Kveðjuorð: Daníel Williamsson ljósameistari Sorgarfregn, við eigum erfitt meðað trúa, en samt er það satt. Sá sem í gær var þátttakandi í hinu daglega lífi, hlekkur í tilverunni, honum er í dag kippt burtu af ástæðum sem viðskiljum ekki, og komum ekki til meðað skilja. Minningar streyma fram. Minningar frá ýmsum skemmtilegum samverustundum, ferðalag um Evrópu, margar fleiri og allar á sama veg. Minningar um rólyndan, þægilegan, heiðarlegan, tryggan vin. Ég á ekki nema góðar minningar um mág minn, Daníel Willamsson, sem í dag verður til moldar borinn.

Daníel fæddist á Ólafsfirði og ólstþar upp. Hann lauk námi í rafvirkjun, og einnig stundaði hann leiklistarnám. Mestan hluta starfsævi sinnar helgaði hann Leikfélagi Reykjavíkur, sem ljósameistari. Það er mikil gæfa hverjum manni að fá tækifæri til að stunda vinnu sem jafnframt er helsta áhugamál viðkomandi. Ég er þess fullviss að Leikfélagið sér á bak góðum og dyggum starfsmanni. Það hefur verið stórt skref sem Daníel sté, er hann gekk að eiga systur mína, Kristínu Egilsdóttur, sem þá var ekkja og fjögurra barna móðir. Um leið og hún eignaðist tryggan og góðan eiginmann, eignuðust börnin, sem þá voru, föður sem alla tíð bar þeirra hag fyrir brjósti, en föður sinn höfðu þau misst er togarinn Júlí fórst. Saman eignuðust þau eina dóttur, Ágústu, sem heitin er eftir móður Daníels. Alla tíð var samband Daníels við barnahópinn gott, og á hann sinn þátt í því að í dag eru þau öll mannkostafólk. Það getur varla verið annað en erfitt hlutskipti að taka að sér slíkan barnahóp, en aldrei heyrði ég annað en að fyrir honum hafi þetta verið eðlilegt framhald kynna þeirra Kristínar.

Sorg þeirra allra, Kristínar, barnanna, tengdabarnanna og barnabarnanna, er því mikil og missirinn stór. En áfram lifir minningin um góðar stundir, góðan eiginmann, föður, tengdaföður og afa. Við sækjum styrk í bænina og biðjum algóðan Guð að veita honum ró, en ástvinum hans líkn.

Við Ella þökkum samfylgdina og biðjum ykkur blessunar Guðs.

Ástbjörn Egilsson