Finnbogi Jón Rögnvaldsson

Að morgni laugardagsins 14. október kom Linda Bára til mín og bar mér þau sorgartíðindi að pabbi sinn væri dáinn. Finnbogi dáinn, þetta gat ekki verið, þetta kom á mig sem reiðarslag sem ég vildi ekki trúa, þó svo að ég hafi vitað að hann væri mikið veikur. En þeir eru órannsakanlegir, vegir guðs.

Finnboga kynntist ég þegar ég fluttist í Garðabæinn, nánar til tekið í Lyngmóana, þá sex ára gömul. Ég og Linda Bára dóttir hans urðum fljótt bestu vinkonur og máttum varla hvor af annarri sjá. Varð ég því brátt heimalningur hjá Kollu og Finnboga. Alltaf var ég velkomin á heimili þeirra og leit ég á Finnboga sem vin sem auðvelt var að leita ráða hjá. Alltaf var stutt í grínið og gamanið og þótti mér ákaflega gaman að vera í kringum hann. Sérstaklega eru mér minnisstæðar ferðir okkar þriggja, mín, Lindu og Finnboga upp í sumarbústað í Vatnaskógi, draumastað fjölskyldunnar. Á þessum tíma var enn verið að smíða og reyndum við Linda að hjálpa til en vorum í raun bara að þvælast fyrir. Þrátt fyrir það heyrðust aldrei skammir frá Finnboga því hann gat alltaf séð broslegu hliðina á því sem við gerðum af okkur. Sumarbústaðurinn í Vatnaskógi verður góð minning um þennan duglega mann, þar sem hann eyddi mörgum stundum við að smíða sumarbústaðinn og gera hann sem allra fallegastan.

Þó að samskiptin á milli okkar hafi minnkað með tímanum vissi ég að ég var ávallt velkomin í Hlíðabyggðina og var alltaf tekið vel á móti mér, ávallt var það Finnbogi sem sló á létta strengi. Sjaldan er það að maður kynnist manneskju sem ætíð er hrókur alls fagnaðar en það var Finnbogi. Ávallt í góðu skapi.

Mér er mikill söknuður og eftirsjá að Finnboga og mun ég minnast hans með mikilli virðingu og þakklæti. Aldrei mun ég gleyma öllum þeim góðu stundum sem við áttum saman. Ég vil með þessum fátæklegu orðum kveðja góðan vin.

Elsku Linda mín, Kolbrún, Hulda, Elfa, og aðrir ástvinir sem eiga um sárt að binda. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð á þessum sorgartímum. Þeir sem átt hafa mikið, missa mikið, þeirra er sorgin mest.

Ásta Sveinsdóttir.