Jón Helgi Sveinbjörnsson Elsku afi minn.

Nú ert þú horfinn sjónum mínum en ég veit að þú verður alltaf til staðar í hjarta mínu. Það er erfiður biti að kyngja, því að ég á ekki eins greiðan aðgang að þér og áður. Ég veit í rauninni ekki hvar þú ert, en ég hef samt mikla trú á því að þú sért í kringum okkur. Það er svo margt sem ég kynntist í gegn um þig, því þú ert gæddur svo miklu hugmyndaflugi og þú gefst ekki upp. Eins og þegar aldurinn stöðvaði þig á vinnumarkaðinum, þá fannst þú upp á annarskonar verkefni ásamt henni ömmu minni og það var að smíða allskonar hluti úr viði, sem gladdi okkur afkomendurna þegar við opnuðum jólapakkana.

Einnig minnist ég þess þegar þér fannst það tímasóun að labba á eftir garðsláttuvélinni, þá ákvaðstu að steypa hellur til að helluleggja garðinn. Flestir hefðu nú keypt hellurnar en þú varðst að vera fullviss um að þær væru almennilega gerðar. Þetta kalla ég atorkusemi. Það sem er mér allra minnisstæðast var þegar þú tókst nokkra afkomendur þína (ásamt mér) í ferðalag til að "skoða" Vestfjarðakjálkann. Ég held að enginn hafi slegið þetta hraðamet sem þú settir þá. Ætlunin var að skoða landið í rólegheitum en mottóið þitt var "það er best að drífa þetta af" og alltaf þegar ég heyri þetta orð "drífa" þá man ég eftir þér.

Ég gæti haldið áfram að telja upp minnisstæða atburði en ég held að þú vitir alveg hve mikils virði þú ert mér og ég hef trú á því að þú finnir mínar hugsanir til þín án þess að ég noti blað og penna. Ég vona að þú hafir það sem allra best þar sem þú ert og láttu hana ömmu mína finna það að hún sé ekki ein í heiminum, því ég held að hún þarfnist þess mest núna.

Ég sendi mínar bestu kveðjur.

Þín dótturdóttir,

Margrét Helgadóttir.