LANGAR þig að vita hvernig þú getur gefið (barna)barninu þínu meira en milljón án þess að það kosti þig eyri? Ef svo er skaltu lesa áfram. Undanfarna mánuði hef ég verið svo lánsöm að eiga þess kost að kynna mér aðferðir í móðurmálskennslu í Bandaríkjunum. Þar hafa nýlegar rannsóknir leitt í ljós að gildi þess að lesa fyrir ung börn er enn meira en áður var talið.

Meira en

milljón gefins!

Lesið fyrir börnin ykkar, segir Ragnheiður Briem , og byggið upp fyrir skólagöngu. LANGAR þig að vita hvernig þú getur gefið (barna)barninu þínu meira en milljón án þess að það kosti þig eyri? Ef svo er skaltu lesa áfram.

Undanfarna mánuði hef ég verið svo lánsöm að eiga þess kost að kynna mér aðferðir í móðurmálskennslu í Bandaríkjunum. Þar hafa nýlegar rannsóknir leitt í ljós að gildi þess að lesa fyrir ung börn er enn meira en áður var talið.

Ef lesið er fyrir börn á hverju kvöldi frá því að þau eru nógu gömul til að skoða myndir þar til skólaaldri er náð jafnast það á við að minnsta kosti þúsund kennslustundir í móðurmáli. Barn, sem farið hefur á mis við þessa reynslu, þarf því að fá þúsund aukatíma til að standa jafnfætis "bókvönum" bekkjarsystkinum.

Ekki er óalgengt að greiddar séu þúsund krónur fyrir aukatíma. Það mundi því kosta heila milljón að reyna að bæta upp lestrarleysið. Hvað ætli barnið yrði mörg ár að fara í alla þá aukatíma þótt kennt væri flesta virka daga ársins? Og hversu mikið lesefni skyldi fara forgörðum meðan þessari færni væri náð?

Þegar lesið er fyrir ung börn býr það þau ekki aðeins undir lestrarnám heldur öðlast þau orðaforða og tilfinningu fyrir byggingu ritsmíða, þau læra um gerð setninga, málfræði og stíl: Þau læra "bókmál".

Það sem síast inn í þau algerlega fyrirhafnarlaust á fyrstu árum ævinnar er hægara sagt en gert að bæta þeim upp á unglingsárum. Þegar þau koma í framhaldsskóla og geta mörg hver hvorki tjáð sig munnlega né skriflega er of seint að bjóða þeim að lesa fyrir þau Litlu, gulu hænuna.

Ekki alls fyrir löngu hlustaði ég á segulbandsupptöku þar sem ólæsri fimm ára gamalli stúlku var fengin myndabók án nokkurs texta og hún beðin að "lesa" fyrir dúkkuna sína. Fyrir þetta barn hafði verið lesið á hverju kvöldi nánast frá fæðingu. Það gleddi mig ósegjanlega ef nemendur mínir í menntaskóla hefðu jafnnæma tilfinningu fyrir ritmáli og stíl og þessi fimm ára gamla telpa.

Henni datt greinilega ekki annað í hug en að segja brúðunni sinni söguna á því bókmáli sem hún var sjálf vön að heyra og byrjaði á hefðbundnu "Einu sinni var . . ."

Hún notaði orðaröð og orðaforða sem sjaldan heyrist í talmáli, síst í máli ungra barna: Þau sáu kastala í fjarska . Og þau fóru inn til að sjá hvað væri handan við kastaladyrnar. Hún byggði upp stígandi og gætti þess að hafa rúsínuna alltaf á sínum stað í pylsuendanum: Þar fundu þau bak við stigann . . . dreka . Þar lá í leyni . . . dreki .

Ég held að flestir Íslendingar trúi því staðfastlega að þeir leggi meiri rækt við móðurmálið en flestar aðrar þjóðir. Þó er það staðreynd að Bandaríkjamenn eyða mörgum sinnum meira púðri í móðurmálskennslu en við gerum.

Við erum orðlaus af hrifningu yfir því hvað börnin okkar læra mikið í ensku af öllu sjónvarpsglápinu en gleymum því að þetta gerist á kostnað móðurmálsins nema þar hafi þegar á unga aldri myndast traustur grunnur.

Bróðir minn, sem hefur verið búsettur erlendis meira en tuttugu ár, notar Vífilsstaðavagninn að staðaldri í árlegum heimsóknum til landsins og hefur gott tækifæri til að hlýða á tal æskufólks í Garðabæ í skólabílnum. Hann hafði orð á því við mig að sér fyndist málfar unglinga hafa breyst mikið með árunum. Nú töluðu þeir mest í setningarbrotum og upphrópunum.

Sömu sögu hef ég að segja af mörgum nemendum mínum. Þeir byrja á setningum og bíða svo eftir að kennarinn botni þær fyrir þá. Ef ég átta mig ekki nógu vel á því hvað þeir eru að reyna að segja og bið um framhald er svarið oftar en ekki: "Æ, þetta skiptir ekki máli." Þeir treysta sér hreinlega ekki til að tjá hugsanir sínar í orðum.

Skólakerfið er lengi að taka við sér og ef til vill álíta ráðamenn að við kennarar förum með fleipur þegar við látum í ljós áhyggjur okkar vegna ískyggilegrar þróunar í málfari ungmenna. En við þurfum ekki alltaf að bíða eftir því að "kerfið" komi til skjalanna.

Eins og allir vita byggist skólanám að miklu leyti á lestri, ritun og munnlegri tjáningu. Þeir sem vilja auka líkurnar á velgengni barna sinna á menntabrautinni síðar meir ættu sem oftast að taka þau á hné sér og lesa, lesa, lesa. Þannig gefa þeir börnunum ekki einungis ómetanlegt veganesti talið í krónum heldur eiga með þeim ánægjustundir sem að öllum líkindum verða dýrmætar perlur í endurminningum þeirra til æviloka.

Aðalheimild: Victoria Purcell-Gates: Three Levels of Understanding about Written Language Acquired by Young Children Prior to Formal Instruction.

Höfundur er gistifræðimaður við Harvardháskóla. Ragnheiður Briem