Sovétríkin: Leysa Ford-bílar Volguna af hólmi? Dearborn. Reuter. FORD-bílaverksmiðjurnar hafa átt í viðræðum við stjórnvöld í Sovétríkjunum um framleiðslu bandarískra bíla þar í landi. Kom þetta fram hjá talsmanni fyrirtækisins á mánudag.

Sovétríkin: Leysa Ford-bílar Volguna af hólmi? Dearborn. Reuter.

FORD-bílaverksmiðjurnar hafa átt í viðræðum við stjórnvöld í Sovétríkjunum um framleiðslu bandarískra bíla þar í landi. Kom þetta fram hjá talsmanni fyrirtækisins á mánudag.

Talsmaðurinn sagði, að fyrirtækið hefði komist að samkomulagi við Sovétstjórnina um viðræðurnar og yrði ekki sagt nánar frá þeim að svo stöddu. Heyrst hefur þó, að Sovétmenn vilji greiða fyrir framleiðslu Ford-bíla í borginni Gorkíj gegn því, að fyrirtækið endurnýi verksmiðjurnar, sem þar eru og voru reistar á þriðja áratug aldarinnar.

Bílaiðnaðarblaðið Automotive News skýrði frá því fyrir skömmu, að líklega myndi Ford framleiða 100.000 bifreiðar af Scorpio-gerð í bílaverksmiðjunum í Gorkíj. Yrðu 50.000 þeirra fyrir herinn, 25.000 fyrir hið opinbera og almennan markað og 25.000 leigubifreiðar.

Scorpio-gerðin á hugsanlega að leysa af hólmi Volgu-bílana, sem nú eru smíðaðir í Gorkíj, en Volguna má kalla flaggskip sovésku bílaframleiðslunnar. Ford er eitt af sjö bandarískum fyrirtækjum, sem hafa sameinast um að leita hófanna um samstarf við Sovétmenn.