Finnbogi Jón Rögnvaldsson Já, vinir berast burt með tímans straumi og blómin fölna á einni hélunótt.

Fyrir um það bil 25 árum byrjaði að vinna hjá mér ungur mjög dugnaðarlegur og kraftmikill piltur sem verkamaður í byggingarvinnu.

Það var nú daglegt brauð á þeim árum að menn komu og fóru, en þessi ungi piltur var ekki að hugsa um að fara, hafði áhuga á öllu sem honum var sett fyrir að gera og vann sér traust og virðingu allra sem með honum unnu fyrir dugnað og trúmennsku.

Hann hafði áhuga á að læra húsasmíði og var mér mjög mikil ánægja í því að taka hann í nám, því ég sá að í honum bjó mikið mannsefni sem myndi verða stétt okkar til sóma, bæði hvað vandvirkni og dugnað snerti.

Finnbogi vann hjá mér, sem nemandi, í fjögur ár og svo í mörg ár að námi loknu og alltaf reyndist hann sem hinn trausti og frábæri starfsmaður, alltaf léttur og kátur og einstaklega hlýr og notalegur í öllum okkar samskiptum.

Eitt sumar var Finnbogi verkstjóri hjá mér við mikla fjósbyggingu í Laxárnesi í Kjós. Man ég vel hvað piltarnir voru ánægðir með stjórn hans á hlutunum, samfara dugnaði, ósérhlífni og þægilegu viðmóti.

En svo skildu leiðir og hann fór að vinna sjálfstætt. Frétti ég oft að allt gengi vel og að hann hefði unnið sér traust og vinsemd þeirra sem hann vann fyrir.

Finnbogi var geysilega duglegur og harður við sjálfan sig og mikill vinnuþjarkur, kom upp heimilinu og sumarhúsinu þeirra að mestu eða öllu leyti á þeim tíma sem flestir taka sér frí og oft hugsa ég að hann hafi bætt svona fjórum til sex klukkutímum við fullan venjulegan vinnudag.

Við hittumst stöku sinnum og þá rifjuðust upp ótal mörg skemmtileg atriði frá lærdómsárunum og öðrum liðnum tímum er hann vann hjá mér. Oft hafði hann orð á því, bæði við mig og sína góðu starfsfélaga, að við þyrftum að hittast og eiga góða kvöldstund saman, allir nemendurnir mínir frá liðnum árum og ég.

Já, víst er um það að við hefðum allir notið þeirrar stundar ef af hefði orðið. Það sannast hér eins og svo oft áður að það má aldrei geyma til morguns það sem maður getur gert í dag, því við vitum aldrei hvar við dönsum næstu jól.

Og nú er þessi góði félagi fallinn í valinn svo langt um aldur fram og við stöndum hér harmi slegin yfir þessu fráfalli sem var svo óvænt.

Finnbogi eignaðist frábæra konu sem stóð eins og hetja við hlið hans alla tíð þar til yfir lauk. Þau eignuðust þrjár yndislegar dætur, sannkallaða sólargeisla, eins og hann sagði stundum við mig og þá sá maður alltaf hvað hann varð glaður og hlýr er hann minntist á þennan dýrmæta fjársjóð þeirra hjónanna.

Við hjónin og börnin okkar öll kveðjum þig nú og þökkum þér af alhug alla hlýjuna og notalegheitin sem þú sýndir okkur ávallt og biðjum þér allrar blessunar á fyrirheitna landinu. Konunni þinni, dætrunum, foreldrum, systkinum svo og öðrum ættingjum og vinum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Kristinn Sveinsson.