Á SÍÐASTA ári greindu hollenskir vísindamenn við landbúnaðarháskólann í Wageningen tvö efnasambönd (cafestol og kahwesol) í kaffiolíum sem eru sagðar geta aukið kólesterólmagn í blóði. Rannsakaðar voru hinar ýmsu aðferðir við að laga kaffi í 10 löndum í Evrópu og Afríku. Kannað var venjulegt kaffi, koffeinlaust kaffi og þurrkað kaffi (instant).
Sjónarhorn

Kaffi og kólesteról

Margir telja sig ekki geta vaknað fullkomlega á morgnana nema við bolla af rjúkandi kaffi. Máli skiptir hvernig hellt er upp á kaffið, í kaffiolíum hafa fundist efni sem geta aukið kólesteról í blóði. Margrét Þorvaldsdóttir kannaði áhrif kaffidrykkju og óvæntar afleiðingar kólesteróls á líkamann.

Á SÍÐASTA ári greindu hollenskir vísindamenn við landbúnaðarháskólann í Wageningen tvö efnasambönd (cafestol og kahwesol) í kaffiolíum sem eru sagðar geta aukið kólesterólmagn í blóði. Rannsakaðar voru hinar ýmsu aðferðir við að laga kaffi í 10 löndum í Evrópu og Afríku. Kannað var venjulegt kaffi, koffeinlaust kaffi og þurrkað kaffi (instant). Í ljós kom að þurrkaða kaffið innihélt aðeins örlítið magn þessara efna, en espressó- eða mokkakaffi innihélt aftur á móti mest af þessum efnum eða 6-12 mg af cafestol í 150 millilítra af löguðu kaffi. En vegna þess að venjulegir skammtar af espressó-kaffi eru litlir er magn þessara efna lítið miðað við það sem finnst í kaffi eins og það er lagað á flestum heimilum á Norðurlöndunum, Tyrklandi og í Grikklandi, segir grein í ágústblaði tímaritsins Agricultural and Food Chemistry þar sem niðurstöður þessara rannsókna voru kynntar.

Þar segir, að komið hafi á óvart að kaffi sem lagað er í sjálfvirkum eða sjálftrekkjandi kaffikönnum eða kaffivélum hafði lítið magn af þessum efnum, jafnvel þó að þar sé ekki notaður pappírs-filter. Þar sem kaffið fer oft í gegnum kaffikorginn í körfufilternum við lögunina er talið að hann virki eins og sía á þessi efni.

Aftur á móti hefur "frönsk pressa", þar sem malaða kaffinu er þrýst niður á botn könnunar við kaffilögunin, ekki sömu áhrif. Þessi kaffipressa, sem nýtur vaxandi vinsælda, skildi eftir jafn mikið og jafnvel meira af þessum kólesterólaukandi efnum í kaffinu en hinar aðferðirnar. Ef menn drekka daglega 5 bolla af kaffi sem lagað er með frönsku pressuaðferðinni veldur það 8-10 mg hækkun á kólesteróli í desilítra af blóði, en það þyrfti 15 bolla af espressó-kaffi til að hafa sömu áhrif.

Kólesteról, þunglyndi og svipleg dauðsföll

Í grein í tímaritinu Chemistry in Britain nú í september segir að lítið kólesterólmagn í blóði geti verið gott fyrir hjartað, en það geti valdið þunglyndi og aukið hættu á sjálfsvígi. Vitnað er þar í grein ítalskra vísindamann sem birt var í British Medical Journal í júní sl. á rannsókn sem gerð var við St. Ann Hospital í Ferrara. Þar rannsökuðu vísindamenn kólesterólmagn í 331 einstaklinga sem komið var með á sjúkrahúsið eftir tilraunir til sjálfsvígs. Þar sem slík áföll lækka kólesterólmagnið í blóði var það mælt innan 24 tíma eftir komu á sjúkrahúsið. Rannsóknir leiddu í ljós að þessir sjúklingar höfðu umtalsvert lægra kólesterólmagn í blóði en aðrir sjúklingar í viðmiðunarhópi. Einnig reyndist vera áberandi lægra kólesterólmagn í blóði þeirra sjúklinga sem reynt höfðu að fyrirfara sér á grófari hátt eins og með því að drekkja sér eða hengja. Gallerani, sem var talsmaður vísindahópsin, segir að lágt kólesteról geti minnkað serotonin magnið í heila, (serotonin er eitt af boðefnum í heila). Skortur á serotonin hefur verið tengt þunglyndi og hömluleysi þegar kemur að skyndilegri löngun til að valda sjálfum sér (eða öðrum) skaða.

Gallerani segir að mögulegt sé að of lágt kólesteról í blóði geti leitt til ofbeldisverka og jafnvel morða. Faraldsfræðilegar rannsóknir hafa tengt dauðsföll af völdum sjálfsvíga við dauðsföll af öðrum sviplegum orsökum og vísindamenn hafa bent á að fólk sem deyr af þessum orsökum virðist hafa svipað hegðunarmunstur. Aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á samband á milli lágs kólesterólmagns í blóði og árásargirni.

Rannsóknir þessar eru sagðar styrkja aðrar niðurstöður, en þær benda til að fólk sem gjörbreytir mataræðinu og snýr frá mjög fituríku kólesterólaukandi fæðutegundum til heilnæmari fitusnauðs fæðis geti með því verið að auka hættu á þunglyndi og ofbeldi, segir í lok greinarinnar.

Vera má að eitthvað sé til því sem sumir halda fram - í spaugi, að besta lækningin til að létta skapið sé að finna í kæliskápnum - ekkert lyfti sálartetrinu betur en fitu- og kolvetnaríkur munnbiti. Nú þegar ofbeldi eykst má velta því fyrir sér hvort hinn mikli áróður fyrir neyslu fitulítils fæðis hafi verð tekinn of bókstaflega. Getur verið að áróðurinn hafi orðið til að raska neysluvenjum til hins verra - á kostnað góðra og gildra kjarnmikilla málsverða?

Sjálfvirk kaffikanna Frönsk pressa Mokka kaffikanna