Finnbogi Jón Rögnvaldsson

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

(V. Briem.) Mér finnast þessi orð passa vel, er ég kveð vin minn, Finnboga Rögnvaldsson, sem dó langt um aldur fram á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg eftir mjög erfið veikindi í kjölfar lifrarígræðslu.

Ég man þann dag vel er ég sá Finnboga í fyrsta sinn. Það var á Fæðingarheimili Reykajvíkurborgar, er unnusta hans og síðar lífsförunautur, Kolbrún Sigfúsdóttir frænka mín, fæddi þeim frumburð sinn, Huldu Guðnýju. Mér leist strax vel á Finnboga og alla tíð hefur hann reynst mér og mínum vel. Hann var húsasmíðameistari að mennt. Allt lék í höndum hans, greiðvikinn var hann með afbrigðum og hörkuduglegur.

Hann bjó fjölskyldu sinni fagurt heimili með dyggri aðstoð eiginkonu sinnar og var mjög stoltur af stelpunum sínum öllum. Margar ánægjustundir átti ég og fjölskylda mín á heimili þeirra og í sumarhúsinu í Svínadal.

Finnbogi kvaddi þennan heim frá eiginkonu, þrem dætrum, Huldu Guðnýju, Lindu Báru og Elfu Dögg, foreldrum, systkinum og mörgum góðum ættingjum og vinum.

Ég bið góðan Guð að styrkja þau og styðja í þessari miklu sorg. Þér, kæri vinur, óska ég góðrar heimkomu á annað tilverustig.

Blessuð sé minning þín.

Dögg Björgvinsdóttir.