Ásdís Guðmundsdóttir Úr ljóði Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi "Konan sem kyndir ofninn minn" má lesa mannlýsingu sem um margt svipar til hennar ömmu okkar í Vestmannaeyjum.

Þó svo að við systkinin höfum aldrei verið búsett í Vestmannaeyjum og því ekki haft stöðug samskipti við hana í gegnum árin fann maður samt alltaf fyrir nálægð hennar, að ekki sé nú talað um þegar ættingjar komu saman. Þá var líkt og einhver læddist inn með eldhúslampann sinn og maður vissi að amma var efst í hugum allra.

Í lífi allra skiptast á skin og skúrir en þó að stundum hafi ekki bara verið um skúrir að ræða í lífi ömmu heldur hreint og klárt úrfelli þá sagði hún samt aldrei neitt, þó væri hún dauða þreytt, en gladdist frekar yfir sólskinsstundunum. Hún fór að engu óð, var öllum mönnum góð og vann verk sín hljóð.

Ekki lagði amma mikið upp úr veraldlegum auð, henni þótti mest um vert að hafa húsaskjól og daglegt brauð. Í þeim efnum sem og öðrum setti hún ekki sjálfa sig efst á forgangslistann, þar gengu afkomendurnir ávallt fyrir og ef það var einhverntíma nefnt að hún þyrfti að hugsa svolítið um sjálfa sig mátti alltaf finna einhvern sem hafði það verra.

Í lífsgæðakapphlaupi nútímans er hverjum manni hollt að hugsa um það hvernig kona sem eignast hefur 15 börn og 73 barna- og barnabarnabörn gat alltaf sett sjálfa sig aftast í forgangsröðina og hafði alltaf næga mildi og kærleik handa öllum.

Alltaf var það amma sem kynti ofn hlýjunnar, henti út öskunni og blés í glæðurnar, þannig að öllum leið vel í návist hennar og þegar lokastundin tók að nálgast var hún svo sátt við lífið og dauðann að það var eins og hún læddist út um dyr þessa heims og lokaði á eftir sér. Handan við þær dyr hefur afi örugglega beðið í fríðum hópi þeirra sjö afkomenda sem farnir voru á undan henni og þar hafa tvö yngstu systkini okkar Ásdís og Magni tekið fagnandi á móti ömmu.

Við systkinin og fjölskyldur okkar kveðjum ömmu með hlýhug og virðingu.

Halldór, Bergrós og Gísli.