Scherlotta J. Jónsdóttir ­ Minningarorð Fædd 19. mars 1897 Dáin 1. desember 1988 Í dag, 10. desember, er til moldar borin frá Brimilsvallakirkjugarði, Fróðárhreppi, Scherlotta Jónsdóttir fyrrum húsfrú í Fögruhlíð, sömu sveit, en síðustu 20 árin búsett í Ólafsvík.

Lotta, en þannig var hún ætíð ávörpuð af vinum og kunningjum, fæddist 19. mars 1897 í Hrísum, Innri-Neshreppi (nú Fróðárhreppur). Foreldrar hennar voru Ingveldur Jónsdóttir frá Mávahlíð og Jón Sigurðsson frá Höfða í Eyrarsveit. Þeim varð fimm barna auðið: Áslaug, d. 1973, giftist Þorgilsi Þorgilssyni bónda Þorgilsstöðum, Stefán, bóndi Hrísum, d. 1964, giftist Kristínu Sigurðardóttur, Hjörtur, ókvæntur, fórst með gamla Gullfossi 27. febrúar 1941 undan Snæfellsjökli, Hermanía, d. 1921, giftist Ögmundi Jóhannssyni, d. 1937, og Scherlotta sem við fylgjum til grafar í dag.

Jón stundaði búskap og sótti sjóinn eins og flestir urðu að gera í þá daga undir Jökli. Formaður var hann um langt árabil, farsæll í sjósókn sinni og færði mikla björg í bú.

Lotta ólst upp á glaðværu heimili í hópi góðra systkina. Með einhverjum hætti tókst henni að eignast hljóðfæri, tvöfalda harmonikku, sem í þá daga þótti kjörgripur til að leika á fyrir dansi. Hún æfði gömludansa lögin heima og æði oft var kátt á hjalla í stofunni í Hrísum. Þegar unga fólkið í hreppnum kom saman til að skemmta sér var Lotta fengin til að spila í litla samkomuhúsinu á Völlum og í Ólafsvík, og voru þá fáir sem sátu á bekkjum þegar hún fór léttum fingrum um nótnaborðið og ljúfir tónar liðu um salinn.

Þann 22. desember 1917 gekk húnað eiga efnismann mikinn, Brand Sigurðsson að nafni, frá Lág í Eyrarsveit, þá sjómaður í Ólafsvík. Flutti hún nú úr föðurgarði og hófu ungu hjónin búskap í Ólafsvík, hann sótti sjóinn en hún bjó manni sínum fallegt heimili. Æskuþróttinn áttu þau bæði og framtíðaráformin voru stór. Á þessum tíma var bújörðin Fagrahlíð til sölu og festu þau kaupá jörðinni, þótt eigið fé væri lítið, og mun Sparisjóður Ólafsvíkur hafakomið þar við sögu. Ákveðið var að flytja inn að Fögruhlíð vorið 1920 og hefja þar búskap. En enginn veit sín örlög fyrir.

Skyndilega bar ský fyrir sólu. Fyrstu mánuði árs 1920 var Brandur háseti á kútter Valtý, sem var vandað þilskip þess tíma. Í aftakaveðri í marsmánuði það ár fórst Valtýr með allri áhöfn og var þá þungur harmur kveðinn að Lottu. En hún var vel af Guði gerð, bæði til líkama og sálar, og lét ekki bugast.

Eiginmaðurinn var horfinn eftir aðeins þriggja ára samúð, en þau höfðu eignast tvo efnilega syni, semáttu eftir að verða hennar stoð og stytta á löngum ævidegi. Þeir eru: Sigurður fæddur 14. október 1917, nú búsettur í Ólafsvík, kona hanser Margrét Árnadóttir frá Tröð, og Ólafur fæddur 28. október 1919, búsettur í Hafnarfirði, kona hans er Fanney Magnúsdóttir frá Neskaupstað. Báðir þessir drengir eru miklir sómamenn og góðum gáfum gæddir.

Lotta var kona föst fyrir og með aðstoð foreldra sinna fluttist hún með börnin sín tvö inn í Fögruhlíð á tilsettum tíma og um svipað leyti fluttu foreldrar hennar frá Hrísum í Fögruhlíð, þar sem þau stóðu viðhlið dóttur sinnar í þeim miklu erfiðleikum sem hún stóð nú andspænis, og auðnaðist þeim að leggja henni lið allt til ársins 1939 er þau létust.

Þann 12. júní 1934 eignaðist Lotta sinn þriðja son. Hann var skýrður Guðmundur og er Hjartarson. Hann ólst upp hjá móður sinni og að loknu skyldunámi tók hann Samvinnuskólann og vann um tíma hjá Kaupfélaginu Dagsbrún í Ólafsvík. Ég held, að halli ekki á neinn þó ég segi að Guðmundur hafi reynst móður sinni fádæma vel, og raunar leitun að öðru eins og sýnir það best hve góða sál hann hefur að geyma. Enginn veit tölu þeirra ferða sem þau áttu saman vítt um land við náttúruskoðun og steinaleit, en Guðmundur er áhugamaður á því sviði og á nú marga sjaldséða steina í sínu stóra safni.

Árið 1968 fluttist Lotta aftur til Ólafsvíkur og var heimili hennar að Ólafsbraut 22, en síðar að Mýrar holti 7, sem Guðmundur festi kaupá. Þar áttu þau saman hlýlegt og gott heimili.

Það að kynnast Lottu og hennar persónuleika er góð reynsla, alltaf var það efst í huga að gera öðrum greiða og gleðja þá sem stóðu henni nálægt. Lífsfylling og innri gleði bar vott um sátt við lífið, örlögin og sjálfa sig. Hún hafði því sjálfstraust og sjálfsöryggi til að fara sínar eigin leiðir og láta í ljós skoðanir sínar óhikað.

Fyrir um það bil mánuði heimsóttum við hjónin Lottu, var hún þá sama glaðværa og káta konan og við höfðum ætíð hitt fyrir. En að skilnaði hafði hún á orði við okkur að nú færi að líða að leiðarlokum og brosti til okkar um leið. Við gengum niður útitröppurnar en hún lagði hurðina hljóðlega að stöfum.

Nú þegar Lotta hefur verið kölluð burt úr þessum heimi, leiðum við hugann að þeim ljúfu minningum, sem við eigum um hana og dylst okkur ekki að gengin er verðugur fulltrúi sinnar kynslóðar, sem varðað vinna hörðum höndum við þær erfiðu aðstæður sem aldamótakynslóðinni voru búnar.

Um leið og við kveðjum Scherlottu hinstu kveðju, þökkum við sérstaklega þá hjartahlýju er hún bar í brjósti til okkar hjónanna, og biðjum Guð að blessa minningu hennar.

Anna og Sveinn B. Ólafsson