Ásdís Guðmundsdóttir Elsku amma, nú þegar þú ert farin í ferðalagið þitt til annarra heima söknum við þín mikið. Við vitum að þú ert á góðum stað, og af því þú varst orðin svo veik finnst okkur gott að vita að nú líður þér vel og að þú ert komin til afa Gísla og barnanna þinna sem fóru á undan þér. Við ætlum að hugsa oft til þín og minnast allra góðu daganna í Vestmannaeyjum sem við áttum saman. Þitt fallega og blíða bros, góða skapið, og hlýju faðmlög þín sögðu allt sem segja þurfti. Elsku amma Ása, við biðjum Guð að geyma þig og þökkum þér fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem)

Ef þú sérð gamla konu,

þá minnstu móður þinnar

sem mildast átti hjartað

og þyngstu störfin vann

og fórnaði þér kröftum

og fegurð æsku sinnar

og fræddi þig um lífið

og gerði úr þér mann.

(Davíð Stefánsson) Kolbrún, Steinþór Freyr

og Hafþór Haukur.