Brynjar Eydal

Sjálfum honum hefði verið líkast að standa hjá áhorfandi að dauðastríði sínu og setja fram ígrundaða athugasemd um uppgang lífsins og niðurleið þess. En erfitt dauðastríð gaf ekki tök á slíku. Heimspekin í athugasemdinni hefði getað verið í þá átt, að engum beri að telja sig ómissandi. Hann minntist einhverju sinni á að suður í kirkjugarði á Akureyri lægju menn sem hefðu talið sig ómissandi, en taldi veröldina engu að síður hafa bjargast án þeirra. Það var yfir honum þessi sjaldgæfa ró þeirra fáu sem hafa komist að niðurstöðu um tilhögun mannfélagsins og sætt sig við hana með kostum hennar og göllum.

Brynjar Eydal var eins eyfirskur og nokkur getur verið, með það þó í huga að hafa komist í þetta heimshornaflakk sem menn þurfa í ungir til að öðlast víðara sjónhorn á tilveruna. Hann er fæddur á Akureyri, en heilsuleysi innan fjölskyldu hans varð til að það þurfti að koma honum fyrir á bæjum frammi í Eyjafirði. Þótt hann hafi lent hjá góðu bændafólki, er slíkt afar hörð raun svo ungu barni sem hann var þá. Sextán ára átti að koma honum til dvalar meðal skyldmenna í Kanada. Sendingin misfórst, og enginn kom til að taka við honum mállausum í framandi heimsálfu. Eftir langa bið á járnbrautarpalli sendi forsjónin honum gott fólk, sem tók hann að sér á staðnum, Mrs. Pearson og fjölskylda hennar, sem hann minntist ætíð með þakklæti. Öll sú reynsla hefur þegar orðið til að gefa honum þá lífsafstöðu sem hefur verið tæpt á, að taka tilverunni með ró stóistans.

Í sex ár var hann í Kanada, einkum við landbúnaðarstörf, og færði sig hægt vestur á við, líkt og hvíti maðurinn hefur alltaf gert í þeirri álfu, og endaði við Kyrrahaf. Hann hafði yndi af að tala um þessi ár, þar sem hann var í samneyti við fólk af ýmsu þjóðerni Evrópu, sem gat verið ættað eða flutt úr jafnfurðulegum skúmaskotum tilverunnar og við Brynjar erum úr sjálfir, og hafði jafnóborganleg sérkenni og eyfirskir kotkarlar eða þingeyskir sérvitringar. Hann sá þar sömu sérkenni og sama margbreytileik mannlífsins og þrífst enn hér norður í landi. Hann gat þulið sögur af einkennilegum Pólverjum við búbasl vestur í Alberta eða af Vestur- Íslendingi við kornskurð að brýna lata syni sína, innan um sögur af akureyrskum sértrúarsöfnuðum eða af skrítnu sambýli erlends setuliðs við Akureyringa. Brynjar þekkti auk þess nóg til heimspekilegra og bókmenntalegra rita engilsaxneskra til að hann sá bæði meðaltöl mannlífsins og frávik frá þeim í heimspekilegu ljósi. Það var þess vegna að hann gerði ekki greinarmun á og tók varla eftir því, hvort sá sem hann var að segja frá var skrítinn Ungverji fluttur inn til Kanada og sambýlismaður skoskrar ekkju eða rófuræktandi að elta rófur á floti niður Glerá í vexti. Honum var ljóst að sérleiki mannlífsins er alþjóðlegur, og að engin þjóð getur því verið merkilegri annarri.

Þó varð Akureyri honum allt sem heimabyggð getur verið einum manni. Þar bjó hann samfellt frá heimkomunni árið 1934 til þess að hann flutti suður til þess að heyja þar það stríð sem allir eru dæmdir til að tapa og tók fjögur ár. Á Akureyri bjó hann lungann úr lífinu og kom upp fjórum mannvænlegum börnum, ásamt Brynhildi konu sinni.

Akureyri hefur fram undir þetta haft sérstöðu meðal íslenskra bæja um að búa mönnum rólegt mannlíf aðlaðandi umhverfis árið um kring, og lítið hefur verið framan af um aðflutning fólks nema úr nálægum byggðum. Aðrir þéttbýlisstaðir hafa tekið við gegnstreymi aðkomumanna, vegna öðruvísi atvinnumynsturs. Þetta hefur bæði skapað kyrrlátara mannlíf og valdið að vissu marki fordómum gagnvart íbúum bæjarins. Þeir hafa lifað í nokkuð lokuðu samfélagi, af því að það nægði þeim. Brynjar tilheyrði kjarna þessa verndaða mannlífs.

Megnið af tímanum á Akureyri vann hann í sápusuðunni í Sjöfn með mönnum sem voru líkt og hann sjálfur sprottnir beint úr eyfirsku moldinni. Meðal þeirra gekk mannlífið fram með rónni og streituleysinu sem einkenndi Brynjar, áratug eftir áratug, og menn þekktu allt gjörla, skiptust á sama góðlátlega spauginu, sem var ekki til meiðsla, en var aðferð þeirra manna við að taka tilveru sinni. Brynjar átti til að draga fjöður yfir það hvort hann væri að spauga eða tala í alvöru, og gat tekið aðkomumönnum með dálítið útsmoginni fyndni sem þræddi svo nákvæmlega mörkin á milli alvöru og spaugs að einungis gerkunnugir þekktu. Hann gat tekið fræðimanni í leit að eyfirskum málsháttum með því að blanda málshættina á staðnum á svo sannfærandi veg að aðkomumaðurinn fór burt með nothæfan feng að hann hélt, en allir sem til þekktu vissu að allt var búið til tækifærisins vegna.

Lífsafstöðu, sem einkennist fyrst og fremst af húmor, fylgdi alger slökun gagnvart því veraldlega vafstri sem hann lét aðra um, að klifra upp þrep þjóðfélagsstigans eða auka efnaleg gæði umfram það að eiga sæmilega til hnífs og skeiðar. Hann virti menn í engu eftir því hvað þeir höfðu náð upp eftir þeim stiga. Ég þekki engan sem fór nær því en hann að meta menn einungis eftir viðmóti þeirra eða þeim gerðum sem að honum sneru. Hann varð eins og aðrir að taka því sem á bjátaði, en gerði það á þann veg að hann komst nokkuð hjá því að það gengi nærri honum. Honum voru streitueinkenni nútímaþjóðfélags framandi, einkum fyrir það að hann hafði meðvitað og yfirvegað komist að því að þau þyrftu ekki að hrjá hann. Mér er nær að halda að maður eins og hann hefði haft sömu persónueinkenni og viðhaft sömu hegðun, hvaða menningu sem hann hefði komið upp í. Atferli hans hefði verið við hæfi í öllum löndum og á öllum tímum.

Mér veittist sú gæfa að geta lokið upp fyrir Brynjari skríni með nokkrum stórdjásnum norðlenskrar náttúru. Ég kom honum yfir Kambsskarð sextíu og þriggja ára gömlum. Öllu heldur komst hann það sjálfur, þennan háfjallaveg úr Öxnadal í Eyjafjörð, á annan kílómetra upp og niður, með foraðsvöxt í vötnum. Það komst hann á rólegri seiglunni. Við gengum Flateyjardalsheiðina alla og óðum vötn. Við fórum í Fjörðurnar þegar hann var 76 ára, þar sem var haldinn söngkonsert með þingeyskum frændum. Af þessu er ég stoltur nú. Hann gaf mér meira í staðinn, sem er blæbrigðaríkari sýn á mannlífið. Fyrir það er ég honum djúpt þakklátur, sem og fyrir alla hina tuttugu og átta ára löngu samfylgd.

Egill Egilsson.