrir bættum hag geðsjúkra.

Í AFAR snjöllu Reykjavíkurbréfi í Mbl. 21. maí sl. segir m.a.: "Geðsjúkdómar hafa nokkra sérstöðu. Þeim hafa um aldir fylgt þekkingarleysi, ótti, og fordómar." Og síðar segir: "Hinir geðsjúku munu ekki láta í sér heyra. Þeir eiga ekki auðvelt með að berjast fyrir eigin hagsmunum. Þrátt fyrir miklar framfarir hafa læknavísindin ekki komist fyrir rót geðsjúkdóma, og fordómarnir eru svo miklir að enn í dag reynir fólk að fela þetta vandamál í fjölskyldum sínum eða skammast sín fyrir að viðurkenna að það sé til staðar. Aðstæður til eftirmeðferðar og langtímaumönnunar eru enn langt frá því fullnægjandi og í sumum tilvikum varla hægt að bjóða fólki upp á hana." Ennfremur: "Tímabært er að hefja umræður um ný átök til þess að bæta aðstöðu til meðferðar á geðsjúku fólki á Íslandi. Við skulum temja okkur að spara á öðrum en þeim sem minnst mega sín." Þetta verður ekki betur orðað.

Í grein í Mbl. 31. ágúst sl. segir Guðmundur J. Guðmundsson m.a. á sinn umbúðalausa hátt: "Mér finnst þetta fólk og aðstandendur þess standa svo varnarlaust. Þjóðfélagið er svo sjúkt af fordómum í garð þessa sjúkdóms að aðstandendur í angist sinni reyna allt til að fela hann. Við erum öll meira eða minna haldin þessum fordómum. Mér finnst erfiðast að koma í vinnu tveim hópum, manna þ.e. fyrrverandi geðsjúkum og fyrrverandi föngum." Og síðar segir: "Við lifum á tímum vaxandi notkunar vímuefna, atvinnuleysis og að ýmsu leyti harðnandi tíma. Það felur í sér aukna sjúkdóma af þessu tagi. Þörfin fyrir aukna hjálp til þessa fólks er svo knýjandi að því verður ekki með orðum lýst. Þjóðfélagið verður að breyta afstöðu sinni ­ það verður að leggja meira fé til lækninga við þessum sjúkdómum Almenningur í landinu verður að leggja þessa fordóma til hliðar. Mig hryllir við ef ráðamenn þjóðarinnar ætla að fara að spara með því að minnka fjárveitingu til lækningar sjúkra, slíkt er níðingsverk, sem á eftir að skapa aukna óhamingju í þessu þjóðfélagi." Eigi er ofmælt þótt fast sé að kveðið.

Undirritaður sagði í grein í Mbl. 21. okt. '89 m.a.: "Í raun ætti ekki að þurfa að fjölyrða um þetta. Stuðningur og umhyggja af því tagi sem hér um ræðir er bæði siðferðileg og lagaleg skylda samfélagsins, stjórnvalda og okkar allra í nútíma þjóðfélagi. Væri allt með felldu hefði því átt að vera fyllsti óþarfi að berjast fyrir þessum málstað, en svo er því miður ekki því eins og kunnugt er fyrirfinnast enn ýmsar slíkar skyldur sem gleymst hafa í glaumi og óráðsíuhætti nútímans. Þjónusta við geðsjúka virðist enn vera olnbogabarn félags- og heilbrigðisþjónustu og njóta ófullnægjandi skilnings og áhuga. Enn er fjöldi erfiðra verkefna sem vinna þarf að til að bæta geðheilbrigðisþjónustuna.

Geðsjúkir búa mjög oft við kröpp kjör og erfiðar félagslegar aðstæður, og sjúkleiki þeirra er í sjálfu sér nægileg og ærin byrði þó að ekki sé aukið á hann með ófullnægjandi geðmeðferð, ófullkominni félagslegri þjónustu- og tryggingakerfi, húsnæðis- og féleysi og stórskertri aðstöðu til lágmarks lífsgæða. Sparnaður á þessu sviði er nánasarháttur sem er ekki samboðinn nútíma samfélagi. Hann er í raun mjög kostnaðarsamur til lengdar og skammsýn óheillastefna að aukinni upplausn menningar, ójöfnuði og annarri lágkúru." Allt of fátt hefur breyst til batnaðar síðan 1989.

Þótt allir hugsandi menn, og undirritaður telur sig auðvitað í þeirra hópi (!), hafi iðulega hinar þyngstu áhyggjur af veikindum hinna sjúku og aðstæðum þeirra, þá verð ég samt að gera þá játningu, að enn meiri kvíðboga veldur mér stundum brenglun og siðblinda hinna "heilbrigðu", sem er í raun hinn mesti þjáningavaldur sjúkra og margfalt háskalegri lífinu öllu (kannski að lyfjaframleiðendur eigi eftir að finna meðal við þessu?). En afstaða samfélagsins til hinna veikustu og verst settu er líklega einn traustasti mælikvarði á menningarstig þess og gildismat. Það mun allt koma í ljós. En á meðan duttlungafull forgangsröðun valdsmanna og hins opinbera beinist hvað mest að malbiki, steinsteypu, stækkuðum gorkúlum úr stáli og gleri og neðansjávarborgöngum til að "spara" tuttugu mínútna akstur (til hvers?), þá veitir ekki af því að almenningur og sjálfstæð samtök af ýmsu tagi taki á þessum alvarlegu tilfinningamálum, og Kiwanishreyfingin og fleiri mannúðarfélög eiga ómældan heiður og þakkir skildar fyrir geysilega þrautseigju sína í baráttunni fyrir bættum hag geðsjúkra.

Höfundur er geðlæknir og starfar á geðdeild Landspítalans.

Magnús Skúlason