GUÐLAUGUR

ÞORVALDSSON

Guðlaugur Þorvaldsson fæddist 13. október 1924 að Járngerðarstöðum í Grindavík. Hann lést á Landspítalanum í Reykjavík 25. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru Þorvaldur Klemensson útvegsbóndi og trésmiður á Járngerðarstöðum í Grindavík og Stefanía Margrét Tómasdóttir. Guðlaugur var næstyngstur fimm alsystkina. Elst er Margrét, húsfreyja í Hafnarfirði, næstur kemur Tómas, útgerðarmaður í Grindavík, þá Halldóra, fyrrverandi símstöðvarstjóri í Reykholti í Borgarfirði, og yngst er Valgerður húsfreyja í Grindavík. Hálfsystir þeirra, samfeðra er Lovísa, húsfreyja.

Eftirlifandi eiginkona Guðlaugs er Kristín Hólmfríður Kristinsdóttir, ritari. Foreldrar hennar voru Kristinn Ágúst Sigurðsson, sjómaður í Reykjavík, og Júlíana Kristjánsdóttir, húsfreyja.

Guðlaugur og Kristín gengu í hjónaband þann 18. mars árið 1950. Þeirra synir eru Steinar Þór, dósent í jarðeðlisfræði við Óslóarháskóla, f. 10. febrúar 1951, Gylfi Kristinn, meinatæknir, f. 17. desember 1954 d. 25. júní 1979, Þorvaldur Óttar, grafískur hönnuður, f. 3. apríl 1959, og Styrmir, blaðamaður, f. 22. desember 1963. Steinar er kvæntur Margréti Óskarsdóttur forstöðumanni Islandia Travel í Ósló. Þeirra börn eru Hrafn, f. 16. janúar 1976, og Ása, f. 20. júní 1990. Sambýliskona Þorvaldar Óttars er Arndís Tómasdóttir, skrifstofumaður hjá Pennanum. Dóttir þeirra er Kristín Lena, f. 16. feb. 1983. Dóttir Arndísar og fósturdóttir Þorvaldar Óttars er Erna Rán Arndísardóttir. Eiginkona Styrmis er Thelma Hansen, fjármálastjóri Stjórnunarfélags Íslands.

Guðlaugur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1944 og kandídatsprófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1950. Hann dvaldist í Bandaríkjunum árið 1968 sem Eisenhower Exchange Fellow.

Eftir stúdentspróf kenndi Guðlaugur veturlangt við Núpsskóla í Dýrafirði, 1944-45. Hann var blaðamaður og sinnti ritstjórn við vikublaðið Fálkann 1946-58, stundakennari í hagfræði við Verzlunarskóla Íslands 1950-61. Árið 1950 réðst hann til starfa sem fulltrúi á Hagstofu Íslands og var deildarstjóri þar 1956-66. Hann hóf kennslu við viðskiptadeild Háskóla Íslands árið 1956 og var stundakennari við deildina til ársins 1967, en settur prófessor 1960-61. Jafnframt var hann leiðbeinandi á námskeiðum hjá Stjórnunarfélagi Íslands og fleiri aðilum. Hann var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu 1966-67 en var þá skipaður prófessor við Háskóla Íslands. Hann var kjörinn rektor Háskóla Íslands árið 1973 og gegndi því embætti tvö kjörtímabil, til ársins 1979. Þá var hann skipaður í embætti ríkissáttasemjara. Hann lét af störfum fyrir aldurs sakir í árslok 1994. Guðlaugur var í framboði til embættis forseta Íslands árið 1980.

Guðlaugur gegndi fjölda trúnaðarstarfa og formennsku í mörgum nefndum, stjórnum og ráðum. Hann sat í Stúdentaráði Háskóla Íslands 1946-47 og var formaður Félags viðskiptafræðinema á sama tíma. Hann var formaður Félags viðskiptafræðinga 1951-56, formaður Starfsmannafélags Stjórnarráðsins 1959-60, formaður Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur 1959-60, formaður Lyfjaverðlagsnefndar 1960-72, formaður nefndar til undirbúnings nýrra laga um uppsetningu fjárlaga og ríkisreiknings 1961-63 og höfundur gildandi laga um fjárlagagerð og ríkisbókhald frá 1965. Hann var stjórnarformaður Happdrættis Háskóla Íslands 1969-79, Lífeyrissjóðs bænda 1971-78 og Stofnunar Árna Magnússonar 1973-79. Hann átti sæti í stjórn Norræna hússins 1978-90, sem varaformaður 1978-81 og formaður 1981- 1990. Auk þess var hann formaður Reykjavíkurdeildar Norræna félagsins og í stjórn Norræna félagsins á Íslandi 1985-91. Þá veitti hann formennsku nefnd vegna hátíðarhalda í tilefni 800 ára afmælis Snorra Sturlusonar 1979. Af öðrum nefndum og stjórnum sem Guðlaugur átti sæti í má nefna fastanefnd um laun opinberra starfsmanna 1958-63, sjóslysanefnd 1959, sóknarnefnd Háteigskirkju frá 1960, samnorræna nefnd um eftirlaun 1966, flugvallanefnd 1966-67, Hvalfjarðarnefnd 1969, matsnefnd vegna sameiningar Flugfélags Íslands hf. og Loftleiða hf. 1973-76, nefnd Evrópuráðsins um æðri menntun og rannsóknir 1973-79 og stjórn Vísindasjóðs 1975-78

Guðlaugur var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1975 og Stórriddarakrossi fjórum árum síðar, 1979. Konungar Noregs og Svíþjóðar sæmdu hann stórriddarakrossi og forseti Finnlands stórriddarakrossi með stjörnu.

Útför Guðlaugs fer fram frá Dómkirkjunni í dag, þriðjudaginn 2. apríl, og hefst athöfnin kl. 13.30.