Jón Helgi Sveinbjörnsson Minn elskulegi faðir hefur kvatt þetta líf eftir stutta en erfiða baráttu við lungnakrabbamein. Hann gat verið heima mestallan tímann eins og hann óskaði sér með hjálp mömmu. En var svo síðustu sólarhringana á Héraðssjúkrahúsinu á Blönduósi í góðri umönnun lækna og hjúkrunarfólks og hafi þau þökk fyrir.

Pabbi var fæddur Skagfirðingur og ólst upp á ýmsum stöðum í Skagafirði. Hann missti föður sinn þegar hann var 16 ára og varð því snemma að fara að bjarga sér. Þegar pabbi var á þrítugsaldri fór hann í nám til Reykjavíkur í bifvélavirkjun. Þar kynntust foreldrar mínir en hófu búskap á Blönduósi 1947. Rak pabbi bifreiðaverkstæði þar, sem hann missti í eldsvoða og gerði það að verkum að þau fluttu nær eignalaus að Orrastöðum í Torfalækjarhreppi 1950 og byrjuðu þar búskap af litlum efnum. Tveimur árum seinna fluttu þau að Meðalheimi í Ásum, fyrst í torfbæ en byggðu þar nýtt íbúðarhús og útihús af miklum krafti. 1958 bilaði heilsan hjá þeim báðum og heimilið leystist upp um tíma. Við börnin sex fórum í fóstur til ættingja mömmu og vorum þar þangað til þau gátu tekið okkur aftur. Pabba var ráðlagt að hætta búskap vegna heilsu sinnar og settust þau að í Garðabæ og vann pabbi við bílaviðgerðir o.fl. ásamt Gunnari bróður sínum sem þar bjó.

Árið 1964 bauðst þeim Þórormstunga í Vatnsdal til leigu og varð freistingin hjá pabba eftir sveitabúskapnum öllu öðru yfirsterkari og var flutt norður inn í 100 ára gamlan torfbæ þar sem við áttum heima í tvö og hálft ár meðan byggt var nýtt íbúðarhús. Hann elskaði að vera bóndi, sérstaklega fjárbóndi og sé ég hann fyrir mér sitjandi á garðabandinu með pípuna sína og horfandi á kindurnar éta af garðanum.

Árið 1976 brugðu þau búi og fluttu til Blönduóss og vann hann sem prjónari hjá Pólarprjón hf. þangað til hann hætti vegna aldurs. Pabbi var sístarfandi og vildi drífa hlutina áfram. Eins var þegar við vorum á ferðalögum saman, þá mátti hann varla vera að því að stoppa til að teygja úr sér og var oft gert gaman að. Hann tók upp á því þegar hann hætti að vinna að fara að smíða muni úr viði. Með aðstoð frá mömmu tókst honum mjög vel upp og seldi og gaf mikið af þeim. Fóru þau á útimarkaði víða um landið og hafði ég lúmskt gaman af kraftinum í honum við þetta.

Var hann einnig mjög virkur í félagsstarfi eldri borgara á Blönduósi, einn af fáum karlmönnum í föndrinu, og lífgaði upp á kvennahópinn.

Hann hafði einnig gaman af garðinum sínum og gróðursetti fjölda trjáa þar. Pabbi var gestrisinn og glaðsinna en dálítið vínhneigður og setti það stundum skugga á líf okkar, en hann var að eðlisfari mjög friðsamur og voru sjaldan illindi í kringum hann. Hann hafði skemmtilegan og stundum skrautlegan frásagnarmáta og þegar við vildum ekki alveg trúa því sem hann sagði, bætti hann oft við: "Þetta er alveg satt." Hann lá ekki á skoðunum sínum um menn og málefni og gat stundum orðið heitt í kolunum þegar við tókumst hressilega á í málefnaágreiningi og varð mamma stundum að stoppa okkur.

Það verður söknuður að hafa pabba ekki á sínum stað og erfitt að venjast brotthvarfi hans úr lífi okkar.

Ég vil þakka honum fyrir samveruna hér á jörð og ég hlakka til að hitta hann aftur í ókominni framtíð með bæn um að honum gangi vel í nýjum heimkynnum. Guð blessi hann.

Ragnhildur.