Takmörkun hefðbundinna vopna: Utanríkisráðherrar NATO samþykkja viðræðugrundvöll Brussel. Frá Kristófer M. Kristinssyni, fréttaritara Morgunblaðsins.

Takmörkun hefðbundinna vopna: Utanríkisráðherrar NATO samþykkja viðræðugrundvöll Brussel. Frá Kristófer M. Kristinssyni, fréttaritara Morgunblaðsins. Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins, sem luku fundi sínum í Brussel í gær, samþykktu hluta af tillögum um grundvöll viðræðna um takmörkun hefðbundinna vopna í Evrópu. Jafnframt lýstu ráðherrarnir ánægju sinni með yfirlýsingu Míkhaíls Gorbatsjovs á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um fækkun í hefðbundnum herafla Sovétríkjanna. "Ekki er unnt að vísa þessu frásér sem áróðursbragði því það er heilmikið í þessar tillögur spunnið," sagði George Shultz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, meðal annars.

Þær tillögur sem ráðherrarnir samþykktu á fundinum eru hluti tillagna sem mótaðar hafa verið innan NATO á undanförnum misserum. Ágreiningur við Frakka um hlutverk hinna svokölluðu hlutlausu þjóða í viðræðunum um takmörkun hefðbundins herafla hefur helst tafið afgreiðslu tillagnanna. Samkomulag náðist um þetta deiluatriði með því að staðfesta ákvörðun ráðherrafundarins í Reykjavík um tvær aðskildar viðræður, annars vegar um öryggi og samvinnu í Evrópu og hins vegar um fækkun í hefðbundnum herafla og vopnabúnaði frá Atlantshafi til Úralfjalla. Ráðherrarnir ályktuðu um bann við efnavopnum og lýstu vonum sínum um árangursríka ráðstefnu í París sem halda á um það efni.

Forsenda þess að viðræður milli austurs og vesturs beri árangur er að mati ráðherranna annars vegar sú að Sovétríkin virði mannréttindi að fullu og hins vegar að þau og bandamenn þeirra birti án tafar óyggjandi upplýsingar um herstyrk sinn. Þess vegna birti NATO nýlega skýrslu um eigin herstyrk og áætlaðar tölur um herstyrk Varsjárbandalagsins. Á blaðamannafundi með utanríkisráðherrum NATOríkja kom fram að ákvörðun Gor batsovs að skera niður herafla Sovétmanna hefur sáralítil áhrif á það misvægi sem ríkir í þessum efnum. Yfirburðir Sovétríkjanna og bandamanna þeirra eru eftir sem áður gífurlegir. Samkvæmt heimildum í Brussel er ekki ljóst hvers eðlis niðurskurðurinn verður, hvort fjarlægðir verða gamlir skriðdrekar og hvað við þá verður gert.

Við blasir að árlega framleiða Sovétríkin 3.500 skriðdreka jafnframt því sem þeir eiga fjöldann allan af úreltum skriðdrekum allt frá því í seinni heimsstyrjöldinni. Niðurskurður á herafla virðist fyrst og fremst beinast að því að gera Kínverja ánægða en af þeirri hálfu milljón hermanna sem fækka á um eru einungis 50 þúsund í Evrópu, 450 þúsund verða því fluttir annarsstaðar frá og þá líklegast landamærahéruðunum við Kína.

Ráðherrarnir vottuðu aðstandendum þeirra sem fórust er herflugvél lenti á íbúðarhúsum í Rem scheid í Vestur-Þýskalandi samúð sína og sömuleiðist aðstandendum fórnarlamba jarðskjálftans í Armeníu.

Reuter

George Shultz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði aðekki bæri að líta á yfirlýsingu Míkhaíls Gorbatsjovs Sovétleiðtoga sem áróðursbragð.