Kambsránið, framið aðfaranótt 9. febrúar 1827, þegar fjórir grímuklæddir menn brutust inn í baðstofu á bænum Kambi í Flóa, lögðu hendur á bóndann, Hjört Jónsson, og heimilisfólk hans, tvær konur og fimm ára dreng; bundu þeir fólkið á höndum og fótum og hótuðu pyndingum og dauða til þess að fá afhent fé bóndans.
Kambsránið

Kambsránið, framið aðfaranótt 9. febrúar 1827, þegar fjórir grímuklæddir menn brutust inn í baðstofu á bænum Kambi í Flóa, lögðu hendur á bóndann, Hjört Jónsson, og heimilisfólk hans, tvær konur og fimm ára dreng; bundu þeir fólkið á höndum og fótum og hótuðu pyndingum og dauða til þess að fá afhent fé bóndans. Ránsmennirnir urðu að brjóta upp allar hirslur, áður en þeir fundu féð, rúmlega 1.000 ríkisdali, sem þeir hurfu á brott með. Þegar athuguð voru verksummerki, fundust hlutir úr fórum ránsmanna, sem notaðir voru sem sönnunargögn við réttarrannsókn.

Þórði Sveinbjörnssyni, sýslumanni í Hjálmholti, sem rannsakaði Kambsránið, tókst að upplýsa málið, svo að allir ránsmennirnir voru handteknir, og eftir langvinn réttarhöld játuðu þeir á sig ránið. Fyrirliði þeirra var Sigurður Gottsvinsson frá Leiðólfsstöðum. Fleiri reyndust flæktir í málið með því að hylma yfir með afbrotamönnum. Í réttarhöldunum komst einnig upp um ýmis önnur þjófnaðarmál í Árnessýslu frá undanfarandi árum, m.a. þjófnað úr Eyrarbakkaverslun, sauðaþjófnað o.fl. Málaferlin voru einhver hin víðtækustu, sem um getur í íslensku sakamáli, stóðu í tæpt ár, og um 30 manns var stefnt fyrir rétt.

Í febrúar 1828 kvað sýslumaður upp dóm, sem áfrýjað var til Landsyfirréttar í Reykjavík og Hæstaréttar í Kaupmannahöfn, en þar gekk dómur 1829. Var forsprakkinn, Sigurður Gottsvinsson, dæmdur til að hýðast við staur og til ævilangrar þrælkunarvinnu í Rasphúsi í Kaupmannahöfn, ennfremur aðrir ránsmenn, tveir þeirra þó um styttri tíma; 15 aðrir voru sakfelldir.

Ránsmennirnir voru fluttir utan 1830; tveir þeirra áttu afturkvæmt til Íslands eftir náðun, árið 1844, einn lést ytra, en Sigurður Gottsvinsson var dæmdur til lífláts fyrir áverka, sem hann veitti fangaverði, og hálshöggvinn 1834.