Finnbogi Jón Rögnvaldsson

Lofa skal dag að kveldi stendur skrifað, en það er fátt að lofa þegar maður fær fréttir af andláti vinar, hugurinn fyllist sorg og söknuði og maður spyr almættið. Hvað á þetta að þýða?

Maður í blóma lífsins hrifinn burt frá eiginkonu, þremur dætrum, foreldrum og systkinum. Ég sé ekkert réttlæti í því að foreldrar þurfi að lifa börnin sín. Vegir Guðs eru órannsakanlegir og víst eru þeir það. Sorg og gleði haldast oft í hendur, og þegar minningarnar fara að streyma um hugann fyllist ég ósjálfrátt gleði og ætla ég nú með fáum orðum að minnast míns góða vinar, Finnboga Jóns Rögnvaldssonar.

Kynni okkar hófust á Seyðisfirði haustið 1967. Þá var hann rétt 15 ára. Fyrst vissi ég lítið um drenginn annað en að hann var sonur Rögnvalds í Langatanga og litli bróðir Guðnýjar Dóru sem ég aldrei hafði séð en svo oft heyrt minnst á.

Í minningu minni var Finnbogi snaggaralegur strákur, óvenju flinkur með fótbolta og alltaf með syni bakarans, Einari. Strax árið eftir kynntist ég fjölskyldunni í Langatanga en svo var húsið nefnt sem þau buggu í. Heimili fjölskyldunnar stóð öllum opið, held ég, allavega naut ég þar fádæma hlýju og gestrisni og gleymist það aldrei ungri stúlku sem var komin langt að.

Þessi kynni hafa staðið allar götur síðan þó samband hafi oft verið með minna móti. Hafa jólakveðjur yljað og minnt mann á.

Kornungur gekk hann að eiga æskuunnustu sína Kolbrúnu Sigfúsdóttur og eignuðust þau þrjár dætur, allar ákaflega yndislegar, enda foreldrarnir ákaflega samhentir um uppeldi þeirra. Finnbogi var fádæma barngóður, glettinn og kannski svolítið stríðinn og lék sér gjarnan við börn á þeirra forsendum.

Finnbogi gerði miklar kröfur til sjálfs sín og varð dapur ef hann að eigin mati gat ekki staðið við þær. Hann var mjög duglegur og ósérhlífinn og saman eignuðust þau Kolla mjög fallegt heimili í Garðabænum. Fáa hef ég þekkt sem hafa talað jafn fallega um maka sinn og börn og Finnbogi. Foreldrar og systkini voru honum einnig kær og sagði hann einstaklega skemmtilega frá ýmsum upákomum hjá fjölskyldunni. Það var alltaf gaman að hitta Finnboga eða heyra í honum í síma.

Við deildum oft, þá aðallega um pólitík, en skildum alltaf jöfn, hvorugt sigraði hitt. Alla jafna endaði deilan á þann veg að Finnbogi sagði: "Jæja, frú Ingibjörg. Það er ekki öll "Tíkin" eins."

Síðast hitti ég Finnboga í ágúst sl. inni í Hvalfirði. Hann þurfti að reka símaerindi vegna vinnu sinnar en dvaldi í sumarbústað í Svínadalnum sem hann byggði ásamt föður sínum. Ég var á leið í Skorradalinn með fjölskyldu minni. Finnbogi var hress að vanda, strákslegur og kvikur. Hann sagði okkur frá langþráðri gönguferð með föður sínum sem þeir höfðu nýlokið við. Ekki man ég alveg hver gönguleiðin var en einhver gömul þjóðleið niður til Eskifjarðar var farin. Var hann bæði glaður og stoltur yfir þessari ferð og sagðist hafa mátt hafa sig allan við til að halda í við "karl". Þeir feðgar voru mjög nánir félagar.

Ég mun sakna Finnboga, tel mig lánsama að hafa átt hann að félaga og einnig að hafa þá guðstrú að geta kvatt á þennan hátt.

Kæri Finnbogi, hafðu þökk fyrir samfylgdina, hittumst síðar.

Elsku Kolla, dætur, foreldrar og systkin: Guð gefi ykkur styrk á sorgarstundu. Með orðum Kahlil Gibrans: "Þegar þú ert sorgmæddur skoðaðu þá aftur huga þinn og þú munt sjá að þú grætur vegna þess sem var gleði þín."

Ingibjörg Ottesen.