30. nóvember 1995 | Minningargreinar | 685 orð

Hallsteinn Sveinsson

Hallsteinn Sveinsson

Hallsteinn Sveinsson dvaldi hjá foreldrum sínum á Kolsstöðum til ársins 1925 er þau fluttu í Eskiholt í Borgarhreppi í Mýrasýslu. Þar var hann til ársins 1943 er hann fór til Reykjavíkur þar sem hann bjó til ársins 1971. Þar fékkst hann meðal annars við smíðar og útskurð.

Hann laut lítils háttar höfði og skáskaut augum sem lýstu af glettni í áttina til mín og yfir andlitið færðust brosviprur iðandi af kímni og ef til vill svolítilli kerskni: "Ég veit ekki. Hvað finnst þér ­ hvernig finnst þér svona myndir?" svaraði hann síðan spurningu minni um álit hans á mynd sem við vorum að virða fyrir okkur. Þannig kom hann mér fyrir sjónir fyrst þegar ég hitti hann og æ síðan þegar leiðir okkar lágu saman, hvort það var í Safnahúsinu, heima hjá honum á Dvalarheimilinu eða á ferðalagi til Reykjavíkur að skoða sýningar eða verk einhvers. Þá var stutt í glettnina og skoplegar athugasemdir, stundum var reyndar svolítill broddur í athugasemdunum, rétt til að skerpa meðvitund okkar hinna um hverfulleika alls sem fyrir okkur ber og þess að til eru fleiri sjónarhorn en okkar eigin. Við sem vinnum og höfum unnið í Safnahúsinu í Borgarnesi eigum lengi eftir að sakna þess sárt að fá ekki að heyra hans skoðanir á mönnum og málefnum.

Á árunum 1970 og 1971 varð það að ráði að Hallsteinn fluttist upp í Borgarnes á Dvalarheimili aldraðra þar, sem þá var nýlega byggt. Hann átti landskika í Reykjavík sem Reykjavíkurborg keypti af honum fyrir allháa upphæð og greiddi fyrir með reiðufé og ríkisskuldabréfum. Einnig átti hann og tók með sér stórt safn listaverka sem hann hafði eignast á árum sínum í Reykjavík, aðallega á sjötta og sjöunda áratugnum. Mörg verkanna hafði hann fengið sem greiðslu fyrir viðvik eins og smíði ramma um myndir listamanna og önnur hafði hann fengið gefin af öðrum tilefnum. Þetta voru verk eftir marga okkar þekktustu og ástsælustu listamenn og nægir þar að nefna Þorvald Skúlason, Sverri Haraldsson, Valtý Pétursson, Hafstein Austmann og svo bróður hans Ásmund Sveinsson.

Þessar eignir, listaverk og fé, gaf hann Borgarneshreppi og varð gjöfin upphaf að Listasafni Borgarness sem var svo stofnað skömmu síðar. Þarna var um 120 listaverk að ræða og verulega fjárhæð. Upp frá því hefur Listasafn Borgarness vaxið og dafnað og Hallsteinn sífellt að bæta við það og lætur nærri að hann hafi gefið safninu um 150 verk alls. Þess utan hafa verið keypt verk og safninu hafa borist gjafir á þeim árum sem það hefur starfað og má þar til dæmis nefna höfðinglega gjöf frænda og nafna Hallsteins sem barst nú fyrir örfáum vikum frá Hallsteini Sigurðssyni. Þá átti hann einnig mikinn þátt í að sett hafa verið upp útilistaverk hér í Borgarnesi, t.d. Óðinshrafninn í Skallagrímsgarði og Sonatorrek á Borg, sem bæði eru eftir bróður hans, Ásgrím Sveinsson. Hann beitti sér fyrir því að þetta væri gert og lagði fram fé til þess frá sjálfum sér til þess, þannig að hann var að sinna sínu áhugamáli hér allan þann tíma sem heilsa hans leyfði.

En hvar eru öll þessi verk, kann einhver að spyrja. Útilistaverkin veit fólk um, en ég er ekki viss um að Borgnesingar og Borgfirðingar geri sér grein fyrir að undanfarin liðlega 30 ár hafa verk úr Listasafni Borgarness prýtt margar opinberar skrifstofur og stofnanir í Borgarnesi, t.d. Heilsugæslustöðina, skrifstofur sveitarfélagsins, skrifstofur Kaupfélags Borgfirðinga, sýsluskrifstofurnar og nokkrar fleiri. Það má því segja að gjöf Hallsteins hafi glatt augu okkar sem á þessa staði höfum komið og veitt okkur ánægju undanfarin ár. Það er fyrir hans tilstilli að við höfum haft íslenska myndlist í kringum okkur öll þessi ár. Við eigum honum mikið að þakka sem einstaklingar og við eigum honum einnig mikið að þakka sem samfélag sem nú á slíkan fjársjóð sem það safn er, sem hann færði okkur. Við kveðjum nú mann sem markaði djúp spor í sögu þessa samfélags og þökkum af alhug fyrir það sem hann gerði fyrir okkur.

Fyrir hönd stjórna Listasafns Borgarness, Safnahúss Borgarfjarðar og bæjarstjórnar Borgarbyggðar færi ég ættingjum Hallsteins samúðarkveðjur og bið þann sem ætíð stendur með okkur öllum að vera þeim styrkur.

Guðmundur Guðmarsson.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.