Ásdís Guðmundsdóttir Æ, hvart ertu amma?

Já, ansaðu mér,

ég er að gráta og leita að þér.

Fórstu út úr bænum

eða fórstu út á hlað,

eða fórstu til Jesú á sælunnar stað.

(Höf. óþekktur.) Elsku amma mín, þá ert þú farin í ferðalagið og eflaust búin að hitta afa og börnin þín fimm, sem þú átt þarna fyrir handan. Það er ljúfsárt að kveðja þig eftir tæplega sautján ára sambýli, því ég hef búið með þér frá fæðingu þar til fyrir einu og hálfu ári að þú fórst á sjúkrahús. En þrátt fyrir dvölina þar heimsóttu þig allir eins oft og þeir gátu og sýndu þér þannig væntumþykju sína, en þú lifðir fyrir fjölskylduna þína og elskaðir að fá heimsóknir.

Þú hélst á mér undir skírn og ég fékk nafnið þitt sem mér þykir mjög vænt um en þú áttir margar nöfnur því allir vildu skíra eftir þér, þessari yndislegu, sterku, dugnaðarkonu. Þú varst sólargeislinn í lífi mínu og allra sem kynntust þinni léttu lund og fórnfýsni.

Þú passaðir mig meðan mamma var í vinnunni og kenndir mér margt, en síðustu árin eftir að heilsunni hrakaði héldum við saman hópinn og elsku amma Ása mín, ég er glöð yfir því að hafa gefið af mér fyrir þig eins og þú gerir fyrir mig. Sama hvað gekk á þá var alltaf stutt í brosið þitt, hlýjuna og góða skapið.

Eins og þú sagðir: "Fólk deyr þegar það hefur mikilvægari hlutverkum að gegna hinum megin." Ég veit að þetta hefur hjálpað þér ásamt þinni sterku trú á lífið eftir dauðann og mun hjálpa mér.

Elsku amma Ása mín, það er sárt að fá ekki að sjá þig aftur, finna kossana þína, faðmlög og heyra hláturinn þinn, en minning þín mun alltaf lifa í hjarta okkar og verða okkur styrkur á þessari saknaðarstundu.

Elsku amma Ása mín, ég sakna þín svo mikið, en ég veit þér líður vel og að við hittumst aftur. Guð geymi þig fyrir mig á meðan.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.) Þín

Ásdís Haralds.