"SONUR okkar hefði átt að fæðast fyrir átta dögum, ef meðgangan hefði verið eðlileg. Þess í stað er hann orðinn fjögurra mánaða gamall! Það er ótrúlegt að hann skuli vera á lífi," segir norski popparinn Ketil Stokkan með gleðitár í augum. Eftir átta ára tilraunir til að eignast barn og þrjú fósturlát kom Elías, fyrsta barn hans og Line eiginkonu hans, loks í heiminn.
Kraftaverk

"SONUR okkar hefði átt að fæðast fyrir átta dögum, ef meðgangan hefði verið eðlileg. Þess í stað er hann orðinn fjögurra mánaða gamall! Það er ótrúlegt að hann skuli vera á lífi," segir norski popparinn Ketil Stokkan með gleðitár í augum. Eftir átta ára tilraunir til að eignast barn og þrjú fósturlát kom Elías, fyrsta barn hans og Line eiginkonu hans, loks í heiminn. En það var fjórum mánuðum fyrir tímann.

Eftir aðeins 23 vikna meðgöngu, 115 dögum fyrir tímann, leit hann dagsins ljós. Það er ansi nálægt "heimsmetinu", ef marka má heimsmetabók Guinnes. Samkvæmt henni á kanadískur fyrirburi sem fæddist árið 1987 "heimsmetið", en hann fæddist 128 dögum fyrir tímann. Hann vó 624 grömm við fæðingu, en Elías var aðeins 580 grömm að þyngd og 30 sentimetra langur þegar hann "kaus" að líta dagsins ljós.

"Við bjuggumst við því að hann myndi deyja fljótlega. Þess vegna létum við skíra hann daginn sem hann fæddist," segja Ketil og Line. "Við erum ótrúlega heppin. Ljósmóðirin, Wigdis Stavran, hafði tíu ára reynslu af að taka á móti fyrirburum. Hún bjargaði lífi Elíasar. Við munum standa í þakkarskuld við hana að eilífu. Venjulega falla lungun fljótt saman í fyrirburum, en sú varð ekki raunin með Elías. Sem betur fór tók Wigdis eftir því, þannig að haldið var áfram að gefa honum súrefni."

Á meðan á veikindunum stóð þurfti Ketil að stunda vinnu sína eins og venjulega, en hann er rokkstjarna og umboðsmaður að atvinnu. "Það var mjög erfitt að markaðssetja sjálfan sig og hljómsveitina sína með tárin í augunum. Sem betur fór fékk ég aðstoð við að skipuleggja tónleikaferð um Norður-Noreg. Hún gekk frábærlega, fullt hús alls staðar ­ þrátt fyrir að ég væri alltaf að hugsa um Elías. Ég hringdi á sjúkrahúsið minnst fimm sinnum á dag, jafnvel að nóttu til," segir hann.

Þrátt fyrir að vera orðinn umhyggjusamur faðir er Ketil ekkert á því að fórna rokkaraímyndinni. "Ég er rokkari!" segir hann og kímir. Síða hárið og skeggið verða því á sínum stað að sinni.

ELÍAS þriggja vikna gamall. "Við sáum hann gráta, en heyrðum ekkert," segir Ketil.

STOLTIR foreldrar með "jólagjöfina"; heilbrigðan son.

KETIL faðmar son sinn.