Listasafnið á Laugarnesi Listrýnirinn hafði ekki komið á safn Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnesinu frá opnun þess 21. október, er hann leit þar inn á dögunum.

Listasafnið á Laugarnesi Listrýnirinn hafði ekki komið á safn Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnesinu frá opnun þess 21. október, er hann leit þar inn á dögunum. Var hann í fylgd nemenda sinna við MHÍ og sá í raun allt safnið í fyrsta skipti, því að hann skoðar yfirleitt sýningar mjög lauslega við opnanir.

Að til væri salur á annarri hæð, hafði hann og ekki hugmyndum, enda er hann þannig staðsettur að auðvelt er að yfirsjást uppgangurinn. En það er skemmst frá að segja, að sú viðbót er mjög drjúg, eiginlega djásn safnsins, því að þótt salurinn sé ekki stór, er hann einstaklega fallegur og fellur vel að myndverkunum, sem til sýnis eru, auk þess sem að útsýnið er dýrlegt yfir sundin. Salurinn er hlaðinn innileika, "in timitet", og sem skapaður utanum hin minni verk og ekki fer hjá því, að maður verði gripinn rammri stemmningu, sem er einsog framhald galdrafjalanna á jarðhæð.

- Þetta litla safn úti á Laugarnesinu er vissulega líkast djásni í borgarlandinu og þangað er gott að koma. Ég sannfærðist ennfrekar um það, er ég leit þangað inn á afhallandi degi sl. laugardag í ekta skammdegi, en þá var sem ófreskur seiður léki um húsið allt og umhverfið og fjaran svo töfrandi, að ég átti erfitt með að slíta mig lausan. Hingað ættu skáldin að koma og yfirhöfuð allir listamenn, þegar andagiftin er í lágmarki og hlaða sig eldsneyti til nýrra og ferskra átaka.

Á borði í kaffistofu liggja sýningarskrár víða að til uppfletting ar, svo að eiginlega má dvelja þarna langtímum saman og njóta menningaráhrifa.

List Sigurjóns er og allstaðar nærverandi ásamt því sviði, er hún var sköpuð í. Á sýningunni, sem nú er uppi, má fylgja þróun hans allt frá hinni gullfallegu stúlkumynd, sem hann gerði árið 1931 og til verka, sem hann gerði árið 1980 og mun vera með því síðasta, sem hann lauk við.

Hér er og til sýnis hin þekkta mynd "Kona" frá 1939, sem gerð var í þýskan sandstein og er í eigu Lousiana-safnsins í Humlebæk, þar sem hún hefur lengi átt sinn sérstaka stað úti í garðinum fagra, og fer þangað aftur að vígslusýningunni lokinni.

Og þarna eru margar frægar myndir frá ferli listamannsins, sem eins og kunnugt er var fjöl hæfastur íslenzkra myndhöggvara um sína daga og með meira næmi í fingurgómunum en þeir allir. Á ég hér við formrænt næmi, sem einungis næst við þrotlausa þjálfun og er hlutur, sem mörgum sést yfir í dag, en hér var hann yfirburðamaður allt frá námsárunum við listaháskólann í Kaupmannahöfn og sú gáfa var staðfest og lagði verðskuldað í lófa hins unga manns gullmedalíu skólans.

Þrjátíu og sjö myndir eru á sýningunni innanhúss og fjórtán utanhúss og ábótin er svo fjaran, sjónhringurinn og sögufrægt umhverfið.

Borgarbúar eiga að meta það, sem hér hefur verið gert, en safnið hefur þegar unnið sér nafn og virðingu út fyrir landsteinana, þvíað veglegar greinar hafa birst um það og framtakið að baki í stórblöðum Danmerkur. Trúlega erþað einungis byrjunin, því að ef rétt verður á málum haldið, er ekki að efa að orðspor þess fari víða og að hingað komi ferðalangar frá útlandinu gagngert til að skoða það og rannsaka list myndhöggvarans Sigurjóns Ólafssonar.

Einfaldlega vegna þess að fólk sækir stíft í slíka staði og safnið er í senn einstaklega fallegur og forvitnilegur rammi utan um lífsverk mikils listamanns . . .