12. nóvember 1995 | Sunnudagsblað | 2411 orð

"Kína er land tækifæranna" Ragnar Baldursson er áreiðanlega sá Íslendingur sem hvað mesta þekkingu hefur á kínversku samfélagi

Texti og mynd: Valgerður Katrín Jónsdóttir

RAGNAR Baldursson er einn þriggja starfsmanna sendiráðsins, auk hans eru þau Hjálmar Hannesson sendiherra og Petrína Bachmann önnum kafin við að koma sér fyrir í húsakynnum sendiráðsins í byggingu sem hýsir flest sendiráð erlendra ríkja í Peking.

"Kína er land

tækifæranna"

Ragnar Baldursson er áreiðanlega sá Íslendingur sem hvað mesta þekkingu hefur á kínversku samfélagi og það er því ómetanlegt að hafa hann í þjónustu íslenska ríkisins í nýstofnuðu sendiráði Íslendinga í Peking eða Beijing, eins og Kínverjar nefna höfuðborg sína. Valgerður Katrín Jónsdóttir hitti Ragnar að máli nýverið þegar

hún var á ferð í Kína.

Texti og mynd: Valgerður Katrín Jónsdóttir

RAGNAR Baldurs son er einn þriggja starfsmanna sendiráðsins, auk hans eru þau Hjálmar Hannesson sendiherra og Petrína Bachmann önnum kafin við að koma sér fyrir í húsakynnum sendiráðsins í byggingu sem hýsir flest sendiráð erlendra ríkja í Peking. Fram að þessu höfðu sendiráðsstarfsmennirnir verið önnum kafnir við ýmis skyldustörf sem tengdust heimsókn forseta Íslands til Kína og kvennaráðstefnunni sem þarna var nýlokið. En þó starfsmennirnir hafi haft mikið að gera urðu þeir þó að gefa sér tíma til að borða og það tækifæri var notað til að spyrja sendiráðsritarann nokkurra spurninga um kínverskt samfélag sem augu heimsins hafa beinst að undanfarnar vikur.

Ótrúlegar breytingar

Ragnar borðar gjarnan á kínverskum veitingastað sem er í nokkur hundruð metra fjarlægð frá sendiráðinu. "Þessi staður minnnir mig á námsár mín hér í Kína," segir hann og pantar nokkra rétti á borðið á hinu óskiljanlega máli kínversku. "Þegar ég kom hingað núna fannst mér ég aldrei hafa komið hingað áður, svo miklar hafa breytingarnar orðið. Göturnar hér fyrir framan voru t.d. akrar, hér voru bændur að rækta hrísgrjón. Leigubílar þekktust varla, voru kannski eitt til tvö þúsund ef þeir hafa þá verið það margir, en nú er talið að þeir séu um 70 þúsund í borginni. Það voru fjögur hótel á þeim tíma, en nú eru menn hættir að hafa tölu á þeim. Ég var að spyrja leigubílstjóra að því um daginn hvað hann héldi að hér væru mörg hótel og hann hafði ekki hugmynd um það.

Auglýsingarnar hafa haldið innreið sína í kínverskt samfélag og fréttir í kínverska ríkissjónvarpinu eru t.d. kostaðar af brennivínsframleiðanda. Stór auglýsing fyrir Heimilisvín Konfúsíusar tekur hluta af skjánum á meðan sjónvarpsþulur kynnir veðurfréttirnar. Það eru að verða mestu breytingar á kínversku samfélagi sem orðið hafa í yfir tvö þúsund ár. Það er mjög athyglisvert að fylgjast með þessari þróun," segir hann og skiptist aftur á nokkrum orðum við kínversku veitingastúlkuna sem komin er með rétti á borðið, grænmeti sem vex frammi í salnum og kokkurinn klippir niður eftir þörfum.

Kínverjar vilja gjarnan hafa hráefnið sem ferskast og því er algengt að sjá fiska af mörgum tegundum, humra, rækjur og fleiri "sjávarrétti" synda um í þar til gerðum fiskikerjum á veitingastöðunum þar til þeir eru veiddir upp úr og matreiddir áður en þeir komast á disk gestanna. Á borðinu eru einnig kjúklingabitar og hrískökur sem kjötsósu er hellt yfir. Hann segist vera mjög hrifinn af austrænum mat, og skömmu áður en leið hans lá aftur til Kína var hann búinn að setja á laggirnar japanskan veitingastað við Ingólfsstræti í Reykjavík.

"Ég var lengi búinn að bíða eftir því að einhver myndi opna slíkan veitingastað og þegar ég var orðinn úrkula vonar varð ég bara að gera það sjálfur. Þessi veitingahúsarekstur var hálfgert hliðarspor hjá mér," bætir hann við, en undanfarin ár hefur hann mest verið í fréttamennsku, bæði á Tímanum og á Ríkisútvarpinu, auk þess sem hann hefur kennt kínversku og japönsku við Háskóla Íslands, kennt greinar skyldar þeim við framhaldsskóla og fengist við leiðsögumannastörf og þýðingar svo eitthvað sé nefnt. Síðustu árin hefur hann einnig snúið sér í vaxandi mæli að stofnun viðskiptasambanda milli Íslands og Asíu.

Ævintýramennska

En hvað skyldi hafa orðið til þess að hann fékk áhuga á að fara rúmlega tvítugur yfir hálfan hnöttinn til að læra kínversku, fyrir um það bil tuttugu árum, með fyrstu Íslendingum til að læra þetta framandi tungumál? "Ætli það hafi ekki verið ævintýramennska fyrst og fremst," segir hann svona eins og hann sé fyrst núna að gera sér grein fyrir því. "En þegar ég útskrifaðist frá Menntaskólanum við Hamrahlið um áramótin 1974-75 var mjög mikill áhugi á menningarbyltingunni og Kína á Íslandi, og ég var í hópi þeirra sem hafði mikinn áhuga á maoismanum og Kína á þessum árum. Þegar síðan var auglýstur styrkur til náms í kínversku lét ég kylfu ráða kasti og ákvað að fara, m.a. til að kynnast því hvernig raunverulegur sósíalismi væri í framkvæmd. Ég vissi þó lítið sem ekkert um Kína, eitthvað um Mao Zedong og Lin Biao var vondi maðurinn sem reyndi að flýja land en var skotinn niður á flóttanum. Svo þekkti ég nöfn á nokkrum borgum og það var um það bil allt sem ég vissi um Kína. Ég var ekkert búinn að ákveða hvað ég ætlaði að gera við framtíðina og þetta var ágætt tækifæri til að kynnast einhverju nýju."

Hann var fyrst við nám í Peking- tungumálastofnuninni, var svo við nám í Pekingháskóla í heimspeki. "Þetta var í lok menningarbyltingarinnar og Mao ennþá á lífi þegar ég kom hingað og því var heimspekikennslan svo til eingöngu kennsla í marxiskri heimspeki, eða stærsti hluti námsefnisins, og svo auðvitað kenningar Maos. Ég komst þó fljótlega að því að til að skilja kínverskt samfélag og hugmyndafræði Maos varð ég að kynnast hefðbundinni kínverskri hugsun.

Á þessum árum, 1976-1977 voru verk Konfúsíusar og Lao-tses bannaðar bókmenntir hér í Kína. Ég byrjaði samt að lesa þetta og síðar fór ég í framhaldsnám til Japan þar sem ég lærði m.a. kínverska heimspeki." Hann bætir við að hann sé nú að vinna að þýðingum á verkum Lao- tse á íslensku, því þær þýðingar sem til séu hafi ekki verið þýddar beint og því sé alltaf hætta á að merkingin skolist til.

Heimsspeki samræmingar

Er hann er spurður hvort hann geti í einni setningu eða tveimur sagt hver munurinn sé á vestrænni og austrænni heimspeki, segir hann vestræna heimspeki vera aðgreinandi, leggi áherslu á það sem sé ólíkt en austræn heimspeki og kínversk heimspeki leggi meiri áherslu á það sem er sameiginlegt. "Kínversk heimspeki leggur einnig áherslu á að allt sé í þróun og breytingu, allt sé sífelld barátta andstæðna. Þetta endurspeglast alls staðar í afstöðu þeirra til umhverfisins, Jing og Jang eru alls staðar fyrir hendi. Þessi afstaða endurspeglast einnig í hugmyndafræðilegum deilum milli Evrópusósialista, sovéskra sósíalista og kínverskra. Í evrópskum marxisma er aðaláherslan lögð á sögulega efnishyggju, sem er að vissu leyti vélræn, þróun verður bara til vegna efnahagslegra forsendna. Móthverfur eru ekki alltaf til, heldur spretta þær fram og eru leystar. Kínverjar segja hinsvegar að móthverfur séu alltaf fyrir hendi, Jing og Jang séu alltaf til staðar og því sé allt í þróun og breytingu. Þetta er líklega hluti skýringar á því sem er að gerast hér í Kína núna, Kínverjar eru miklu opnari fyrir breytingum og nýjum hugsunarhætti, en t.d. vestrænir marxistar, því ef kenningar þeirra fóru ekki saman við raunveruleikann þá féll allt kerfið saman. Kínverskir kommúnistar aðlaga bara kenningar sínar raunveruleikanum og eru þá ekki marxistar lengur heldur bara Kínverjar, þeir byggja kommúnismann á kínverskum grunni."

Þetta er skýringin á því hvers vegna alþjóðlegir hamborgarar og gosdrykkir hafa m.a. haldið innreið sína í Kína. Tveir Kínverjar koma að borðinu til okkar og setjast við það. Við sitjum við stórt hringborð í innra sal veitingahússins og kínverska veitingastúlkan kemur aftur að borðinu til að taka við nýrri pöntun. Ragnar spyr hvað ég haldi að hún sé gömul, "svona 14-15," er svarið, hann skiptist á nokkrum orðum við stúlkuna, hún flissar og ég vona að hún hafi ekki móðgast því hún er 18 ára og finnst hún eflaust mjög fullorðin. Ég spyr hvort það sé ekki erfitt að ná tökum á þessum undarlegu málum, japönsku og kínversku. Hann segir kínverska málfræði einfalda, "orðin eru stutt og það eru engar beygingarendingar. En hljóðfræðin og skriftin eru erfið. Japönsk málfræði er hins vegar mjög erfið fyrir Íslendinga en framburður tiltölulega auðveldur, öfugt við kínverskuna, enda eru þessi mál ekkert skyld þrátt fyrir að Japanir noti mikið af kínverskum tökuorðum.

Þjóðfélagsbylting í Kína

"Kína er land tækifæranna í dag. Kína er risaveldi, þriðja mesta ríki veraldar á eftir Bandaríkjunum og Japan. Þessar breytingar á framleiðsluþáttum og mannlegum samskiptum og þjóðfélagskerfinu öllu í heild eru mun meiri og róttækari en urðu við valdatöku kommúnista árið 1949. Ýmsir þættir í stjórnkerfi kommúnista og þjóðfélagskerfinu sem þá var eiga sér hliðstæðu í gamla Kína. Stærstu fyrirtækjunum, sem réðu jafnvel um hundrað þúsund manns í vinnu, svo sem eins og skipasmíðafyrirtæki, myntsláttur, járnnámur, fyrirtæki sem réðu milljónir manna um allt land, var stjórnað af starfsmönnum ríkisins og embættismennirnir voru skipaðir af stjórninni í Peking. Þeir voru skipaðir með tilliti til þess hversu vel þeir voru að sér í hinum opinberu fræðum, sem voru þá verk Konfúsíusar og Lao-tses.

Þessu var við haldið eftir valdatöku kommúnista, nema þá var ríkisheimspekin marxísk. Menn voru skipaðir í yfirmannastöður eftir því hve vel þeir voru að sér í marxismanum en ekki hversu góðir fagmenn þeir voru, yfirmaður í skipasmíðastöð var með kenningarnar á hreinu en vissi jafnvel ekki mikið um skipasmíði. Það var einnig ýmislegt í mannlegum samskiptum sem hafði lítið breyst, Kínverjar leggja mikið upp úr því að leysa málin sjálfir, ef koma upp ágeiningsmál á vinnustað, líkamsmeiðingar eða eitthvað þess háttar þá er reynt að leysa málið án þess að fara með það til yfirvalda. Ef menn fóru með mál til dómara var báðum refsað vegna þess að þeir gátu ekki leyst málið sjálfir. Þetta viðhorf var algengt í gamla Kína og á dögum Maos.

Þeirra hugmyndir um hefðbundið réttarfar eru allt öðruvísi en okkar. Þess vegna hefur verið erfitt fyrir Kínverja að koma upp hefðbundnu réttarkerfi, það hefur ekki mikið með kommúnista að gera heldur tengist þeirri hefð sem verið hefur í landinu, og því er þetta enn að miklu leyti þannig að menn eiga að leysa sín mál sjálfir."

Batnandi lífskjör

Kínversk hugmyndafræði er greinilega mjög ólík hinni vestrænu. Ég spyr um afstöðu í heilbrigðismálunum, einhvern tímann heyrðust sögur af því að læknar keisarans hefðu ekki fengið laun nema þegar keisarinn var frískur, og þeir hefðu lent í verulegum vandræðum er keisarinn veiktist.

"Já, þessi saga hefur verið sögð," svarar hann, "ég veit þó ekki hvort hún eigi við rök að styðjast. En það er almennt litið svo á að hlutverk lækna sé að halda fólki frísku. Hér gera allir leikfimiæfingar milli klukkan 5 og 6 á morgnana hvar sem þeir eru staddir og vinnustaðir og hverfastjórnir ráða kennara sem eiga að leiðbeina fólki varðandi vinnustellingar og líkamsrækt. Þetta er eins og við Íslendingar greiðum niður verð í sundlaugarnar þar sem litið er á það sem fyrirbyggjandi heilsuvernd að fara í sund."

En hvað um lífskjör í landinu? Ég rifja upp viðtal við hjón í kínverska sjónvarpinu sem sögðu hálfgrátandi frá því að þeim tækist ekki að lifa á 2.400 íslenskum krónum á mánuði. Ætli sé algengt að fólk hafi svona lítið milli handanna?

"Lífskjör fara mjög ört batnandi," svarar Ragnar, "en þau eru langt frá því að vera eins og á Íslandi. Fólk til sveita, jafnvel í nánasta umhverfi við Peking, býr við frumstæð lífsskilyrði og stór hluti kínverskra bænda hefur ekki rafmagn. Launin eru mjög misjöfn, allt að hundraðfaldur munur á launum manna. Breytingarnar í atvinnulífinu eru gífurlegar núna. Tugmilljónir og jafnvel hundruð milljóna bænda flytjast úr landbúnaði til fyrirtækja af ýmsu tagi á örfáum árum."

Hann horfði hugsi fram fyrir sig eins og hann væri að reyna að sjá inn í ókominn tíma ­ Kína framtíðarinnar. Bætir við að þrátt fyrir spennandi tíma sé ekki laust við að það sé svolítil eftirsjá í því samfélagi sem var, samfélagi sem var svo gjörólíkt því sem við eigum að venjast. Ég spyr um stöðu kínverskra kvenna, á óopinberu kvennaráðstefnunni voru þær nokkuð sannfærðar um að staða þeirra væri mun betri en t.d. bandarískra kvenna. Hvað segir hann um þær fullyrðingar?

"Ég held að staða kínverskra kvenna sé hlutfallslega skárri," svarar hann án þess að hugsa sig um. "Það er meðvituð stefna stjórnvalda að rétta hlut kvenna í stjórnkerfinu sem veldur því að hlutfall kínverskra kvenna í stjórnsýslunni er hærra en í flestum öðrum löndum. En hlutfalllið lækkar þó eftir því sem ofar dregur og það eru karlmenn sem eru í æðstu embættunum, flestir reyndar gamlir skæruliðaforingjar. En mestu skiptir þó að það er rekinn mikill áróður fyrir því að fólk giftist seint, m.a. vegna stefnu í fólksfjölgunarmálum. Konurnar eru gjarnan um þrítugt þegar þær stofna heimili og eru þá búnar að öðlast ákveðið sjálfstæði og ekki tilbúnar til að láta einhvern karl segja sér hvernig þær eigi að haga lífi sínu. Konurnar stunda sína vinnu eins og karlarnir og eiga það til að svara körlunum fullum hálsi ef þeir krefjast þess að þær eldi alltaf ofan í þá. Þær eru ófáar kínversku konurnar sem hafa sagt við karlinn sinn; "þú getur eldað sjálfur ef þig langar í eitthvað að borða". En þetta á reyndar bara við um borgirnar. Til sveita er staða kvenna miklu síðri og líkari því sem hún var fyrr á tímum."

Hann segir sumt fólk í sveitunum reyna að komast hjá einbirnisfyrirkomulaginu með því að skrá ekki börnin, sjálfur þekki hann persónulega dæmi þess. Áður en við ljúkum við að borða hinar kínversku kræsingar er hann spurður um hugsanleg viðskiptasambönd Kínverja og Íslendinga, hvar sér hann mestu möguleikana?

Tækifærin í jarðhita og fiski

Hann segir að það sé tvímælalaust í sambandi við fiskiðnað og jarðhita. "Þarna eru miklir möguleikar sem kínversk stjórnvöld gera sér grein fyrir. Kínverjar eru að vísu óvanir að borða sömu fisktegundirnar og við, borða mikið af ferskvatnsfiski. Það má því búast við að það taki þá nokkurn tíma að átta sig á þessum tegundum sem við höfum upp á að bjóða. En ég er alveg sannfærður um að Kína á eftir að verða einn af mikilvægustu fiskmörkuðum Íslendinga. Ýmsar vinnuaflsfrekar iðngreinar eins og t.d. fataiðnaður eru að færast til Kína og annarra Asíulanda þar sem laun eru lág og miklir markaðir auðvelda líka fjöldaframleiðslu. Við höfum einnig möguleika, rétt eins og aðrar þjóðir, að koma á viðskiptasamböndum á sviði hugbúnaðar.

Kínverjar stökkva beint yfir í háþróað tæknisamfélag, menn eru óðum að koma sér upp flóknum tölvubúnaði eftir að hafa notast við talnaspöld áratugum saman. Þeir eru jafnvel með flóknari útbúnað en við þekkjum t.d. í sambandi við símakerfið, GMS-símarnir eru talsvert algengir hérna og þeir eru einnig með kalltæki sem geta tekið við mörg hundruð orða skilaboðum, nokkuð sem ég hef ekki séð á Íslandi."

Morgunblaðið/Valgerður K. Jónsdóttir RAGNAR Baldursson er fróðastur manna um Kína nútímans og segir tækifæri Íslendinga í fjárfestingum í þar eystra

fólgna í jarðhita og sjávarútvegi. Morgunblaðið/Margrét Heinreksdóttir RAGNAR ásamt fjölskyldu sinni -

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.