Í DAG frumsýnir Leikfélag Menntaskólans í Reykjavík, Á Herranótt, gamanleikinn Sjálfsmorðingjann í Tjarnarbíói. Verkið er eftir Rússann Nikolaj Erdman og var þýtt af Árna Bergmann fyrir "Á Herranótt '96." "Í tilefni af 150 ára afmæli Menntaskólans er sýningin í ár með glæsilegasta móti og miklu hefur verið kostað til að gera hana sem best úr garði enda eru þátttakendur komnir á 7.
Sjálfsmorðinginn

á Herranótt

Í DAG frumsýnir Leikfélag Menntaskólans í Reykjavík, Á Herranótt, gamanleikinn Sjálfsmorðingjann í Tjarnarbíói. Verkið er eftir Rússann Nikolaj Erdman og var þýtt af Árna Bergmann fyrir "Á Herranótt '96." "Í tilefni af 150 ára afmæli Menntaskólans er sýningin í ár með glæsilegasta móti og miklu hefur verið kostað til að gera hana sem best úr garði enda eru þátttakendur komnir á 7. tuginn," segir í kynningu.

Leikstjori er Magnús Geir Þórðarson, leikmyndar- og búningahönnuður Snorri Freyr Hilmarsson og ljósabúnaður Sigurður Kaiser Guðmundsson. Tónlistin er eftir Ólaf Björn Ólafsson, nemanda í Menntaskólanum.

Í kynningu segir: "Verkið er samið í kringum 1930 og gerist á því tímabili. Þetta voru miklir umhleypingatímar í Rússlandi, þjóðin var ekki búin að jafna sig á þeim hörmungum sem fylgt höfðu í kjölfar októberbyltingarinnar 1917 og mátti raunar enn þola margt. Ógnarstjórn Stalíns var við völd og sá til þess að fólk kæmist ekki upp með neitt múður. Gúlagið, þrælkunarbúðir í Síberíu, biðu þeirra sem óhlýðnuðust og þar lenti einmitt Nikolaj Erdman, höfundur Sjálfsmorðingjans. Hann skrifaði tvö leikrit, Umboðið og Sjálfsmorðingjann, og bæði voru þau bönnuð vegna þess að þau þóttu ádeila á Sovétstjórn."

25 leikarar taka þátt í sýningunni auk hljómsveitar en helstu hlutverk eru í höndum Ólafs Egils Egilssonar, Estherar Talíu Casey, Sólveigar Guðmundsdóttur, Ragnars Kjartanssonar og Katrínar Brynju Valdimarsdóttur.

Sýningar verða 10 talsins, þær fyrstu 7. og 9. mars kl. 20 í Tjarnarbíói. Verð 400 kr. fyrir innanskólafólk, 600 kr. fyrir aðra menntaskólanema, 1.000 kr. fyrir aðra.