Ár liðið frá því uppreisn Palestínumanna hófst: Ísraelar ráðast á stöðvar Palestínumanna í Líbanon Shamir sagður samþykkja alþjóðlega friðarráðstefnu Jerúsalem, Beirút og Dohwa í Líbanon. Reuter.

Ár liðið frá því uppreisn Palestínumanna hófst: Ísraelar ráðast á stöðvar Palestínumanna í Líbanon Shamir sagður samþykkja alþjóðlega friðarráðstefnu Jerúsalem, Beirút og Dohwa í Líbanon. Reuter.

ÍSRAELSKAR árásarsveitir, búnar þyrlum, réðust á Palestínuskæruliða í Líbanon á aðfaranótt föstudags og segjast hafa sundrað helstubækistöð þeirra áður en hermennirnir sneru aftur til síns heima. 20 skæruliðar hafi verið felldir en aðeins einn Ísraeli hafi týnt lífi.

Þyrlur ísraelsku sveitanna vörpuðu sprengjum á æfingasvæði, skot færageymslur og ýmsar byggingar og vegi skammt frá Beirút. Ahmed Jibril, leiðtogi skæruliðahreyfingarinnar PLFP-GC, sem varð fyrir miklum skakkaföllum í árásinni, sagði að ísraelsku hersveitirnar hefðu sent hunda með sprengjur á bakinu til árása á stöðvar skæruliða.

George Shultz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti í gær yfir óánægju stjórnvalda þar vegna árásarinnar á Líbanon. Breska stjórnin, sem oftast er hliðholl Ísrael, fordæmdi árásina.

Í gær var eitt ár liðið frá því uppreisn Palestínumanna á hernumdu svæðunum í Ísrael, "intifadan", hófst og höfðu yfirvöld mikinn viðbúnað vegna ótta við átök. Mörg þúsund ísraelskir hermenn voru á varðbergi á hernumdu svæðunum og á Gazasvæðinu var útgöngubann.

Yasser Arafat, leiðtogi Frelsissamtaka Palestínu, PLO, lýsti yfir því í gær að uppreisninni yrði haldið áfram en lagði jafnframt áherslu áað samtökin vildu bætt samskipti við stjórnvöld í Bandaríkjunum. "Þetta er undir Ísraelum komið, vilji þeir frið þá er það vel, vilji þeir stríð erum við tilbúnir," sagði hann.

Heimildarmenn innan Ísraelsstjórnar skýrðu frá því í gær að helsti aðstoðarmaður Yitzhaks Shamirs, forsætisráðherra Ísraels, hefði fyrir tveimur vikum tilkynnt einum af ráðgjöfum George Bush, verðandi forseta Bandaríkjanna, að Ísraelar væru reiðubúnir til að samþykkja alþjóðlega friðarráðstefnu um málefni Mið-Austurlanda undir yfirstjórn risaveldanna tveggja.