Dagbjört Pálsdóttir ­ Minning Fædd 2. september 1905 Dáin 25. nóvember 1988 Láttu nú ljósið þitt loga við rúmið mitt hafðu þar sessu og sæti signaða Jesú mæti. Hún Dadda frænka er dáin! Nú hefur hún fengið langþráða hvíld. Síðustu árin hafa verið veikindi og þrautir. 83 ár er nokkuð löng ævi. Nú nálgast jólahátíðin og þá fer í hönd sá tími er minningar frá liðnum æskudögum koma í huga manns. Þær eru margar, bæði með sorg og gleði. Því það er nú svo að meðan við sofum með sorginni, er gleðin á næsta leiti og öfugt. "Dadda frænka" var frænka okkar allra í fjölskyldunni. Hvort sem hún var móður-, föður-, afa- eða ömmusystir okkar.

Mínar fyrstu minningar eru frá Lindargötunni á Sigló þar sem afi og amma og frænkurnar bjuggu. Afi Páll dó 1938 en samt man ég það enn eins og það hefði gerst í gær. Það var mín fyrsta stóra sorg. Það voru að koma jól eins og nú. Þá fannst mér "Guð ekki góður að taka afa frá okkur". Eftir það bjuggu þær þrjár á Lindargötunni, amma Ágústa, "Dadda frænka" og Laufey.

En sama árið og lýðveldið varstofnað fjölgaði á Lindargötunni, þá fæddist Óli, sonur Laufeyjar. Ári seinna eignaðist Dadda sitt eina barn, Erling. Þau Stefán Hallgrímsson höfðu gengið í hjónaband árið áður, svo nú var nokkuð margt á Lindargötu þó húsið væri lítið. En þar sem er hjartarúm, þar er húsrúm. Næstu árin voru full af gleðiog hamingju. Enn bættist í hópinn í Lindargötuhúsinu 1947 er Gunndís fæddist. Ég var elsta barnabarnið hennar Ágústu ömmu og eina stúlkan, þar til Laufey átti Gunndísi. Svo ýmsar kröfur voru gerðar til mín á þessum árum. Enn líða nokkur ár í hamingju og gleði, en svo 1957 deyr faðir minn, "Gestur bróðir" eins og Dadda sagði alltaf. Ég var ekki heima er pabbi dó. Hún tók á móti mér á bryggjunni heima og sagði "nú verður þú að vera dugleg stúlka Vigga mín". Hún var alltaf þannig. En tveimur árum seinna urðu þau fyrir sinni miklu sorg Stefán og Dadda að missa einkasoninn Erling, ljósgeislann sinn. Hann varð fyrir slysi. Ég held og veit að Dadda náði sér aldrei eftir þetta áfall. Þó svo hún ræddi það ekki við neinn. Fyrren eitt sinn stuttu fyrir jól að húnvar stödd hjá mér, 10 árum seinna.

Þau fóru frá Sigló sama ár og Erlingur dó, fyrst til Vestmannaeyja á vertíð. Síðan lá leiðin til Hafnarfjarðar. Eftir að Erlingur dó breiddi hún sig yfir okkur, systkinabörn sín. Og seinna börn okkar. Ég geymi ennþá gull er hún sendi börnunum mínum fyrstu árin sem þau lifðu. Er ég eignaðist son 1955 var hún ekki að biðja mig um nafn. Hún vissi að ég myndi láta hann heita Gest eftir bróður hennar. En seinna er Jón bróðir og Lóa eignuðust dreng var hann látinn heita Erlingur. Ég veit að henni þótti mjög vænt um það og Stefáni einnig. Kannski á ég ekkiað tíunda hvað Dadda og Stefán hafa gert fyrir okkur, það gera kannski aðrir. En þau voru alltaf að gefa, bæði tíma og peninga, en ekkisíst af sjálfum sér. Margar voru ferðirnar er þau fóru í bíltúr með mig og börnin á Þingvöll, Hveragerði, o.fl. Oft var boðið í mat og alltaf var "veisla hjá þeim Döddu og Stefáni". Á árunum 1962-1972 er ég bjó fyrirsunnan var hún alltaf boðin og búin að hjálpa. Þegar annað hvort börnin eða ég vorum veik. Varð bara að hringja, svo kom hún.

Ekki má gleyma því sem tilheyrði jólaundirbúningi, það er laufabrauðs bakstrinum sem fram fór í Firðinum, hjá Döddu og Stefáni. Hann kenndi börnunum mínum að skera út. Hanner snillingur í því. Svo var bakað og kökurnar áttu að ná frá Hafnarfirði til Kópavogs, í að minnsta kosti eitt skiptið.

Heimilið prýddi hún með handavinnu sem hún vann sjálf. Samt hafði hún aðeins annað augað meira en hálfa ævina. Einnig gaf hún margt af því sem hún vann í höndum, því henni féll varla verk úr hendi. Óla hjálpuðu þau er hann byrjaði langskólanám. Dætur Laufeyjar, Gunndísi, Ásu Dagbjörtu, Ástu og Ágústu, á þær allar held ég að hún hafi litið sem hálfgerðar dætur sína. Alltaf var hún að hugsa um hjörðina sína. Þrjú börn á ég, Jón bróðir þrjú og Matthías fjögur börn. Öll þessi börn fengu jólaglaðning hver jól. Og marga fleiri gladdi hún. Hún var gjafmild en helst mátti enginn fá að vita er hún stakk einu og öðru að manni. Já, það er margs að minnast og margt að þakka kæru frænku minni. Það er sárast að vita hve síðustu árin voru henni erfið. Stefán hefur líka haft það erfitt. Ég vilekki síður þakka honum fyrir að hafa alltaf verið þolinmóður og verið nærri frænku, þennan síðasta tíma.

Ég horfi yfir hafið

um haust af auðri strönd

í skuggaskýjum grafið

það skilur mikil lönd.

Sú ströndin strjála og auða,

er stari ég héðan af,

er ströndin stríðs og nauða,

er ströndin hafsins dauða,

og hafið dauðans haf.

Ég veit að Dadda fær góða heimkomu. Það verður tekið vel á móti henni af þeim sem á undan eru farnir. Þar fær hún hvíld og frið. Eftir þessi erfiðu ár hér á okkar voluðu jörð.

Lýs, milda ljós, í gegnum þennan geim,

mig glepur sýn,

því nú er nótt, og harla langt er heim.

Ó, hjálpin mín,

styð þú minn fót; þótt fetin nái skammt,

ég feginn verð, ef áfram miðar samt.

Gunndísi vil ég einnig þakka alltsem hún var Döddu alla tíð. Hún reyndi að vernda hana síðustu árin fyrir vondum fréttum, svo henni gæti liðið sem best. Hún Gunndís var ljósgeislinn hennar nú síðustuárin.

Að lokum sendi ég Stefáni og öllum öðrum mínar samúðarkveðjur, og bið góðan Guð að varðveita ykkur öll.

Viktoría Særún Gestsdóttir

(stödd í Noregi)