Afmæli

GUÐNÝ ÞÓRA

ÁRNADÓTTIR

GUÐNÝ ÞÓRA varð á ungum aldri ástfangin af hugsjón jafnaðarstefnunnar. Þeirri æskuást hefur hún verið trú allt sitt líf. Þess vegna hefur mér alltaf fundist að hún ætti heima í samtökum ungra jafnaðarmanna ­ þeirra sem horfa með vonarglampa æskunnar í augum ­ til framtíðarinnar.

Það breytir engu þótt almanakið segi að Guðný Þóra teljist vera orðin áttræð. Það hefur ekki breytt henni sjálfri í neinu sem máli skiptir. Og það breytir heldur ekki því, hvernig við, vinir hennar og aðdáendur, upplifum hana og hugsum til hennar.

Guðný Þóra er því sem næst jafnaldra Alþýðuflokksins. Hún er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún var bara táningsstelpa, þegar heimskreppan herjaði á alþýðuheimilin í Reykjavík, eins og annars staðar um heimsbyggðina. Hún veit því vel hvað það er að eiga sér drauma, sem aldrei gátu ræst. En hún lærði það líka snemma að æðrast ekki þótt á móti blési, og að taka því sem að höndum bæri með brosi á vör. Hún hafði eld í æðum og það hvarflaði aldrei að henni að láta lífsstritið smækka sig. Hún hefur aldrei glatað sinni meðfæddu glaðværð og lífsgleði, enda örlæti og gjafmildi hennar aðalsmerki.

Hún var ung Salka Valka sem vann í fiski. Hún var blómarósin í Alþýðubrauðgerðinni. Hún var matráðskona á fjölmennum vinnustöðum, ekki bara í Reykjavík heldur heldur líka vestur á fjörðum. Og hún var gestgjafinn örláti í Bjarkarlundi, sem tók fagnandi þreyttum ferðalöngum sem komu hraktir stundum langan veg af fjallvegum Vestfjarða. Þar bar fundum hennar og okkar Bryndísar saman fyrst. Síðan er eins og við höfum alltaf þekkst.

Guðný giftist í byrjun stríðsins Kristjáni Guðmundssyni bifreiðastjóra. Þau áttu saman þrjú börn en áður átti Guðný son. Niðjar hennar eru orðnir margir eins og hæfir þroskuðum aldri. Eitthvað hefur það nú kostað að koma því liði öllu á legg. En aldrei hefur Guðný Þóra látið það hvarfla að sér þar fyrir að vanrækja æskuástina sína ­ jafnaðarstefnuna og Alþýðuflokkinn.

Hún hefur ekki bara setið í stjórnum Kvenfélags Alþýðuflokksins og Verkakvennafélagsins Framsóknar. Hún hefur ævinlega verið boðin og búin til að gera það sem gera þurfti fyrir þessi félög og fyrir hugsjónina. Hún hefur aldrei látið sig vanta á fundi. Hún hefur ævinlega verið boðin og búin til sjálfboðaliðastarfa, þegar eftir hefur verið leitað. Og þegar kallið kemur mætir hún með glettni í auga og bros á vör og bjartsýnina í farangrinum, sem léttir öðrum lundina og hvetur til dáða.

Og svo er hún svo falleg að það birtir til hvar sem hún fer. Og þar sem saman fer fegurð, glaðværð, örlyndi, örlæti og bjartsýni ­ þar er glatt á hjalla og þar er gaman að vera. Guðný tekur á móti gestum laugardaginn 21. október í matsalnum að Furugerði 1 kl. 15:30. Þar munum við samfagna henni og þakka fyrir ánægjulega samfylgd. Til hamingju með daginn.

Jón Baldvin og Bryndís.