"Hann var alveg eins og ég átti von á, að vísu dálítið nefþykkur, en annars bara eins og almúgafólk, og mjög almennilegur." Þetta hafði Morgunblaðið eftir Guðrúnu Jónsdóttur, 78 ára gömlum íbúa við Laufásveg gegnt bandaríska sendiráðinu í byrjun júní árið 1973. Maðurinn almennilegi var Richard M.


"Dálítið nefþykkur"

"Hann var alveg eins og ég átti von á, að vísu dálítið nefþykkur, en annars bara eins og almúgafólk, og mjög almennilegur." Þetta hafði Morgunblaðið eftir Guðrúnu Jónsdóttur, 78 ára gömlum íbúa við Laufásveg gegnt bandaríska sendiráðinu í byrjun júní árið 1973. Maðurinn almennilegi var Richard M. Nixon Bandaríkjaforseti, sem dvaldi þá í fyrsta og eina sinn á Íslandi og átti fund með Frakklandsforseta, George Pompidou. Nixon hafði einn daginn gengið yfir Laufásveginn öllum að óvörum og heilsað uppá Guðrúnu.

Íslendingar kynntust einmitt vel alþýðumanninum Nixon. Hann og Pompidou ræddu m.a. nýjan Atlantshafssáttmála á fundum sínum á Kjarvalsstöðum en Nixon vakti óskipta athygli pressunnar með því að víkja nokkrum sinnum frá öryggisreglum og taka Íslendinga tali á götum úti. Strax fyrsta kvöldið fékk hann sér óvænta miðnæturgöngu, labbaði niður með Fríkirkjunni, frá bandaríska sendiráðinu, og niður að Tjörn. Aðeins tveir öryggisverðir fylgdu honum og tveir íslenskir lögregluþjónar, Tómas Jónsson og Magnús Einarsson. Nixon stoppaði við hvern mann sem hann mætti og heilsaði sérstaklega krökkum. "Það þekktu hann allir og fólk tók honum mjög vel, utan einn maður, sem var nokkuð við skál, og þóttist eiga eitthvað vantalað við Nixon," sagði Tómas síðar í Morgunblaðsviðtali.

Minnstu munaði að umferðaröngþveiti yrði í miðborginni, bílar snarstoppuðu á Lækjargötu og Nixon gekk óhræddur fyrir þá og upp Bankastrætið en áður en yfir lauk hafði hópur öryggisvarða umkringt forsetann og m.a. Alexander Haig. "Hann virtist njóta þess ríkulega að geta farið þarna frjáls ferða sinna. Hann hélt um axlirnar á okkur Magnúsi og spurði okkur um hús, sem vöktu athygli hans, og um Reykjavík og mér er afskaplega hlýtt til Nixons eftir þetta," sagði Tómas.

Sjálfur leiðtogafundurinn þótti ekki merkilegur og Pompidou sló á létta strengi. "Fundurinn hefur fremur verið í líkingu við það að búa til barn en að fæða það. Og getnaðurinn er venjulega miklu skemmtilegri en barnsfæðingin," sagði hann.

Árinu seinna neyddist Nixon til að segja af sér embætti vegna Watergate-hneykslisins, fyrsti forseti Bandaríkjanna til að gera slíkt.NIXON á Íslandi; alþýðlegur við Íslendinga.