Ásdís Guðmundsdóttir Mig langar að minnast hér í nokkrum orðum á hana ömmu mína sem hefur verið mér svo kær. Allt frá því að ég var lítil stelpa hefur tilhlökkunin verið mikil að fara til Vestmannaeyja og hitta hana ömmu í Héðó. Amma var alltaf létt í lund og mjög hreinskilin svo að oft gat manni nú brugðið þegar hún sagði það sem aðrir hugsuðu, en það var alltaf sagt þannig að enginn móðgaðist eða særðist enda leyfði hún viðkomandi ekki að komast upp með það. Já, það var oft hlegið dátt í Héðó og á ég margar góðar endurminningar þaðan og alltaf var margt um manninn þar.

Í ágúst sl. hitti ég hana ömmu á nýja heimilinu sínu, Sjúkrahúsi Vestmannaeyja, og þar var hún komin með mjög fallegt og vistlegt herbergi, og sá ég þá strax að þarna liði henni vel enda leið aldrei sá dagur að börnin hennar í Vestmannaeyjum litu ekki inn og styttu henni stundir.

Í dag kveð ég hana ömmu mína með miklum söknuði og bið ég góðan Guð að styrkja alla í sorginni. Hvíl þú í friði, elsku amma mín.

Ásdís Garðarsdóttir.