Önnur bókin í flokknum Íslensk þjóðmenning BÓKAÚTGÁFAN Þjóðsaga hefur gefið út bók í bókaflokknum Íslensk þjóðmenning. Þessi bók er fimmta bindið í bókaflokknum, en það fyrsta, Uppruni og umhverfi, kom út fyrir ári.

Önnur bókin í flokknum Íslensk þjóðmenning

BÓKAÚTGÁFAN Þjóðsaga hefur gefið út bók í bókaflokknum Íslensk þjóðmenning. Þessi bók er fimmta bindið í bókaflokknum, en það fyrsta, Uppruni og umhverfi, kom út fyrir ári. Nýja bindiðfjallar um trúarlíf og trúarvenjur Íslendinga frá öndverðu og fram á fyrstu áratugi þessarar aldar. Í bókinni eru þrjár ritgerðir sem fjalla um norræna trú, kristna trúarhætti og þjóðtrú. Höfundar eru tveir, þeir Hjalti Hugason kirkjusagnafræðingur og Jón Hnefill Aðalsteinsson þjóðfræðingur. Drjúgur hluti af efni bókarinnar er byggður á frumrannsókn.

Í ritgerðinni um norræna trú er greint frá því hvernig hugmyndafræðin var byggð upp og með hvaða hætti guðsdýrkunin fór fram hér álandi. Fjallað er um stöðu norrænnar trúar meðan hún var hér við lýði, sagt frá hnignun hennar og loks kristnitökunni. Ritgerðin um kristna trúarhætti skiptist í fjóra aðalkafla. Sá fyrsti er einkum um guðshúsin. Í öðrum kafla er fjallað um hið opinbera trúarlíf sem tengdist kirkjuhúsinu. Í þriðja kaflanum er fjallað um trúarlegt uppeldi Íslendinga og íI fjórða aðalkaflanum segir af heimilisguðrækni, m.a. húslestrinum, bænum og trúarlegum athöfnum. Orsakir breytinga og þróunar eru greindar bæði samhliða og í sérstökum lokakafla.

Hjalti Hugason sagði á blaðamannafundi, þar sem bókin var kynnt, að það sem kalla mætti séríslenskt við trúarlíf Íslendinga væri fastheldnin á trúarsiði. Íslendingar hefðu haldið miklu lengur í ýms atriði en til dæmis var annars staðar á Norðurlöndum. Til dæmis hefðu Íslendingar lengi vel almennt signt sig, t.d. þegar þeir gengu í kirkju og komu út í nýjan dag. Og sjóferðabænin hefði verið lifandi athöfn fram um 1950. Þannig hefðum við Íslendingar haldið miklu lengur en aðrar þjóðir sýnilegu trúarlífi.

Í ritgerðinni um íslenska þjóðtrú er fjallað um ýmiss konar yfirnáttúrulegar verur, drauga, útilegumenn, galdra og töfrabrögð, náttúru- og forlagatrú. Á blaðamannafundinum var vakin athygli á þeirri niðurstöðu, að verurnar í skjaldarmerki Íslands hafi aldrei talist til landvætta. Jón Hnefill Aðalsteinsson sagði af því tilefni, að hann hefði fyrir 23 árum verið blaðamaður viðstaddur doktorsvörn í Uppsölum, þar sem doktorsefnið Bo Almq vist hefði haldið þessu fram. Andmælandi hefði hins vegar notað svo sterk orð gegn þessu að fréttagildið hefði gufað upp. Jón sagðist síðar hafa lesið ræðu andmælandans og komist að þeirri niðurstöðu að hann hefði eyðilagt fyrir sér fréttina með orðum en engum rökum. Sagðist Jón nú vera þeirrar skoðunar að þessi niðurstaða Almqvists stæði óhögguð og því léti hann nú loksins þessa frétt frá sér fara !

Í þessu bindi eru 140 myndir bæði í lit og svart-hvítar. Atriðis-, orða- og nafnaskrá fylgir og einnig útddráttur á ensku. Hafsteinn Guðmundsson hannaði útlit bókarinnar og öll prentsmiðjuvinna fór fram í Prentsmiðjunni Odda hf. Frosti F. Jóhannsson ritstýrir bókaflokknum og Haraldur Ólafsson, Jón Hnefill Aðalsteinsson og Þór Magnússon skipa ritnefnd.

Frosti sagði á blaðamannafundinum, að Íslensk þjóðmenning ætti að verða níu binda bókaflokkur um íslenska þjóðmenningu og spanna tímabilið frá landnámi og fram á fyrstu áratugi þessarar aldar. Skipulagi hans væri í aðalatriðum lokið og búið að fá höfunda að öllum köflum bókaflokksins. Sagði Frosti, að um 50 fræðimenn legðu þar hönd að verki og væri þegar ljóst, að drjúgur hluti efnisins byggðist á frumrannsóknum höfundanna.

Hjalti Hugason, Frosti F. Jóhannsson, Hafsteinn Guðmundsson og Jón Hnefill Aðalsteinsson kynntu nýja bindið í bókaflokknum Íslensk þjóðmenning.

Morgunblaðið/Sverrir.