Hans Engell formaðurdanska ÍhaldsflokksinsNorðurlöndin komast í tísku á ný Hans Engell, formaður danska Íhaldsflokksins, telur það skyldu Dana að styðja við bakið á dönskukennslu á Íslandi.
Hans Engell formaður danska Íhaldsflokksins Norður-

löndin komast

í tísku á nýHans Engell, formaður danska Íhaldsflokksins, telur það skyldu Dana að styðja við bakið á dönskukennslu á Íslandi. Er hann fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um öflugan fjárstuðning til að styrkja stöðu dönskunnar hér á landi. Í samtali við Steingrím Sigurgeirsson segist Engell sannfærður um nauðsyn þess að viðhalda nánu samstarfi Norðurlanda og að Norðurlönd eigi eftir að komast í tísku meðal yngri kynslóðanna eftir því sem tengslin við umheiminn aukast.HANS ENGELL, formaður danska Íhaldsflokksins, hefur ásamt tveimur flokksbræðrum sínum, þeim Frank Dahlgaard og Henning Grove, lagt fram tillögu til þingsályktunar á danska þinginu um að dönskukennsla á Íslandi verði studd með 120 milljóna króna fjárframlagi á næstu fimm árum. Norðurlöndin og tengsl Danmerkur og Íslands eru Engell mikið hjartans mál og hann talar af mikilli sannfæringu og tilfinningu er hann er spurður um ástæður þess að hann ákvað að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Hann segist fullviss um að með aukinni samvinnu Evrópuþjóða, sem hann styður heilshugar, muni Norðurlöndin jafnframt skynja betur það sem þau eiga sameiginlegt.

"Ástæða þess að þessi tillaga er lögð fram er sú umræða um stöðu danskrar tungu er hefur átt sér stað jafnt á Íslandi sem í Danmörku. Sem Norðurlandasinni og formaður íhaldshópsins í Norðurlandaráði hef ég fylgst grannt með þessari umræðu.

Það er ljóst að þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið gert, ekki síst í gegnum sendiráð Dana í Reykjavík, á undanförnum árum hefur Danmörk að mínu mati vanrækt það hlutverk sitt að styrkja stöðu dönskunnar hér. Við höfum ekki gert nóg," segir Engell.

Hann segist vilja leggja ríka áherslu á að ekki megi túlka þessar skoðanir né þingfrumvarpið þannig að verið sé að hafa afskipti af málefnum Íslendinga. "Þið ráðið því fullkomlega hvernig þið byggið upp menntakerfi ykkar og við Danir eigum ekki að hafa afskipti af því. En á meðan danskan er fyrsta erlenda tungumálið sem kennt er í íslenskum skólum munum við hafa áhuga á að treysta stöðu dönskunnar. Ég er sammála því sem Vigdís Finnbogadóttir forseti sagði nýlega í tímaritsgrein að tungan er lykillinn að hinni norrænu sjálfsímynd. Við Norðurlandabúar verðum að gera okkur grein fyrir því að tungan er sterkasta sameiningartákn okkar. Það að við getum átt tjáskipti okkar á milli á okkar eigin tungumálum er einstakt. Ef við missum þann hæfileika missum við mikið."

Í tillögu Engells í danska þinginu er lagt til að allt að tíu milljónum danskra króna verði á næstu fimm árum varið til að styrkja stöðu dönskunnar á Íslandi í menntakerfinu og á menningarsviðinu, en það samsvarar um 120 milljónum íslenskra króna. Hann segir að þegar þessu tímabili lýkur eigi að meta í samráði við Íslendinga hvort þessi aðstoð hafi haft einhver áhrif og hversu mikil þau hafi verið. Í greinargerð með frumvarpinu eru nefnd ýmis dæmi um verkefni sem nota mætti féð til að styrkja, s.s. nemendaskipti, listsýningar og kennslumyndbönd. "Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að það sé sérstaklega mikilvægt að ná til kennara, það er að segja þeirra sem miðla danskri tungu til nemenda. Það er einstaklega mikilvægt að þeir fái einnig tækifæri til að kynnast Danmörku."

Engilsaxnesk áhrif

Engell bendir á að á Íslandi og í Danmörku fari menn ekki varhluta af þeirri flóðbylgju engilsaxneskra menningaráhrifa, sem hvarvetna megi finna. Ungmennum þyki enskan spennandi sökum áhrifa frá sjónvarpsþáttum og popptónlist. "Ef við reynum ekki að tryggja stöðu norrænnar tungu mun enginn annar gera það fyrir okkur."

Hann vitnar einnig til greinar Aldísar Sigurðardóttur, lektors í dönsku við Háskóla Íslands, í tímaritinu Nyt fra Island , þar sem hún segir að rétt eins og eldur og ást þrífist ekki án næringar sé ekki hægt að viðhalda áhuganum á hinu norræna án þess að ný næring komi til. "Þetta er fallega sagt og þetta er rétt," segir Engell.

Hann segir líklegt að frumvarpið um stuðning við dönskukennslu verði afgreitt í danska þinginu í byrjun næsta árs og er vongóður um að það fái jákvæða afgreiðslu. Skipti þar ekki minnstu máli að viðbrögðin á Íslandi hafi verið einstaklega jákvæð. "Það skiptir miklu máli að fá svona mikinn stuðning frá Íslendingum og ég vona að nægilegur stuðningur sé í þinginu. Við höfum þegar tekið þetta mál upp í viðræðum við ríkisstjórn Danmerkur og viðbrögð hennar lofa góðu."

Aðspurður um hvort hægt væri að fá norræn tungumál til að höfða til ungmenna í auknum mæli án þess að nýta sér fjölmiðla á borð við sjónvarp sagði Engell að menn mættu ekki halda að hægt væri að skáka bandarísku áhrifunum með því að setja á laggirnar norrænt gervihnattasjónvarp. Hins vegar væri mikilvægt að nýta sér sjónvarpið sem miðil og mætti til að mynda ná miklum árangri með auknu samstarfi hinna ríkisreknu sjónvarpsstöðva.

"Við getum náð ýmsu fram með auknu samtarfi á sviði sjónvarps, en megum samt ekki gera okkur neinar vonir um að það sé einhver töfralausn. Evrópa án landamæra gæti raunar styrkt Norðurlöndin sem svæði. Norðurlöndin verða að hafa eitthvert gildi í sjálfu sér ef þau eiga að höfða til yngri kynslóðanna. Ég er sannfærður um að Norðurlöndin gætu komist í mikla tísku á ný. Eftir því sem umheimurinn, Evrópa og Bandaríkin, færast nær okkur verðum við meðvitaðri um sérstöðu okkar. Við getum nýtt okkur hina nýju fjölmiðlatækni en við getum aldrei sigrað Bandaríkjamenn á þeim vettvangi. Norrænu bókmenntaverðlaunin hafa hins vegar skipt miklu máli. Íslenskir verðlaunahafar hafa til dæmis orðið til að kynna Dönum nútímabókmenntalist Íslendinga. Á menningarsviðinu getum við náð lengst með samvinnu á sviði bókmennta og tónlistar."

Verður að endurskipuleggja Norðurlandaráð

Þegar Engell er spurður hvort ekki sé hætta á því með Evrópusambandsaðild Svía og Finna og áður Dana að ungmenni einbeiti sér frekar að því að læra tungumál sem skipta miklu máli innan ESB á borð við þýsku og frönsku en norræn tungumál segir hann það vissulega geta gerst. "Það er raunar mikil hætta á þessari þróun og því hef ég lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að nútímavæða Norðurlandasamstarfið. Við verðum að endurskipuleggja starf Norðurlandaráðs þannig að hið pólitíska mikilvægi þess aukist. Annars er hætta á því að menn muni í sífellt auknum mæli beina augum sínum til Brussel einvörðungu. Við verðum líka að einbeita okkur að samstarfi á þeim sviðum sem almenningur lætur sig miklu varða. Eins og er einbeitum við okkur að of mörgum hlutum. Við dreifum fjármagninu í of mörg verkefni. Við verðum að láta verkefni sem skila sjáanlegum árangri hafa forgang. Íbúar Norðurlandannna verða að verða varir við árangur Norðurlandasamstarfsins."

Hann segir að þeir sjö milljarðar íslenskra króna sem árlega sé varið til þessa starfs verði að skila sér betur til fólksins. "Við þurfum á minni skriffinnsku að halda, það er að mínu mati mikilvægt," segir Engell.

Sameinumst í Evrópu

Hann minnir einnig á að margir hafi borið þann draum í brjósti að Norðurlöndin myndu sameinast sem ein heild innan Evrópusambandsins. "Ég held að við ættum mikla möguleika sem svæði innan ESB. Norðmenn og Íslendingar hafa hins vegar ákveðið að taka ekki þátt í þessu samstarfi og það virðum við. Við getum hins vegar gert Norðurlandasamstarfið að tengingu við Evrópusamstarfið."

Engell segist vera mjög bjartsýnn hvað varðar framtíð Norðurlandanna. Norðurlöndin hafi lengi verið "púkaleg" en hann telji miklar líkur á nýrri norrænni gullöld. "Við höfum mikla sérstöðu á alþjóðavettvangi hvað gildismat varðar. Þó að Danir, Íslendingar, Norðmenn, Svíar og Finnar séu mjög ólíkir innbyrðis þá eru viðhorf okkar áþekk, áhrif náttúrunnar og ljóssins á menninguna. Norðurlöndin eiga eftir að koma í tísku á ný meðal ungmenna eftir því sem við tengjumst öðrum ríkjum nánari böndum. Hin jákvæða þjóðernishyggja hefur mjög sterkar rætur á Norðurlöndunum og hún á eftir að verða öflugri með aukinni alþjóðavæðingu. Við verðum hins vegar einnig að taka frumkvæðið og gefa hinu norræna samstarfi aukna næringu."

Morgunblaðið/Kristinn HANS Engell, formaður danska Íhaldsflokksins.