Málarinn Jón Engilberts Myndlist Bragi Ásgeirsson Einn af þeim mönnum, sem sópaði hvað mest að í borgarlífinu um áratuga skeið, var án efa málarinn Jón Engilberts (1908-1972).

Málarinn Jón Engilberts Myndlist Bragi Ásgeirsson Einn af þeim mönnum, sem sópaði hvað mest að í borgarlífinu um áratuga skeið, var án efa málarinn Jón Engilberts (1908-1972). Maðurinn var einfaldlega svo mikill á velli, að það var tekið eftir honum, hvar sem hann kom, og ekki spillti hið einarðlega og ákveðna fas hans. Hann var eins og maðurinn, sem vissi hvað hann vildi, og það sem hann ætlaði sér skyldi framkvæmt, hvað sem það nú kostaði og það þótt hrikti í máttarstoðum himinsins. Og þó var hann eiginlega ekki ýkja hár vexti né mikill um sig, heldur hafði hann einfaldlega svo mikinn útgeislunarkraft.

- Í tilefni útkomu langþráðrar bókar um þennan ágæta málara hefur allmörgum verkum hans verið komið fyrir í húsakynnum Listasafns ASÍ við Grensásveg.

Listaverkin spanna allan feril hans og er sú elsta af Grettisgötunni, þar sem hann átti sín æskuár, og telst máluð árið 1926, er hann var 18 ára að aldri, en hinar elstu eru sértækar litasin fóníur frá sjötta áratugnum.

Það var líkast sem Jón væri í útliti holdgervingur hinnar úthverfu innsæisstefnu (expressjón ismans), hrjúfur á yfirborðinu og skapmikill - viðbrögð hans gátu líkst eldgosi, en samt var hann viðkvæmur innst inni, eins og eldfjöll geta verið fegurst og blíðust fjalla á milli hamfaranna.

Þannig voru og einnig myndir hans, karlmannlegar og ábúðarmiklar, en inni í þeim voru fínir glitvefir og miklar og heitar tilfinningar. Hann vildi gæða myndir sínar holdi og blóði og þoldi enga hálfvelgju og þetta tókst honum, enda eru myndir hans ósvikinn óður til lífsins og náttúrunnar - ást til landsins, sem ól hann, sköpunarverksins og konunnar. Myndir hans voru og tíðum út í fingurgóma ástleitnar og munúðarfullar - hneyksluðu ósjaldan samborgarana, hvað nútímamaðurinn fær vísast ekki skilið.

Þá hafði Jón ríka samúð með lítilmagnanum og baráttu hans fyrir betra lífi og mannsæmandi kjörum, en að sama skapi hafði hann ótrú á stjórnmálamönnum vegna nánasarsemi þeirra við skapandi listir og skilningsleysi. Fengu þeir ósjaldan ádrepu frá honum á opinberum vettvangi, og hér var hann ómyrkur í máli einsog þeir hugsjónamenn, sem vita sig hafa rétt fyrir sér og fylgja sannfæringu sinni, jafnvel þótt það komi niður á þeim sjálfum.

Jón Engilberts stóð alla tíð með báða fæturna á jörðinni og vildi finna list sinni stað í safaríkri gróðurmold, en varð að lifa við skilningsleysi á útskeri fjarst í eilífðar útsæ, en þau örlög voru honum einmitt töm á tungu, og má hann hafa haft mikið til síns máls.

Sýning verka þessa kraftmikla persónuleika má ekki fara framhjá neinum, er ann myndlistum, og fjölmiðlum jafnt og ljósvakamiðlum er skylt að vekja góða athygli á þessum listviðburði, annað telst að storka landvættunum, sem kann varla góðri lukku að stýra . . .