Ásdís Guðmundsdóttir Elsku amma mín, upp er runnin kveðjustundin. Það er mjög skrítið að fá ekki að sjá þig á hverjum degi og spjalla við þig um lífið og tilveruna. Hláturinn mildi og brosið þitt, skapið góða, réttlætiskennd þín og raunsæi, alls þess á ég eftiri að minnast. Það var svo gaman að koma til þín, þú hafðir alltaf tíma fyrir hvern og einn. Ég man einu sinni þegar ég spurði þig: "Amma, hvernig ferðu að því að lesa, hlusta á útvarp og prjóna?" Hvað þú gast hlegið mikið. Þessi minning er mjög sterk því þannig varst þú, þér féll aldrei verk úr hendi og ævinlega varst þú svo jákvæð. Elsku amma mín, ég á eftir að sakna þín, en ég veit að nú ert þú komin til afa og barnanna ykkar sem fóru á undan þér. Þakka þér fyrir þitt góða vegarnesti sem þú gafst mér. Minning þín mun ávallt lifa í hjarta mínu.

Ásdís Andrésdóttir.