Sigurgeir Sigurjónsson ódagbundin viðbót

Sigurgeir var fæddur í Hafnarfirði 5. ágúst 1908. Hann lést 6. þ.m. Foreldrar hans voru Sigurjón Kristjánsson, vélstjóri í Reykjavík, og kona hans Hjálmfríður Kristjánsdóttir frá Veðrará í Önundarfirði. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1930 og cand. juris frá Háskóla Íslands 1935. Héraðsdómslögmaður varð hann 1938 og hæstaréttarlögmaður 1941. Fyrstu árin eftir embættispróf, 1936-42, vann hann sem fulltrúi í lögmannsstofu Stefáns Jóh. Stefánssonar hrl. og Guðm. Í Guðmundssonar hrl. en stofnaði síðan lögmannsstofu í Reykjavík, þar sem hann vann allt til áramóta 1990- 1991, en þá hætti hann lögmannsstörfum fyrir aldurs sakir.

Hann lagði sérstaka stund á vörumerkjafræði og einkaleyfi og hafði viðskipti um slík mál um allan heim og skrifaði ritgerðir um þau fræði, sem birtust í tímaritum bæði hérlendis og erlendis. Þá var hann ræðismaður og síðan aðalræðismaður fyrir Ísrael 1957-1973. Hann var formaður Orators 1931-32, í Verðlagsnefnd 1938-1942, einnig var hann með í stofnun ýmissa félaga svo sem Steypustöðvarinnar hf. og var oft formaður þeirra eða stjórnarmaður. Hann var valinn í Mannréttindanefnd Evrópuráðsins 1962 til 1966, en þá tók hann sæti í Mannréttindadómstóli Evrópuráðsins til 1971.

Kona hans var Regína Hansen, dóttir Jörgens Hansens, skrifstofustjóra í Reykjavík, og Ingu Skúladóttur Hansen húsfreyju. Þau áttu fjögur börn, einn son og þrjár dætur.

Hann fékk heiðursmerki Félags umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa og riddarakross Fálkaorðunnar 1969.

Sigurgeir var sérstakur maður. Hann var glaðlyndur og gamansamur, en mjög góður lögmaður, ábyggilegur og traustur. Kynni okkar voru orðin gömul. Við tókum báðir próf upp í 4. bekk Menntaskólans 1927 og vorum síðan í sama bekk til stúdentsprófs og síðan samtímis í Háskólanum. Fyrsta veturinn sem ég var í skóla í 4. bekk Menntaskólans bjó ég í sama herbergi og Sigurgeir, leigði hjá móður hans og fékk þar líka fæði. Við urðum vinir og vorum það alla tíð meðan báðir lifðu. Hann var mikið ljúfmenni og hefi ég oft sagt með sanni að hann hafi kennt mér að hlæja.

Það var ánægjulegt að heimsækja þau hjón, enda voru þau gestrisin með afbrigðum og heimili þeirra sérstaklega fallegt. Ég mun sakna Sigurgeirs svo lengi sem mér verður lífs auðið, slíkur öðlingsmaður sem hann var. Hann var búinn að vera sjúkur allmarga mánuði og hafði þjást mikið. Fyrir hann hefur því verið léttir að hverfa af sviðinu. Ekkja hans er sjúklingur en hún annaðist hann og hjúkraði meðan hann þurfti á að halda og meðan hún hafði krafta til enda er hún mikil drengskaparkona og hefur séð um fagurt heimili þeirra síðan þau giftust 16. október 1937 og annast með honum gestamóttökur á höfðinglegan hátt.

Þeim fækkar óðum vinum okkar hinna öldruðu, sem enn lifum, og er nú stórt skarð höggvið í þann hóp, sem ég get kallað vini mína þegar Sigurgeir er fallinn frá og svo mun um marga fleiri. Ég kveð hann klökkur í huga með þakklæti fyrir langa vináttu og alla góða hluti sem hann hefur fyrir mig gert og óska honum fararheilla.

Friðjón Skarphéðinsson.