5. nóvember 1995 | Sunnudagsblað | 3283 orð

Það er áhætta að taka þátt í gríni Ólafía Hrönn Jónsdóttir hefur vakið athygli á liðnum árum fyrir frábæra túlkun á ýmsum

ÞAÐ ÞARF að hafa töluvert fyrir því að ná tali af leikkonu sem er á góðri leið með að verða ein helsta stjarna íslensks leikhúss og er auk þess svo fjölhæf að sé hún ekki í leikhúsinu gæti hún
Það er áhætta að taka þátt í gríni Ólafía Hrönn Jónsdóttir hefur

vakið athygli á liðnum árum fyrir frábæra túlkun á ýmsum eftirminnilegum persónum á leiksviði t.d. í hlutverki Lóu í leikriti Jims Cartwrights, Taktu lagið Lóa, sem sýnt er nú annað leikárið á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins við fádæma vinsældir og metaðsókn. Ólafur Ormsson ræðir við Ólafíu Hrönn um leikhúsið og tónlistina og leitar álits leikstjóra, leikritahöfundar og tónlistarmanns á ferli hennar sem leikkona, söngkona, laga- og textahöfundur.

ÞAÐ ÞARF að hafa töluvert fyrir því að ná tali af leikkonu sem er á góðri leið með að verða ein helsta stjarna íslensks leikhúss og er auk þess svo fjölhæf að sé hún ekki í leikhúsinu gæti hún verið að undirbúa grínþáttinn í Dagsljósi hjá Ríkissjónvarpinu eða að æfa með tríói Tómasar R. Einarssonar nýjasta jazzlagið sem hún hefur þá samið sjálf eða textann við lagið. Það er með ólíkindum hvað Ólafía Hrönn er fjölhæfur listamaður.

Eftir nokkrar tilraunir tókst loks að finna stað og stund eftir hádegi á þriðjudegi. Ólafía Hrönn býr ásamt fjölskyldu, eiginmanni og börnum, í ljósgulu, bárujárnsklæddu timburhúsi, tvær hæðir og kjallari, ofarlega við Skólavörðustíginn, í húsi sem er komið til ára sinna, byggt árið 1912. Í húsinu bjó á fjórða áratug aldarinnar hinn kunni listamaður Guðmundur Einarsson frá Miðdal og í stofu gefur að líta arin sem hlaðinn var af Guðmundi og er listasmíði, þar er einnig píanó, sjónvarp, myndbandstæki og þriggja sæta sófi og svo auðvitað myndir á veggjum. Heimilið ber þess merki að það eru listamenn sem þar búa. Ólafía Hrönn hafði brugðið sér frá með son sinn á barnaheimili þegar ég bankaði upp á og var væntanlega á hverri stundu. Þór, eiginmaður Ólafíu, tók að rekja sögu hússins uns Ólafía Hrönn birtist allt í einu þar sem vorum í eldhúsinu að virða fyrir okkur listaverk á baklóð hússins.

Ég hef séð Ólafíu Hrönn á leiksviði og í sjónvarpi og líklega einhvern tímann á Jazzbarnum við Lækjargötu en mér fannst eins og ég væri kunnugur leikkonunni og hefði jafnvel þekkt hana frá barnæsku. Við komum okkur fyrir í stofu og Ólafía Hrönn bauð kaffi og smurt brauð. Það var örlítið hlé frá æfingum og hún hafði aflögu rétt rúman klukkutíma þar til hún þurfti að bregða sér niður í Hlaðvarpa þar sem Kaffileikhúsið er að æfa nýtt leikrit eftir Eddu Björgvinsdóttur, Sápu III, og ætlunin er að frumsýna í lok októbermánaðar. Þá stóðu yfir lokaæfingar á barnaleikritinu Kardemommubænum þar sem Ólafía Hrönn er í hlutverki Soffíu frænku og tími fyrir viðtal því skiljanlega takmarkaður og verður auðvitað að sæta lagi þegar stund er á milli æfinga í leikhúsunum. Og svo gafst slík stund á föstudegi fyrir hádegi, það var annar áfangi viðtalsins. Ólafía Hrönn kom til dyra í bláum gallabuxum og svörtum bol og enn var sama elskulega viðmótið, hún bauð mér til stofu og ég hélt áfram að yfirheyra hana um feril hennar í leikhúsinu. Annar áfangi var rétt rúmur klukkutími, Ólafía Hrönn gekk yfir í eldhúsið og kom aftur að vörmu spori með smurt brauð, súkkulaðikex og kaffi í könnu og bað mig að afsaka að ekki væru stríðstertur á borðstólum, vöfflur, pönnukökur og annað góðgæti og sagðist myndu bæta úr því síðar þegar við tækjum upp þráðinn að nýju og lykjum viðtalinu. Hún var glettin á svipinn, beinlínis kímin og kom mér svo sem ekki á óvart, hún er að skapa sér nafn sem gamanleikkona og fetar þar í spor Emelíu Jónasdóttur, Áróru Halldórsdóttur og Nínu Sveinsdóttur svo einhverjar séu nefndar af leikkonum frá því fyrr á öldinni er minnisstæðar voru í gamanleikjum og revíum.

Uppruni, bernska og fyrstu sporin á leiksviði

Ólafía Hrönn er fædd í Reykjavík árið l962, næstyngst fjögurra systkina. Hún ólst upp ýmist á Lynghaganum eða í Fossvoginum og einnig á Hornafirði þar sem faðir hennar var útibússtjóri við útibú Landsbanka Íslands um tíma. Frá föðurnum er ef til vill kominn áhuginn fyrir leikhúsi: "Pabbi ætlaði að gerast leikari, tók þátt í einni sýningu í Iðnó og var í leiklistaskóla hjá Haraldi Björnssyni í eitt ár en svo varð nú ekkert meira úr því. Sem krakki og unglingur lék ég alls staðar þar sem ég fékk að vera með, hjá skátunum, í skólanum og hjá leikfélaginu á Hornafirði og síðar einnig í Fjölbrautaskólanum í Ármúla. Það kom mjög snemma hjá mér að hafa metnað að leika vel og ef mér var hrósað fyrir leik þá var það, það albesta, segir Ólafía Hrönn og lygnir aftur augum þegar hún minnist fyrstu reynslu sinnar af leikhúsi. "Ég ætlaði alltaf að verða leikkona og ef mér gekk t.d. illa í stærðfræði í skóla þá var það allt í lagi, því ekki þurfti ég að nota hana í leiklistinni. Ég var um tíma í leiklistarskóla Helga Skúlasonar áður en ég innritaðist í Leiklistarskóla Íslands árið l983. Ég sótti um fyrst þegar ég var átján ára og beið svo í tvö ár og sótti um aftur og hóf loks nám við skólann sama ár og ég lauk stúdentsprófi. Ég útskrifaðist úr Leiklistaskóla Íslands árið l987. Fyrsta hlutverk mitt á sviði eftir að ég útskrifast er Jökla í leikritinu Síldin kemur síldin fer eftir Iðunni Steinsdóttur. Leikfélag Reykjavíkur setti það upp í skemmunni við Meistaravelli þar sem Bæjarútgerð Reykjavíkur var áður til húsa. Ég lék eitt hlutverk í Borgarleikhúsinu skömmu eftir að það var opnað. Það var í fyrsta verkinu sem sett var upp á litla sviðinu, ég lék Magnínu í Heimsljósi. Síðan lék ég í Þjóðleikhúsinu í Pétri Gaut sem sett var upp á stóra sviðinu, lék hnappasmiðinn og selstúlku. Það var svo þegar Stefán Baldursson er ráðinn sem Þjóðleikhússtjóri árið l99l að ég var fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið."

Með frjálsum leikhópum

Ólafía Hrönn lætur fara vel um sig í hægindarstól andspænis mér þar sem ég sit í sófa í stofu á heimili hennar. Hún segir að vinnan geti stundum verið erfið og einmitt kvöldið áður að lokinni sýningu á Taktu lagið Lóa kvaðst hún hafa verið örþreytt þegar hún kom heim úr leikhúsinu. Á borði fyrir framan okkur er full skál af vínberjum og kaffikanna og ég helli í bolla og allt í einu birtist í stofunni Skarphéðinn, sonur Ólafíu, fimm ára ljóshærður drengur, og er með litabók í hendi og sýnir mér stoltur hvernig hann notar litina og ég get ekki betur séð en þarna sé upprennandi listamaður á ferðinni, og móðirin er greinilega stolt af syni sínum sem er að stíga sín fyrstu skef á leiksviði í leikriti Ólafs Hauks Símonarsonar, Þrek og tár. Hún hallar sér aftur í stólnum og lætur hugann líða nokkur ár aftur í tímann: "Ég var meðal stofnenda Þíbilju, frjáls leikhóps sem bjó til sýninguna Gulur, rauður, grænn og blár. Sýningin var í kjallara Hlaðvarpans sem líkist moldarhelli. Ef einhver hoppaði á efri hæðinni, fékk maður mold ofan í lungun. Einnig settum við upp sýningu í gamla Stýrimannaskólanum. Ég lék einnig hjá Alþýðuleikhúsinu í Ísaðar gellur sem Hávar Sigurjónsson leikstýrði og við fórum með í leikför um landið."

"Það er ótrúlega erfitt að búna til grín"

Ólafía Hrönn er ekki síst þekkt fyrir að eiga ótrúlega auðvelt með að bregða sér í grínhlutverk og gera þeim þannig skil að athygli hefur vakið. Við hámum í okkur vínber úr skálinni á borðstofuborðinu, Ólafía teygir úr sér í hægindarstólnum og lætur þreytuna líða úr líkamanum. Við ræðum um grínið, gamanleiki, skopþætti í sjónvarpi og á sviði og það færist bros yfir andlitið þegar hún rifjar upp sitthvað frá liðnum árum: "Það er stundum dálítil áhætta að taka þátt í gríni. Það er eins og að henda sprengju, þú veist ekki hvort hún virkar eða virkar ekki. En allir hafa skoðun á því. Það er rosalega gaman að vera fyndin en stundum koma þeir tímar sem ég fæ nóg af því og get ekki hugsað mér að að vera fyndin og fæ leið á sjálfri mér. Það er eitt sem er erfitt í sambandi við grín, þetta þarf alltaf að taka svo knappan tíma. Ég væri til í að taka þátt í gríni, t.d. í sjónvarpi, sem tæki lengri tíma, væru leiknir gamanþættir eins og t.d. sumir breskir þættir. Í Dagsljósi má grínið ekki taka langan tíma. Fjórar mínútur er talið eðlilegt, og svo er þessi eilífa "pönsleit". Ég held að ég sé á leiðinni að verða "antipönsisti"." Ólafía Hrönn hefur tekið þátt í uppfærslu á skopleikjum og gamanþáttum í áramótaskaupi sjónvarpsins af og til í gegnum árin og um tíma vann hún með Háðflokknum á Stöð 2. "Að starfa með Háðflokknum var svona fílingur eins og að vera í prófum, maður átti aldrei frí. Þetta var í fyrsta skipti sem ég var með í að búa til grín. Auðvitað var þetta skemmtilegur tími. Maður var svo upptekinn af því að vera að hugsa upp eitthvað gott efni en þetta lærðist með aukinni reynslu." Þá hefur Ólafía einnig skemmt gestum á Hótel Sögu ásamt Ladda, Halla og Hjálmari Hjálmarssyni. Dagskráin nefndist Er það satt sem þeir segja um landann? og vakti feikna kátínu og gekk fyrir fullu húsi mánuðum saman enda kom þar við sögu sjálft landsliðið grínista.

Kardemommubærinn

Að lokinni frumsýningu á hinu vinsæla barnaleikriti Kardemommubænum leit ég við hjá Ólafíu Hrönn og fjölskyldu á Skólavörðustígnum.. Gagnrýni var þá tekin að birtast í blöðum um frumsýninguna og bæði í Morgunblaðinu og DV er mjög jákvæð umfjöllunum um sýninguna og þá ekki síst frammistöðu Ólafíu Hrannar í hlutverki Soffíu frænku. Í leiklistagagnrýni í DV segir Auður Eydal: "Ein af þeim persónum sem setja hvað mestan svip á Kardemommubæinn (fyrir utan ræningjana að sjálfsögðu) er Soffía frænka. Ólafía Hrönn Jónsdóttir er glimrandi fín í hlutverkinu og kryddar sýninguna með skemmtilegri túlkun sinni." Og Soffía Birgisdóttir segir í leikdómi í Morgunblaðinu: "Ólafía Hrönn var sannfærandi Soffía frænka. Hún hélt hörðum fýlusvipnum hvað sem á gekk og raddbeitingin var skemmtilega ströng." Ég spyr Ólafíu Hrönn nánar um leikritið. "Það er rosalegt stuð í Kardemommubæ. Það er erfitt að leika á þessum tíma og vera að heiman allar helgar og horfa á eftir börnum sínum með tárin í augum. Ég fékk að prófa þetta í Dýrunum í Hálsaskógi og ég var vægast sagt orðin þreytt. Þú teiknar karakterinn meira í barnaleikritum eða eins og einn leikari orðaði það, - að skera út pappa. Það fer rosaleg orka í það að leika í barnaleikriti, mér finnst eins og það þurfi að gefa svo mikla orku til að halda athyglinni. Í sýningunni Taktu lagið Lóa þá leik ég Lóu fyrir fullorðin börn alkahólista og mér finnst gott að leika Lóu. Lóa og Soffía frænka eru ansi miklar andstæður. Það er a.m.k. engin hætta á að ég rugli þeim saman. Ég er oft spurð að slíku." Hlín Agnarsdóttir, leikstjóri og leikritahöfundur, segir um kynni sín af Ólafíu Hrönn: "Ég kynntist Ólafíu Hrönn Jónsdóttur (Lollu) árið l982 þegar hún var um tvítugt og lék eina kvenhlutverkið í Opnuninni, einþáttungi eftir Vaclav Havel sem ég setti upp með Leiklistarfélagi Fjölbrautarskólans í Ármúla. Þá var hún ung og upprennandi og alveg óþekkt. Hún hefur verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér bæði sem leikkona og manneskja og ég á mér þann draum heitastan að vinna með henni að einhverju megahlutverki á leiksviði eins og t.d. kvenkyns Hamlet. Þegar ég sá hana fyrst var hún ósköp feimin og óframfærin sparisjóðsdóttir frá Hornafirði, og þótt hún sé ekki Hornfirðingur, í raun þá hef ég alltaf tilhneigingu til að líta á hana sem Hornfirðing, kannski vegna þess að hornfirsk náttúra er svo mögnuð og margbreytileg eins og Lolla sjálf. Strax og Lolla opnaði munninn og las hlutverk sitt í Opnuninni kom hún mér á óvart og þá sérstaklega vegna sinnar einstöku raddar. Hún minnti mig reyndar strax á Kristbjörgu Kjeld sem mér fannst og finnst enn ein af okkar allra bestu leikkonum. Kannski er það tilfinningin sem hún miðlaði með röddinni. Lolla getur túlkað allar mannlegar tilfinningar með röddinni einni saman. Hún getur verið djúp og voldug, hryssingsleg og köld, tælandi létt eða há, hlý og mjúk, full af sakleysi og sársauka. Á þetta hefur hún látið reyna í flestöllum leikhlutverkum sem hún hefur túlkað frá því hún lauk leiklistarnámi l987. Ég nefni sem dæmi tragíska mynd hennar af Magnínu í Ljósi heimsins, eitt af því eftirminnilegra sem hún hefur gert á leiksviði. En svo hefur hún Lolla líka þennan einstaka og fágæta húmor, þessa meðfæddu kómik sem er engu lík. Og þar er hún ekki síðri og getur spilað á ótrúlega marga strengi bæði með radd- og líkamsbeitingu og sérstakri tilfinningu fyrir "ryðma og tempói". Hún er ekki í minnstu erfiðleikum með að sýna okkur allar fyndnustu hliðar manneskjunar, hvort sem það eru karlar, kerlingar eða börn. Ég held að það leiki enginn vafi á því að Lolla er með mestu talentum sem fram hafa komið í leikarstétt á undanförnum árum og ef hún gætir sín bara á ofkeyrslunni, atvinnusjúkdómi margra ágætis leikara, þá á hún enn eftir að koma okkur á óvart."

"Syngur og semur beint frá hjartanu"

Ólafía Hrönn er ekki einungis kunn leikkona, hún hefur einnig fengist töluvert við að syngja opinberlega og þá einkum með tríói Tómasar R. Einarssonar. Og Tómas R. Einarsson segir aðspurður um samstarf þeirra: "Ég hef spilað með Ólafíu Hrönn í eitt og hálft ár og þær músíklegu samsvistir hafa verið ein óslitin skemmtun. Ég heyrði strax að hún gat hermt eftir hvaða söngkonu sem var, en það tók mig nokkurn tíma að átta mig á því að hún hafði líka sinn eigin tón. Einhverju sinni kom sú hugmynd fram að hljóðrita þau klassísku djasslög sem við Þórir Baldursson spiluðum með henni ­ ég var efins; að syngja lög sem aðrir hafa hljóðritað með góðum árangri krefst mjög persónulegrar túlkunar. Síðan gerist það að ég varð yfir mig hrifinn af lagi sem hún söng og keypti geisladisk þar sem fyrirmyndin, Dinah Washington, söng lagið. Það var hins vegar allt öðruvísi og ég varð að viðurkenna að það var hennar túlkun sem gerði lagið gott í mínum eyrum. Ég vissi að hún hafði komið nálægt lagasmíði og síðastliðið vor fékk ég hana í samstarf fyrir Rúrek-djasshátíðina. Við hittumst oft framan af sumri og fórum yfir tónsmíðar okkar og texta, og skyndilega vorum við svo komin með heilt prógram og plötusamning og við tókum til við æfingar með Þóri Baldurssyni og Einari Val Scheving. Við spiluðum á Rúrek-hátíðinni og hljóðrituðum svo disk sem kemur út í nóvember í ár og ber nafnið Koss.

Vinnubrögð okkar í mússík eru um margt ólík, en ég hef lært drjúgt af samstarfi okkar. Ólafía Hrönn syngur og semur beint frá hjartanu og hefur ekki teljandi áhyggjur af því sem aðrir músíkantar gera eða hafa gert. Hún er fjölhæfur söngvari og getur sungið hátt og lágt án fyrirhafnar, en það er innileiki raddarinnar, sakleysislegur þokkinn, sem ég féll fyrir." Ólafía Hrönn segir aðspurð um sinn tónlistarferil: "Mamma gaf mér gítar þegar ég var tólf ára. Síðan lærði ég á gítar, prófaði sjálf, lærði sjálf og fékk tilsögn hjá öðrum. Svo uppgötvaði ég að ég gat samið sjálf á gítarinn. Ég hef verið að semja sjálf síðan, ein í herbergi. Þegar ég var í menntaskóla eyddi ég löngum stundum í herbergi og æfði mig á gítar t.d. þegar mér fóru að leiðast kennslubækurnar, þá söng ég upp úr þeim til að leggja á minnið líka og þá fannst mér gott að syngja. Ég var fyrst með í hljómsveit þegar ég var tólf ára, hljómsveitin hét Njála, Njála á Hornafirði. Ég söng með hljómsveitinni og auk mín voru í henni fjórir strákar, allir úr mínum bekk. Ég söng gamlar lummur, Elsku Gunna og Það var einu sinni kerling og hún hét Pálína. Þú spyrð um hljómsveit Jarðþrúðar. Það var árið l989 að ég kynntist stelpu, Lilju Steingrímsdóttur. Hún spilar á hljómborð. Við fórum að hittast, drösluðum gömlu Hamond orgeli upp í gamla Stýrimannaskóla. Þar sátum við og spiluðum einhverjar gamlar lummur og æfðum okkur. Svo vissi ég af bassaleikara. Hafði samband við hana Lönu Kolbrúnu. Hún kom til liðs við okkur. Svo kynntumst við trommuleikara, Þórdísi Classen, og við fengum okkur æfingahúsnæði og hittumst alltaf á mánudagskvöldum og síðan bættust við Guðrún Jarþrúður og Soffía þannig að við vorum sex í lokin. Við spiluðum þegar við vorum beðnar um að spila. Við vorum ekkert mikið í því að trana okkur fram, höfðum fyrst og fremst ánægju af að hittast og spila saman. Við spiluðum aðallega þægindarpopp, persónulegt popp, melódískt popp, það var breiður stíll. Við tókum upp tvö lög hjá honum Rafni Jónssyni, hvort á sinn safndiskinn. Við fórum á Nordisk forum í Finnlandi og höfðum áður spilað vítt og breitt og allt saman eigin lagasmíði. Við spiluðum á íþróttaleikvangi í Finnlandi og það var mjög gaman. Það stendur til að taka upp síðar. Við eigum kringum þrjátíu lög. Jazzinn hittir mig beint í æð. Nánast allur jazz. Nei, kannski ekki framúrstefnujazz. Það kemur síðar. (Ég hlustaði mikið á jazz á yngri árum, á Jón Múla, á gömlu gufuna.) Maður er líka óafvitandi alinn upp með jazz í eyrunum þar sem að ég er svo heppin að alast upp með aðeins eina útvarpsstöð. Og Jón Múli á náttúrulega drjúgan þátt í því. Þessi tónn í jazzinum heillar mig. Dálítið sár tónn. Hann er líka svo ólíkindalegur. Ég spyr Ólafíu Hrönn um tildrög þess að hún hóf samstarf við Tómas R. Einarsson: "Það gerðist þannig að ég var að leika með Halla, Ladda og Hjálmari á Hótel Sögu og þar var Þórir Baldursson í hljómsveitinni með Bjögga Halldórs og hann nefnir það við mig að ég ætti að gera meira af því að syngja og við gætum kannski unnið eitthvað saman og ég segi sem svona. Já, en hringi ekki í hann fyrir en eftir ár. Þór, maðurinn minn, ýtti á mig og sagði: "Hringdu í hann, Lolla, ef þig langar." Maður er náttúlega feiminn eins og allir aðrir grínleikarar. Jæja, svo hringdi ég í hann og sagði sem svo: - Jæja, Þórir nú langar mig að fara að syngja jazz. Hann var alveg til í það og við fórum að hittast. Hann var búinn að vera að vinna með Tómasi, þannig blönduðumst við saman. Þórir er snillingur. Mér finnst hann alveg meiriháttar. Veistu hvað mér finnst? Hann er kurteis töffari ­ það er toppurinn. Svo æfðum við upp prógram. Fórum að spila á pöbbum. Ég var alltaf að væla í Tómasi og Þóri og spurði. Af hverju semjum við ekki okkar eigin jazz? Tómas lagði eyrun við og sagði: "Já, eigum við bara ekki að sækja um styrk fyrir Rúrek-hátíðina, það sakar ekki." Svo fengum við smástyrk og við fórum að hittast í vor og sumar og tókum upp efni á disk. Tvö lög eru gömul og eftir mig, t.d. eitt lag sem hljómsveit Jarðþrúðar spilaði alltaf. Tómas fór með þetta til útgefanda og þeir voru tilbúnir til að gefa þetta út og útgefandinn er Jazzís og við komum fram á lokakvöldinu á Rúrek-hátíðinni á Hótel Sögu þannig að þetta hefur allt gengið voðalega hratt." Ég spyr Ólafíu Hrönn um framhaldið á samstarfi hennar við Þóri, Tómas og Einar Val Scheving. ­ "Framhaldið? Ég get ekki beðið eftir að flytja þetta efni. Ég er mjög ánægð með diskinn." Við eigum áreiðanlega eftir að sjá Ólafíu Hrönn í veigamiklum hlutverkum á leiksviðið á komandi árum og heyra hana flytja lög sín á diskum og á skemmtistöðum. Það verður spennandi að fylgjast með listamanni sem er sannarlega að gera góða hluti...

ÓLAFÍA Hrönn þarf að skipta á milli þriggja gerva um þessar mundir - Lóu í Taktu lagið, Lóa, Soffíu frænku í Kardimommubænum og hlutverks í nýju leikriti Eddu Björgvinsdóttur sem kallast Sápa III. Ólafía með Tríói Tómasar R. Einarssonar. Lóa og Soffía frænka eru ansi miklar andstæður. Það er a.m.k. engin hætta á að ég rugli þeim saman.

Svo uppgötvaði ég að ég gat samið sjálf á gítarinn. Ég hef verið að semja sjálf síðan, ein í herbergi.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.