29. nóvember 1988 | Bókmenntir | 448 orð

Aldargömul ferðasaga Bókmenntir Sigurjón Björnsson John Coles: Íslandsferð. Með

Aldargömul ferðasaga Bókmenntir Sigurjón Björnsson John Coles: Íslandsferð. Með kafla um Öskju eftir Delmar Morgan. Gísli Ólafsson íslenskaði. Bókaútgáfan Hildur, Reykjavík. 1988, 204 bls.

Aldargömul ferðasaga Bókmenntir Sigurjón Björnsson John Coles: Íslandsferð. Með kafla um Öskju eftir Delmar Morgan. Gísli Ólafsson íslenskaði. Bókaútgáfan Hildur, Reykjavík. 1988, 204 bls. Bók þessi er endurprentun á fyrri útgáfu (óársett) og segir í henni frá ferð þriggja Englendinga um Ísland sumarið 1881. Upphaflega birtist þessi ferðasaga á ensku árið 1882 undir heitinu Summer Travelling in Iceland og fylgdi henni þá ensk þýðing höfundarins á Bandamannasögu, Þórðar sögu hreðu og Hrafnkels sögu Freysgoða. Að öðru leyti hugsaði höfundur sér rit sitt sem kynningarrit fyrir væntanlega ferðalanga. Í því skyni fylgdu ýmsar hagnýtar leiðbeiningar í viðbæti, sem hér er sleppt (eins og auðvitað fornsögunum).

Þeir félagar fóru ríðandi úr Reykjavík austur um sveitir, norður yfir Sprengisand, vestur í Vatnsdal og þaðan yfir Stórasand, Arnarvatnsheiði, Kaldadal og um Þingvöll til Reykjavíkur. Alls tók ferðin um mánuð. Í Reykjavík stönsuðu þeir nánast ekkert. Meðan þeir voru í Þingeyjarsýslu brá einn þeirra sér ásamt fylgdarmanni til Öskju og ritaði um það stuttan kafla í bókina.

Ferðasaga þessi er lipurlega skrifuð, hlýleg og þægileg aflestrar og oft er að finna skemmtilegar lýsingar á því sem fyrir bar bæði í mannlífi og umhverfi. Ritið er þó bersýnilega hvorki hugsað sem leiðarlýsing né fræðirit. Víða gætir ónákvæmni og missagna, sem vonlegt er, en höfundur er þó ýkjulaus og umtalsgóður í frásögn sinni.

Allmargar myndir eru í bókinni, sem höfundur hefur gert eða látið gera eftir teikningum sínum í ferðinni. Eru sumar þeirra býsna skemmtilegar. Þá fylgir eftirmynd af Íslandskorti Björns Gunnlaugssonar og er þar merkt leið ferðalanganna.

Þýðing Gísla Ólafssonar er lipur og misfellulaus að því mér virðist.

Þá skyldi það síst gleymast að í upphafi bókar hefur Haraldur Sigurðsson ritað greinargóðan inngang (10 bls.) og eykur það gildi bókarinnar verulega. Segir hann þar deili á þeim ferðafélögum, rekur tildrög ferðar og lýsir ferðinni í stærstu dráttum og skýrir það sem helst er skýringar þörf. Einnig gerir Haraldur eins konar úttekt á ritverki þessu og fer best á því að láta hann hafa síðasta orðið:

"Ferðabók Coles er ekki í flokki meiri háttar lýsinga af landi og þjóð, sem útlendir menn hafa ritað að lokinni Íslandsför, en hún er mörgum þeirra geðugri og látlausari. Höfundur bókarinner er blessunarlega allsgáður í frásögn sinni og óhaldinn af hleypidómum, sem lengi hafa legið í landi hjá sumum nágrönnum okkar. Hann er líka að mestu leyti laus við rómantíska glýju og þá steigurlátu vorkunnsemi, sem stundum grípur útlendinga, þegar þeir rita um Ísland. Fólkið, sem hann kynnist, er ósköp hversdagslegt, uppog ofan eins og gengur og gerist, en engir furðufuglar. Flest er það greiðugt og viðmótsgott, en fátækt og einangrun í harðbýlu landi hefur skorið því helzti þröngan stakk."

Gísli Jónsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.