Finnbogi Jón Rögnvaldsson

Okkur langar í örfáum orðum að minnast og kveðja mág okkar og svila Finnboga Rögnvaldssson.

Við þekktum hann yfir 25 ár og hann var alltaf elskulegur, hjálpsamur og hrókur alls fagnaðar. Þær voru ófáar ánægjustundirnar sem við áttum á heimili Finnboga og Kollu og var þá hlegið mikið og gantast. Ekki var síður tilhlökkun þegar von var á fjölskyldunni úr Hlíðarbyggðinni austur til okkar. Þá fórum við gjarna í dagsferðir hér í kring. Ættarmótin á Ketilsstöðum og Ormarsstöðum voru líka alltaf ánægjuleg. Síðast komu Finnbogi og Kolla austur í ágúst í sumar.

Ef veikindi voru annars vegar og við þurftum að dveljast í Reykjavík stóð heimili Finnboga okkur ætíð opið og öll hjálp sjálfsögð af hans hendi.

Okkur er minnisstæð yndisleg helgi sem við áttum með þeim hjónum fyrir tveimur árum í fallega sumarbústaðnum þeirra. Þennan sumarbústað byggði Finnbogi og var alltaf að fegra hann og bæta. Finnbogi var mjög laghentur og smíðaði margt fallegt fyrir sig og var alltaf tilbúinn að gera slíkt hið sama fyrir aðra.

Finnbogi var sérlega barngóður. Allir krakkar, bæði hans og aðrir, löðuðust að honum. Okkar stelpur voru oft búnar að vera í góðu yfirlæti hjá Kollu, Finnboga og stelpunum þeirra. Hann var ekki sjaldan búinn að keyra þær í bíó, sund eða bara út í sjoppu.

Já, ánægjustundirnar eru margar og við geymum þær vel.

Það kom okkur öllum á óvart þegar það fréttist að Finnbogi væri alvarlega veikur. Við erum búin að vona og biðja um að honum myndi batna. Kolla og dæturnar ásamt fleiri aðstandendum eru búin að vera hjá honum í Svíþjóð þennan erfiða mánuð. Von og ótti hefur skipst á í hugum okkar. En Finnboga, þessum góða dreng, var ætlað annað hlutskipti en að vera lengur hér á meðal okkar. Hann andaðist aðfaranótt 14. október. Það er mikill missir að honum.

Er hnígur sól að hafsins djúpi

og hulin sorg á brjóstin knýr,

vér minnumst þeirra, er dóu í draumi

um djarft og voldugt ævintýr.

(Jóhannes úr Kötlum) Kæri Finnbogi, við söknum þín öll.

Elsku Kolla, Elfa, Linda, Hulda Guðný, Helgi, foreldrar og systkini; ykkar missir er mikill. Við vonum að góður guð megi styrkja ykkur í þessari miklu sorg.

Edda og Valdimar, Egilsstöðum.