MEÐ Sabbaths Theater, Leikhúsi Sabbaths verða að sumu leyti skil í höfundarverki Roths. Nú virðist hann hafa lokið ítarlegri rannsókn sinni á sambandi skáldskapar og veruleika sem staðið hefur
Algert hömluleysi Philip Roth er einn af þekktustu og virtustu rithöfundum Bandaríkjanna. Hann er kunnastur fyrir bókina Portnoy s Complaint, sem vakti hneykslan víða um heim sökum hispurslausra lýsinga á kynhegðun söguhetjunnar. Roth hefur nú sent frá sér nýja bók, Sabbath's Theater, þar sem hispursleysið er enn meira. Eigi að síður hefur bókin hlotið ein virtustu bókmenntaverðlaun Bandaríkjanna, National Book Award. Rúnar Helgi Vignisson fjallar hér um bókina. MEÐ Sabbath s Theater, Leikhúsi Sabbaths verða að sumu leyti skil í höfundarverki Roths. Nú virðist hann hafa lokið ítarlegri rannsókn sinni á sambandi skáldskapar og veruleika sem staðið hefur yfir frá því bókin My Life as a Man kom út árið 1974 og reis einna hæst í verðlaunabókunum The Counterlife og Operation Shylock , en þá síðarnefndu valdi Time bestu skáldsögu ársins 1993. Þar er söguhetjan orðin Philip Roth, persóna með sama bakgrunn og höfundurinn, en þó er verkið óumdeilanlega skáldsaga. Eða hvað?

Leikhús fáránleikans

Í leikhúsi Sabbaths ríkir algert hömluleysi. Leikhússtjórinn, Mikey Sabbath, er 64 ára og lítur yfir farinn veg. Tilefnið er dauði hjákonu hans, hinnar króatísku Drenku, úr krabbameini í eggjastokkum, en með henni hafði hann stundað svo ævintýralegar kynlífskúnstir að útlistun á þeim mundi sprengja siðaramma þessa blaðs. Titill bókarinnar vísar til brúðuleikhúss sem hann rak um skeið á götum New York-borgar. Hann er dreginn fyrir rétt þegar lögreglumaður verður vitni að því að hann lætur brúðu sína bera brjóst ungrar stúlku í áhorfendahópnum. Þegar dómarinn spyr hvort hann ætli að fremja þetta ósiðlega athæfi aftur svarar hann: "Þetta er mitt lifibrauð." Og víst er það tilsvar lýsandi fyrir kauða.

Eftir þetta flyst Sabbath ásamt seinni konu sinni - sú fyrri hvarf sporlaust - til smábæjar á Nýja- Englandi þar sem hann tekur að sér leiklistarkennslu. Hann er rekinn úr starfi þegar upp kemst að hann hefur stundað hálfgert símavændi með nemanda. Smáatriðin eru ekki falin fyrir lesandanum, heldur er símtalið birt orðrétt neðanmáls, en stúlkan hafði tekið það upp og spólan síðan komist í hendurnar á öðrum. Þarna leikur Roth sér að lesandanum, lætur hann velja milli klámsins neðanmáls og meginmálsins. Sjálfum finnst Sabbath ekkert athugavert við athæfi sitt, þetta sé hinn raunverulegi veruleiki karlmannsins.

Paradísarmissir nútímans

Sabbath kærir sig enn kollóttan um norm samfélagsins og svífst einskis þó að hann sé orðinn feitur og blöðruhálskirtillinn háskalega stór. Þegar hann heldur í jarðarför vinar í New York tekst honum næstum að tæla eiginkonu góðborgarans Normans, vinarins sem hann gistir hjá, auk þess sem hann fer frjálslega með nærföt heimasætunnar og stelur nektarmyndum af frúnni.

Þrátt fyrir þetta er Sabbath ekki alveg ófær um að elska og ef til vill er það hans akkillesarhæll. Þannig tregar hann mjög bróður sinn, sem lést í seinni heimsstyrjöldinni. Sá mikli missir eyðilagði líf foreldra hans og sjálfur hefur hann aldrei jafnað sig. Hann gengur enn með úr bróður síns og undir lok bókarinnar stelur hann öðrum persónulegum munum hans frá fjörgömlum ættingja. Þar á meðal eru orða og bandaríski fáninn og skrýddur hvoru tveggja heldur hann enn einu sinni á leiði Drenku, sem sagði eitt sinn að hann væri Ameríka. Sabbath hefur stundað allóvenjulega iðju í kirkjugarðinum en í þetta sinn lætur hann nægja að kasta ástúðlega af sér vatni á leiðið. Þá vill svo óheppilega til að fulltrúa siðgæðisins ber að garði, engan annan en lögregluþjóninn son Drenku.

Þannig rekur hver furðan aðra í þessari sögu, sem hinn þekkti gagnrýnandi Frank Kermode kallar í ítarlegum ritdómi í New York Review of Books eina merkilegustu skáldsögu síðustu ára. Hann telur bókina dýpri en flestar bækur Roths frá því Portnoy s Complaint kom út, enda má segja að karlinn flysji hér siðmenninguna utan af aðalpersónunni. Kermode gengur svo langt að halda því fram að Roth sé með sínum hætti að fást við sömu þemu og höfundar Paradísarmissis og Mósebókar.

Svekktur Lér

Nokkrar bóka Roths hafa gengið út á stórýkta, næstum gróteska, umfjöllun um kynlíf. Í Portnoy s Complaint fær sjálfsfróun slíka meðferð og í Zuckerman þríleiknum er farið býsna geyst í kynlífslýsingum líka. Ekkert er heilagt, en þó tekst Roth að bæta um betur í nýju bókinni og koma sjóuðum lesendum sínum í opna skjöldu.

Það sem kemur í veg fyrir að skrif hans verði lágkúruleg er færni hans við að láta kynlífshegðun endurspegla djúpstæðan sannleik. Í Portnoy s Complaint voru það tengslin við móður og siðfræði gyðingdómsins, hér eru það frumhvatir mannsins í samhengi við dauðann.

Sabbath hefur tilvitnanir í Lé konung á hraðbergi og eftir að hann yfirgefur konu sína er hann að sumu leyti í stöðu hins vitfirrta Lés á heiðinni, er utan við samfélagið. Lé konungi sárnar óréttlæti dætra sinna, sem úthýstu honum og stunduðu saurugt líferni í laumi. Það er þetta óréttlæti, þessi tvískinnungur, sem nærir hinar andfélagslegu kenndir Sabbaths, enda eru lokaorð bókarinnar, eftir að hann hefur gert misheppnaða tilraun til að stytta sér aldur: "Hvernig gat hann farið? Allt sem hann hataði var hér".

Og því gengur dýrið laust í leikhúsi mennskunnar í aldarlok.

Philip Roth