Mosfellsbær: Sögulegt gildi Hraðastaða ekki talið vera 3 m.kr. virði ­ segir Páll Guðjónsson bæjarstjóri PÁLL Guðjónsson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir að það hafi legið fyrir að bærinn Hraðastaðir hafi verið boðinn Mosfellsbæ að gjöf í þeim tilgangi...

Mosfellsbær: Sögulegt gildi Hraðastaða ekki talið vera 3 m.kr. virði ­ segir Páll Guðjónsson bæjarstjóri

PÁLL Guðjónsson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir að það hafi legið fyrir að bærinn Hraðastaðir hafi verið boðinn Mosfellsbæ að gjöf í þeim tilgangi að húsin þar yrðu gerð upp. Áætlaður kostnaður við það hafi verið um 3 milljónir króna, auk viðhaldskostnaðar síðar, og meirihluti bæjarstjórnar hafi ekki talið sögulegt gildi húsanna nægilegt til að það réttlætti fjárútlátin.

Í pistli eftir Sigríði Halldórsdóttur í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag sagði að Hraðastaðafólk hafi boðið Mosfellsbæ húsin og bæjarstæðið að gjöf en yfirvöld þar hafnað tilboðinu. Hraðastaðabærinn sé einn af örfáum sem eftir standi af þeim eftirlíkingum gömlu torfbæj anna sem tíðkaðist að byggja á Íslandi snemma á öldinni. Hann sé 60-70 ára gamall, en vel byggður úr úrvalstimbri.

Páll Guðjónsson sagði að ákvörðun bæjarstjórnar hafi verið tekin að vel athuguðu máli og meðal annars hafi verið fengið álit Harðar Ágústssonar á sögulegu gildi bæjarins. Meirihluti bæjarstjórnar hafi að því fengnu ekki talið gildi bæjarins nægilegt til að réttlæta kostnaðinn. Atkvæðagreiðsla um málið hafi farið 4-3 og ekki skipst eftir pólitískum línum, heldur aldri, þannig að hinir eldri Mosfellingar hafi verið hlynntir því að þiggja Hraðastaði og varðveita húsin.

Morgunblaðið/Árni Sæberg

Hraðastaðir í Mosfellsdal er 60-70 ára gamall bárujárnsklæddur timb urbær með byggingarlagi í stíl torfbæjanna.