Finnbogi Jón Rögnvaldsson

Stundum finnst manni lífið svo hverfult og ósanngjarnt, sérstaklega þegar ungt fólk í blóma lífsins deyr.

Mig langar að minnast lítillega, hans Finnboga Jóns Rögnvaldssonar. Kynni mín af honum voru ekki mikil, en ég má til með að þakka honum þá hjartahlýju og góðmennsku sem ég og mín fjölskylda fundum frá honum og þá sérstaklega börnin okkar. Barnelska er nokkuð sem ég met svo mikils í fari fólks.

Þegar ég kynntist eiginmanni mínum, frænda hans og nafna Alfreðssyni, fannst mér oft svo einkennilegt að fimm af sex systkinum (þ.e.a.s. feður þeirra og systkini) skyldu skíra börnin sín Finnbogi eftir afa þeirra. Það tók mig heillangan tíma að greina á milli allra þessara Finnboga. Ég kynntist þeim einum af öðrum en lengi vel vissi ég það eitt um Finnboga Rögnvaldsson að hann byggi í Garðabæ og væri smiður. Árið 1989 þegar við hjónin festum kaup á íbúð, sem þurfti að lagfæra, þá ákvað ég að slá tvær flugur í einu höggi, að hringja í hann og athuga hvort hann gæti tekið verkið að sér og þá í leiðinni að fá að kynnast honum. Hann tók verkið að sér með ljúfri lund og leysti það vel af hendi. Tókust upp frá því kynni milli okkar fjölskyldna. Þegar verkinu lauk bauð ég þeim hjónum í mat og kom yngsta dóttir þeirra með og fór ekki milli mála hversu barngóður og hjartahlýr hann var, því sú yngsta sótti mikið í pabba sinn.

Þótt lítið samband hafi verið milli okkar beint, þá vissum við alltaf hvort af öðru. Við fluttum síðar út á land og létu þau hjón sig ekki muna um að keyra yfir eina heiði til Vopnafjarðar til að líta á okkur, enda hafði hann alltaf áhuga á því hvernig gengi og hvernig börnunum liði. Einnig hringdi hann af og til og þá eingöngu til að athuga hvernig okkur liði og var notalegt til þess að vita þó annar samgangur væri ekki mikill. Síðast í febrúar hringdi hann sem áður og athugaði hvernig við hefðum það. Ég hélt þá að hann þyrfti auðvitað að tala við nafna sinn og tjáði honum að hann væri rétt farinn í vinnuna. En hann var bara að hringja til að athuga hvernig mér liði þar sem ég var ófrísk á þessum tíma og hvernig börnin hefðu það, hvernig reksturinn gengi og allt þar fram eftir götunum. Ég var lengi á eftir undrandi á því að hann vildi bara tala við mig um hvernig við hefðum það. Ég sagði honum að þau hjón ættu að líta inn þegar þau færu sunnudagsrúntinn og sagði hann mér að þau hefðu reynt í tvígang, en því miður vorum við ekki heima.

Þegar að kveðjustund er komið vil ég þakka fyrir að hafa kynnst honum Finnboga Rögnvaldssyni svo góður, hjartahlýr og barngóður sem hann var. Alltaf svo stoltur þegar hann talaði um dætur sínar, eiginkonu og sumarbústaðinn, sem hann byggði sjálfur og dvaldi nánast í um hverja helgi yfir sumarið með fjölskyldu sinni. Finnboga varð ekki tíðrætt um sjálfan sig og hann kvartaði aldrei.

Við hjónin biðjum góðan guð að styrkja eiginkonu hans og dætur, sem hafa misst svo mikið, og aðra aðstandendur.

Minningin um góðan dreng mun lifa með okkur.

Sesselja Pétursdóttir.