2. desember 1995 | Menningarblað/Lesbók | 441 orð

Íslensk ópera á geisladisk í fyrsta sinn

Ævintýraóperan Sónata

ÁNÆSTUNNI kemur út í fyrsta sinn íslensk ópera á geisladiski. Þetta er ævintýraóperan Sónata eftir Hjálmar H. Ragnarsson og Messíönu Tómasdóttur. Verkið var frumsýnt í Íslensku óperunni á vegum Strengjaleikhússins í október 1994 en þá sáu alls um 6.000 skólanemendur á aldrinum 4-9 ára sviðsetningu óperunnar.
Íslensk ópera á geisladisk í fyrsta sinn Ævintýraóperan Sónata

ÁNÆSTUNNI kemur út í fyrsta sinn íslensk ópera á geisladiski. Þetta er ævintýraóperan Sónata eftir Hjálmar H. Ragnarsson og Messíönu Tómasdóttur. Verkið var frumsýnt í Íslensku óperunni á vegum Strengjaleikhússins í október 1994 en þá sáu alls um 6.000 skólanemendur á aldrinum 4-9 ára sviðsetningu óperunnar. Verkið er samvinnuverkefni höfunda og flytjenda sem eru fjórir talsins, Sverrir Guðjónsson, kontratenór, Marta G. Halldórsdóttir, sópransöngkona, Kolbeinn Bjarnason, flautuleikari, og Guðrún Óskarsdóttir, semballeikari.

Sónata fjallar um drenginn Trompett, sem óskar þess af öllu hjarta að dúkkan hans, Sónata, lifni við. Trompett verður vinur stóra Logadrekans og sigrast á hræðslu sinni við frekjuna, hann Ansans Ára. Þannig bjargar hann líka prinsessunni og óskir hans rætast.

Messíana Tómasdóttir sem er höfundur sögunnar sagði í samtali við blaðamann að verkið væri ævintýri um andhetju. "Ég geri ráð fyrir að margir geti speglað sig í aðalsöguhetjunni og því hvernig hún verður til þess að bjarga málum og öðlast hugrekki."

Messíana segir að mikið sé leikið með tungumálið, eða ólík tungumál, í verkinu, sungið er á hinum margvíslegustu tungum. Þannig syngja brúðurnar hver á sínu eigin máli, sem er hluti af persónusköpun þeirra, og hefur hvert orð ákveðna merkingu. Merking málsins skýrist síðan af tilsvörum eða viðbrögðum sögumanna. Persónur og raddir þeirra eru: Trompett sem talar eingöngu með flautunni; Sónata sem notar rödduðu frammæltu samhljóðin en aldrei tvo eða fleiri samhljóða saman; faðir Sónötu sem talar afbrigði af máli Sónötu og notar hæg orð með löngum sérhljóðum; Lífsfuglinn sem tjáir sig meðal annars með fuglahljóðum, ásamt flautunni; Logadrekinn notar fráblásin öng- og lokhljóð til að líkja eftir hverskyns náttúruhljóðum og Ansans Ári hefur djúpa rödd en beitir jafnframt einhvers konar jóðli, hann er vonda persónan í verkinu og svelgist því á jákvæðum orðum.

Hjálmar H. Ragnarsson, sem er höfundur tónlistarinnar, sagði að hugmyndin á bak við verkið hefði verið sú að búa til óperu sem væri einföld í sniðum, einföld í framsetningu og skemmtileg fyrir fólk sem hefði áhuga á ævintýrum. "Tónlistin er mjög hljómræn og víða eru skírskotanir til hefðbundinna óperusmíða, það eru einstök númer, það eru tengikaflar, frásagnarkaflar og aríur. Í verkinu er jafnvel vísun í Töfraflautu Mozarts."

Hjálmar sagðist telja að þetta væri mjög vandað efni fyrir börn. "Söngur, hljóðfæraleikur og öll framleiðsla á þessu efni er mjög vönduð. Að mínu áliti hefur allt of oft verið kastað til höndum við gerð barnaefnis; menn virðast frekar hafa haft gróðasjónarmið að leiðarljósi þar."

Hljóðritunin á diskinum er einnig notuð í myndbandsupptöku af óperunni í gerð Þorvarðs Árnasonar, sem kemur út í janúar.

Hjálmar H. Ragnarsson

Messíana Tómasdóttir

SVERRIR Guðjónsson syngur í ævintýraóperunni Sónötu sem kemur einnig út á myndbandi í janúar.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.