Finnbogi Jón Rögnvaldsson

Okkur er sérlega minnisstæð ein sunnudagsheimsókn í Hlíðarbyggðina til Kollu og Finnboga fyrir um einu og hálfu ári. Dóttir okkar var þá tveggja mánaða gömul og oftast óróleg seinni hluta dags. Þrátt fyrir mikla móðurhæfileika viðstaddra kvenna kvartaði hún hástöfum og var lítill friður til samræðna. Þá birtist Finnbogi, en hann hafði verið að vinna eins og vanalega, þrátt fyrir að flestir ættu frí. Tók hann stúlkuna strax í fang sér, gekk með hana um gólf og róaðist hún um leið. Hafði hann þannig ofan af fyrir henni langa stund og undi hún sér mjög vel. Eftir þetta fannst okkur Finnbogi alltaf eiga ákveðna hlutdeild í henni enda sagði hann stundum sposkur á svip að hann væri sá eini sem hefði nokkurt lag á henni.

Þessi frásögn lýsir nokkrum af mörgum góðum kostum Finnboga. Þrátt fyrir að hann væri undantekningarlaust hrókur alls fagnaðar þegar fjölskyldan eða vinir söfnuðust saman, þá var hann svo barngóður og ljúfur að öll börn hændust að honum um leið. En það voru ekki bara litlu börnin sem nutu góðs af mannkostum Finnboga, hann var alla tíð boðinn og búinn að hjálpa okkur, hvort sem það var eitthvað sem tengdist smíðavinnu eða öðru.

Finnbogi var frá okkur kallaður í blóma lífsins og við söknum hans mikið. Við getum ekki fengið hann sjálfan til okkar aftur en við getum haldið minningu hans á loft með því rifja upp þau samskipti sem við áttum við hann og með því að muna hann eins og hann var.

Elsku Kolla, Hulda Guðný, Linda Bára og Elfa Dögg. Þið eruð konurnar sem Finnbogi lifði fyrir og missir ykkar er mikill. Megi góður guð styrkja ykkur í sorginni.

Stefanía og Hilmar.