TÆKNIVAL hefur ásamt Landsteinum og nokkrum fyrrum starfsmönnum Strengs hf. stofnað nýtt fyrirtæki hér á landi sem hyggst selja og þjónusta viðskiptahugbúnaðinn Fjölni og Navision financials, danska hugbúnaðinn sem Fjölnir byggir á. Fyrirtækið hefur hlotið nafnið Navís, og á Tæknival 50% hlutafjár á móti 24% Landsteina og 26% hluts starfsmanna.
Tæknival meðal stofnenda nýs hugbúnaðarfyrirtækis

Tekist á um viðskipta-

hugbúnaðinn Fjölni

TÆKNIVAL hefur ásamt Landsteinum og nokkrum fyrrum starfsmönnum Strengs hf. stofnað nýtt fyrirtæki hér á landi sem hyggst selja og þjónusta viðskiptahugbúnaðinn Fjölni og Navision financials, danska hugbúnaðinn sem Fjölnir byggir á. Fyrirtækið hefur hlotið nafnið Navís, og á Tæknival 50% hlutafjár á móti 24% Landsteina og 26% hluts starfsmanna.

Að sögn Þorsteins Guðbrandssonar, framkvæmdastjóra Navís, sjá menn ýmsa möguleika í markaðssetningu og sölu þessa hugbúnaðar hér á landi, m.a. vegna samstarfsins við Tæknival. Hann segir að gert sé ráð fyrir því að hið nýja fyrirtæki hefji starfsemi í apríl, en enn eigi þó eftir að ganga frá samningum við Streng varðandi leyfi til að selja Fjölni.

Landsteinar hafa á undanförnum árum lagt áherslu á markaðssetningu og sölu á Navision hugbúnaðinum erlendis og hefur fyrirtækið meðal annars sett á fót dótturfyrirtæki í Bretlandi til að sjá um sölu búnaðarins þar. Fram til þessa hefur það hins vegar ekki selt Fjölni hér á landi.

Þrýst á um breytingar á dreifingarkerfinu

Strengur er eini dreifingar- og þróunaraðili Fjölnis-hugbúnaðarins hér á landi, en auk Strengs selja nokkur fyrirtæki hugbúnaðinn. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun þó vera þrýst á um að breyting verði gerð á þessu fyrirkomulagi. Bent er á að erlendis sé skipulag þessara mála með talsvert öðrum hætti hvað sölu og dreifingu á þessum hugbúnaðarkerfum varðar. Þar komi sá aðili sem sjái um þróun og dreifingu hugbúnaðarins hvergi nálægt sölu hans til endanlegra notenda.

Haukur Garðarsson, framkvæmdastjóri Strengs, segir að sér sé kunnugt um hið nýja fyrirtæki en hann reiknar ekki með því að tilkoma þess á markaðinn muni hafa veruleg áhrif á starfsemi Strengs. "Við erum með dreifingarréttinn í dag samkvæmt samningum okkar við framleiðanda hugbúnaðarinns, ásamt því að vera með nokkra söluaðila á okkar snærum. Þetta fyrirtæki kemur því væntanlega aðeins til með að verða einn söluaðili til viðbótar, ef samningar takast milli Strengs og þessara aðila."

Haukur segir að Strengur hafi unnið að sölu og markaðssetningu Fjölnis frá árinu 1989. Þetta markaðsstarf hafi gengið mjög vel og sennilega sé Fjölnir nú einn mest seldi viðskiptahugbúnaður hér á landi. "Þegar vel gengur þá er mjög algengt að fleiri vilji njóta uppskerunnar og því eðlilegt að nýir aðilar reyni komast þarna inn sem söluaðilar," segir Haukur.