ÁBÓKASTEFNUNNI í Frankfurt í haust var blaðamönnum boðið til kynningarfundar á vegum Evrópusambandsins. Fundurinn snerist um útgáfumál sambandsins. Kynnt voru rit sem hafa verið gefin út að undanförnu, stór og þykk rit sem með fáeinum undantekningum snerust um hagtölur, fólksfjölda og ýmis tæknileg mál, m.a. fjarskipti og gagnanet.
Hvar er menningin?

Að því getur komið að ástæða verði til að spyrja hvar menningin sé þegar hugað er að útgáfumálum, ekki síst stórra stofnana og sambanda eins og Jóhann Hjálmarsson bendir á með hliðsjón af dæmum heima og heiman. ÁBÓKASTEFNUNNI í Frankfurt í haust var blaðamönnum boðið til kynningarfundar á vegum Evrópusambandsins. Fundurinn snerist um útgáfumál sambandsins. Kynnt voru rit sem hafa verið gefin út að undanförnu, stór og þykk rit sem með fáeinum undantekningum snerust um hagtölur, fólksfjölda og ýmis tæknileg mál, m.a. fjarskipti og gagnanet. Mikið var lagt upp úr töflum, skrám og súlumyndum til skýringar, en minna fór fyrir texta. Varla þarf að taka fram að sum þessara rita voru líka tiltæk á geisladiskum.

Tekið var vel á móti gestum og þeir sendir að borði þar sem þeir voru skráðir. Beðið var um nafnspjald. Embættismenn í jakkafötum, flestir grásprengdir og allir með bindi, sátu við háborð og notuðust við glærur þegar þeir sýndu verk sín á tjaldi og skýrðu það sem stóð í ritunum enn frekar. Enginn hörgull var þó á eintökum, en fáir tóku þau með sér, enda þung byrði.

Áður en kom að veisluborðinu sátu embættismenn fyrir svörum, en viðbrögð í salnum voru lítil. Fáir blaðamenn voru mættir. Maður hafði á tilfinningunni að flestir gestanna tengdust beint eða óbeint efninu og störfuðu á vegum sambandsins. Írsk blaðakona (æ, þessir klikkuðu Írar!) spurði einnar spurningar sem kom á óvart og virtist á skjön: "Hvar er menningin? Hvernig með útgáfu menningarefnis á vegum Evrópusambandsins?"

Embættismennirnir hrukku við en létu sem spurningin kæmi þeim ekki á óvart og lýstu yfir að menningin væri "í skoðun"; henni yrði sinnt síðar. Þannig lauk þeim fundi.

Norrænt og evrópskt

Norðurlandaráð hafði sinn bás á bókastefnunni og voru rit á vegum þess furðu keimlík þeim sen Evrópusambandið hefur kostað útgáfu á. Það verður þó að segja að þrátt fyrir afar leiðinlega útgáfustefnu og ósmekkleg rit að ytra útliti skipti menningin meira máli en í ritum Evrópusambandsins. Nefna má í því sambandi En ok¨and sj¨al. På jakt efter det nordiska, sem kom út 1991. Norræna ráðherranefndin styrkir líka útgáfu ársritsins Nordisk litteratur sem segir tíðindi af bókum og höfundum og fælir ekki lesendur frá útlitsins vegna.

Evrópuráðið hefur veitt rithöfundum og þýðendum verðlaun og styrki og beitir sér fyrir ýmsum menningarviðburðum. Lítið hefur þó farið fyrir frásögnum af því starfi og Íslendingar hafa að mestu orðið utangátta í því eins og öðru. Ólíklegt er að Íslendingar muni móta menningarstefnu hjá Evrópusambandinu á þessari öld þar eð meirihluti þjóðarinnar virðist snúa óæðri endanum í Evrópusambandsáhugamenn.

En hvar er menningin? Þegar Bókatíðindi 1995 eru skoðuð er ljóst að enn eru gefnar út bækur þrátt fyrir samdrátt. Framkvæmdastjóri bókaútgefenda, Vilborg Harðardóttir, bendir á eina leiðina enn: rafræna útgáfu á geisladiskum. Þessi kostur hreif líka talsmenn Evrópusambandsins, margmiðlunin sparar tíma og getur hjálpað til við að lifa án hefðbundinna bóka. Bjartsýnismenn tala um viðbót við bókaútgáfuna í þessu sambandi og hafa vonandi rétt fyrir sér.

Á upplýsingahraðbraut nefnist ein þeirra bóka sem nýkomnar eru út. Sigrún Klara Hannesdóttir ritstýrir bókinni en í henni segja fimmtán Íslendingar frá alnetinu. Þetta eru frá sér numdir alnetshugar. Við erum vissulega á slíkri hraðbraut.

Upplýsingar eru orðnar helsta söluvara samtímans, stundum líkt og matreiddar í sama eldhúsinu. Til þess að sporna við einhæfni og litleysi þarf öfluga menningu sem byggir á traustum grunni, en má líka vera óþekk og í uppreisn.

SÍGILD evrópsk list: Nashyrningurinn eftir Albrecht D¨urer. Tréskurðarmynd gerð 1515.